Saka Domingo um kynferðisáreitni

Spænski óperusöngvarinn Placido Domingo. Níu konur ræða við AP um …
Spænski óperusöngvarinn Placido Domingo. Níu konur ræða við AP um áreitni sem þær sættu af hans hálfu. Hegðun söngvarans er sögð hafa verið vel geymt leyndarmál innan óperuheimsins. AFP

Um áratugaskeið áreitti óperusöngvarinn Placido Domingo, sem er einn virtasti og valdamesti söngvari óperuheimsins, konur, þrýsti á þær að stunda kynlíf með sér með því að lofa þeim verkefnum. Þá refsaði hann einnig konum fyrir að hafna sér.

AP-fréttaveitan greinir frá þessu og ræðir við átta söngkonur og einn dansara sem saka Domingo um áreitni. Atvikin sem um ræðir áttu sér stað yfir um þriggja áratuga skeið allt frá upphafi níunda áratugar síðustu aldar. Segir AP hegðun söngvarans hafa verið vel þekkt leyndarmál innan óperuheimsins.

Ein kvennanna sem AP ræddi við segir Domingo hafa stungið hendinni upp undir pils hennar og þrjár aðrar segja hann hafa neytt upp á þær blautum kossum. Atvikin áttu sér stað í fataherbergi, hótelherbergi og á hádegisverðarfundi. „Hann var alltaf að snerta mann einhvers staðar og kyssa,“ sagði ein kvennanna.

Segir ásakanirnar sársaukafullar

AP segir sex konur til viðbótar hafa greint frá að þeim hafi fundist þreifingar Domingos óþægilegar, m.a. ein söngkona sem sagði hann hafa ítrekað boðið henni á stefnumót eftir að hafa ráðið hana til að syngja með honum í tónleikaröð á tíunda áratugnum.

Domingo svaraði ekki spurningum sem AP lagði fyrir hann, en sendi frá sér yfirlýsingu þar sem hann sagði „ásakanir ónafngreindra einstaklinga“ vera rangar.

Placido Domingo ræðir við dansara baksviðs að lokinni sýningu.
Placido Domingo ræðir við dansara baksviðs að lokinni sýningu. AFP

„Engu að síður er sársaukafullt að frétta að ég kunni að hafa komið einverjum í uppnám og valdið óþægindum. Engu máli skiptir þar hversu langt var síðan eða að ætlun mín hafi verið önnur,“ sagði í yfirlýsingunni. Kveðst Domingo hafa talið gjörðir sínar og sambönd ætíð hafa notið samþykkis.

Þeir sem þekki hann viti að hann sé ekki maður sem valdi viljandi skaða, móðgi eða valdi vandræðum. Aðrir staðlar gildi hins vegar í dag, en hafi gert áður.

„Vil ekki að þér líði eins og gleðikonu“ 

Aðeins ein kvennanna níu var reiðubúin að láta nafn sitt koma fram í grein AP af ótta við hefnd og áreiti fyrir að greina frá. Sjö þeirra sögðu feril sinn hafa liðið fyrir að þær höfnuðu Domingo og nokkrar þeirra sögðu hlutverk sem hann hefði lofað þeim hafa orði að engu.

Tvær kvennanna sögðust hafa látið undan Domingo skamma stund af ótta við að það myndi skaða starfsframa þeirra að synja honum. 

Ein kvennanna sagðist þá í tvígang hafa stundað kynlíf með Domingo, m.a. á Biltmore hótelinu í Los Angeles. Hún segir að þegar Domingo yfirgaf hótelherbergið til að skemmta þá hafi hann lagt 10 dollara seðil á snyrtiborðið. „Ég vil ekki að þér líði eins og gleðikonu, en ég vil ekki heldur að þú þurfir að borga fyrir að leggja,“ segir hún Domingo hafa sagt.

Margar kvennanna sem AP ræddi við segjast ítrekað hafa verið varaðar af kollegum við að vera einar með honum, jafnvel í lyftu. Ef þær samþykktu að snæða með söngvaranum ættu þær að gæta þess að drekka ekki og passa að fundurinn væri á opinberum vettvangi og í hádeginu.

AP segir konurnar flestar hafa verið ungar og að hefja feril sinn er atvikin áttu sér stað.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Deildu því sem þú veist og hvettu þá sem vanir eru að liggja á sínu, til þess að slaka aðeins á. Ekki láta þetta á þig fá því það gengur á ýmsu í öllum lífsins ævintýrum.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Deildu því sem þú veist og hvettu þá sem vanir eru að liggja á sínu, til þess að slaka aðeins á. Ekki láta þetta á þig fá því það gengur á ýmsu í öllum lífsins ævintýrum.