„Litríkt og spennandi leikár“

Ari Matthíasson Þjóðleikhússtjóri.
Ari Matthíasson Þjóðleikhússtjóri. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Þjóðleikhúsið mun halda upp á 70 ára afmæli sitt á leikárinu og leikárið ber svolítinn keim af því,“ segir Ari Matthíasson Þjóðleikhússtjóri þegar hann sest niður með blaðamanni Morgunblaðsins og ræðir leikárið sem fram undan er.

„Leikárið verður sérstaklega viðamikið og við leggjum áherslu á sýningar fyrir börn og ungt fólk. Við erum með að minnsta kosti tíu sýningar fyrir þann aldurshóp og þar af látum við semja fyrir okkur þrjú leikverk. Við munum fara með þrjár leiksýningar fyrir börn og ungmenni um allt land og sýna án aðgangseyris. Þetta er gert til þess að styðja við menningu og listir án aðgreiningar út frá búsetu og efnahag. Það hefur verið mér mikið metnaðarmál að Þjóðleikhúsið þjónusti landsbyggðina betur en gert hefur verið og að við gætum sérstaklega að því að menningunni sé ekki misskipt milli þeirra sem hafa efni á að kaupa sér miða og hinna. Þetta er ein af stóru áherslunum á þessu leikári og í öllu starfi mínu sem Þjóðleikhússtjóri.“

Ari nefnir einnig að mikil áhersla sé lögð á íslensk leikverk bæði fyrir fullorðna og börn. „Við erum með sautján íslensk leikverk og þar af eru tólf sem mætti flokka sem nýjar sýningar. Auðvitað sinnir Þjóðleikhúsið skyldu sinni gagnvart nýjum erlendum verkum líka. Við erum með glæný og spennandi erlend verk.“ Hann lýsir leikárinu fram undan með orðunum: „Fjölbreytileiki, stórar og glæsilegar sýningar og sérstök áhersla á íslensk leikverk og verk fyrir börn og ungmenni.“

Byggjast á skáldverkum

Nokkrar af sýningum Þjóðleikhússins í ár byggjast á skáldsögum. Atómstöðina eftir Halldór Laxnessog Meistarann og Margarítu eftir Míkhaíl Búlgakov telur Ari hvora um sig eiga erindi við samtímann. „Atómstöðin fjallar um mjög stór ágreiningsmál sem klufu þjóðina í tvær fylkingar og varða sjálfstæði þjóðarinnar og ég veit ekki betur en að það sé mjög hatrömm umræða í dag sem er lík þessari. Svo er Atómstöðin líka á vissan hátt ástar- og þroskasaga og er spennandi út frá því. Meistarinn og Margaríta er uppáhaldsskáldsaga margra. Þar er mjög spennandi töfraraunsæi. Hún fjallar að vissu leyti um það þegar djöfullinn kemur til Moskvu og maður hefur stundum á tilfinningunni að djöfullinn sé að koma og hræra í pottum í pólitík og samfélagi.“

Skáldsaga Kamillu Einarsdóttur, Kópavogskrónika, verður einnig gerð að leikverki. „Það er ótrúlega skemmtilegur tónn í Kópavogskróniku. Það verður spennandi að sjá hvað Silja Hauksdóttir og Ilmur Kristjánsdóttir gera við þetta, klárar konur báðar tvær.“

Ari vekur athygli á því að Ör eftir Auði Övu er nýtt leikrit sem hún byrjaði að skrifa áður en hún skrifaði samnefnda skáldsögu. „Þótt verkin séu skyld þá er þetta algjörlega nýtt íslenskt leikverk,“ segir hann.

Glæsilegar barnasýningar

Ari vekur athygli á því að afmælissýning Þjóðleikhússins verður Kardimommubærinn eftir Thorbjørn Egner og segir hann það enga tilviljun. „Egner er líklega allra vinsælasta leikskáld sem hefur sýnt í Þjóðleikhúsinu. Þegar verk hans eru sýnd hér þá ganga þau fyrir fullu húsi nánast út í hið óendanlega og fyrir leikurum Þjóðleikhússins þá eru þetta nánast heilög verk. Það er stórkostlegt að bjóða þeim hlutverk í Kardemommubænum. Egner gaf Þjóðleikhúsinu sýningarrétt að verkum sínum í hundrað ár og ákvað að hans höfundarréttartekjur skyldu renna í sjóð sem ætlað var að styrkja leikhús og barnaleikhús svo hann var mikill velgjörðarmaður og þess vegna er það okkur sönn ánægja að heiðra þennan merkilega mann og framlag hans til barnaleikhúss.“ Hann bætir við: „Ef maður finnur sér ekki barn til að koma með þá á maður bara að koma samt. Þetta er skemmtun fyrir fólk á öllum aldri. Við tjöldum öllu til,“ segir Ari.

„Við leggjum mikinn metnað í að sýna stórar og glæsilegar sýningar fyrir börn en líka einfaldari sýningar sem tala til þeirra. Við fáum unga höfunda til þess að semja leikverk fyrir börn. Gunnar Smári Jóhannesson semur verkið Ómar Orðabelgur sem verður frumsýnt á Patreksfirði og Matthías Tryggvi Haraldsson ætlar að semja verk sérstaklega fyrir 13-15 ára krakka. Svo sýnum við Velkomin heim sem María Thelma Smáradóttir hefur aðlagað sérstaklega til sýningar fyrir þennan aldurshóp,“ segir Ari.

Á síðasta leikári gerði leikrit Ævars Þórs Benediktssonar, Þitt eigið leikrit, mikla lukku. Það gengur út á það að áhorfendur ráða förinni og stjórna því hvað gerist næst. „Núna gerum við stærri og öflugri gerð af sýningunni. Við lærðum af framleiðslu á fyrri sýningunni. Þar vorum við svolítið að brjóta blað í leikhússögunni með því að búa til leikverk þar sem áhorfendur gátu kosið um framvinduna. Það er mjög skemmtilegt að fylgjast með upptökum af leikurunum þar sem þeir sitja í hliðarherbergi og bíða eftir kosningunni til þess að fá að vita hvaða leikrit þeir eru að fara að leika.“

Viðtalið má lesa í heild í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Eitt og annað hefur rekið á fjörur þínar, sem fær þig til að efast um þá þú hefur treyst hingað til. Yfirboðarar þínir munu koma þér á óvart næstu vikur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Eitt og annað hefur rekið á fjörur þínar, sem fær þig til að efast um þá þú hefur treyst hingað til. Yfirboðarar þínir munu koma þér á óvart næstu vikur.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant