„Átti auðvelt með íslensku og þannig shit“

Krabba Mane hélt útgáfupartí á Prikinu á dögunum, loksins, loksins, …
Krabba Mane hélt útgáfupartí á Prikinu á dögunum, loksins, loksins, eftir áralanga bið. Nú er það að lifa á listinni, ef Guð lofar. Ljósmynd/Berglaug

„Ætla ekki að hætta, ég vil mynd af mér í blaðið,“ sagði skáldið sem Krabba Mane er, í lagi sem hann gaf út í apríl, Rútínu. 

Blaðið? Sættirðu þig ekki við vefmiðil, Ástþór? Eru þeir ekki nóg fyrir þig?

„Nee, ég vil enn þá fara í blöðin, en þetta er fínt í bili. Ég var nú vanur að segja að ég ætlaði ekki að fara í viðtöl fyrr en það væri Kastljósið. Þeir hafa ekki haft samband, þannig ætli maður segi ekki bara fokk Kastljós,“ segir Ástþór.

Hann er augljóslega kominn í viðtal við mbl.is, þessi stóri maður, þessi „feiti rappari“, sem var loksins að gefa út plötu á dögunum, eftir að hafa síðustu ár skotið upp kollinum víða í aukahlutverki í lögum hjá öðrum röppurum. Hann heitir Ástþór Hjörleifsson en sem listamaður er hann Krabba Mane, ‘mane’ tilkomið úr ensku, þar sem sú bjagaða mállýskuútfærsla orðsins ‘man’ hefur orðið að seinni lið nafna rappara á seinni árum.

Krabbi er að vinna á Prikinu í sumar en auðvitað er það aukaatriði: Hann er orðinn rappari. Hann sendi frá sér plötuna Krabba Mane fyrir síðustu helgi, sem öll er unnin í samstarfi við Martein Hjartarson, öðru nafni BNGRBOY. Og allt sturlaðist, alltént í ákveðnum kreðsum. Ávöxtur erfiðisins er meðal annars sá, að hann þurfti ekki að vinna á Prikinu á Menningarnótt, hann var að gigga! Ekki verra að losna við þá vakt. Það var sigur en annar sigur ristir líka mun dýpra fyrir Ástþór sjálfan: Platan gefur fyrirheit um nýja tíma.

„Í þá tíð var ég skakkur, í dag stend ég beinn“

segir í Thule, fjórða laginu á plötunni. 

Varstu skakkur, Ástþór? Og ertu beinn núna?

„Já, ég var búinn að reykja gras daglega í sjö ár örugglega. Ég hef ekki verið að reykja eins mikið upp á síðkastið. Ég drekk enn þá en ég hef verið mjög rólegur. Ég er í rauninni eins heilsteyptur og ég hef verið mjög lengi,“ segir Ástþór.

Ef einhver hefur sopið fjörur er það Krabbi. Hann var á kafi í neyslu um árabil, sem hófst á unglingsárum og náði hámarki þegar Ástþór var 18, 19, 20 ára. Frá því í byrjun árs 2017 hefur hann haft stjórn, segir hann. Þegar maður er í eins svæsinni neyslu og Ástþór var í, í raun hvaða efna sem hann komst í, er ekki von nema leitað sé varhugaverðra leiða til að fjármagna þetta. Fólk fer ýmsar leiðir en Ástþór fór að selja eiturlyf. Mikið af þeim. Og það er auðvitað sárt til þess að hugsa núna. 

Maður gerir ýmislegt til að fjármagna neyslu sína og það …
Maður gerir ýmislegt til að fjármagna neyslu sína og það er misfallegt. En „síðan þýðir ekkert að velta sér upp úr því. Þú getur ekki komið þér upp úr skítnum nema þú standir upp og labbir í burt,“ segir Krabba Mane. Ljósmynd/Ómar Sverrisson

„Hefði maður getað farið og fengið sér vinnu? Já, jú. En vitsmunir víkja alltaf fyrir neyslu. Fíknin er bara sterkari en svo að þú getir tekið skynsamlegar ákvarðanir. Þetta fokkar manni eiginlega alveg upp, og sérstaklega þegar maður byrjar að selja svona mikið sjálfur. Svo byrjar maður að nota sitt eigið dót, brýtur boðorðið hans Biggie, og þar af leiðandi á maður ekki nógan pening til að borga það sem maður kaupir til að selja, þar af leiðandi þarf maður að fá lán frá einhverjum sem maður skuldar ekki jafn mikið, svo notar maður allt sem maður kaupir fyrir það lán,“ segir hann, og hver er lokaniðurstaðan, jú, hún er kunnugleg: „Þú endar eins og alltaf, peningalaus með nýja skuld.“

„Núna lít ég til baka og sé eftir miklu. En síðan þýðir ekkert að velta sér upp úr því. Þú getur ekki komið þér upp úr skítnum nema þú standir upp og labbir í burt,“ segir Ástþór.

Ef þú ert í neyslu geturðu ekki gert shit

Og Ástþór steig upp, sirka 2017. „Síðan þá hef ég ekki verið í neinni alvarlegri neyslu. Ég endaði hérna í eldhúsinu til að borga skuldirnar mínar. Dóp er ekki kúl. Ef þú ert í neyslu getur þú ekki gert shit. Á mínum verstu tímabilum var ég ekkert að pæla í hlutunum, þegar ég hefði í raun og veru verið mun betur geymdur inni í stúdíó að semja. Jú, ég var oft freðinn að semja takta og svona, en það var ekki af neinu viti fyrr en ég var sirka kominn í lag,“ segir Ástþór. Hann komst í lag og þá kom lag eftir lag eftir lag. 

Markmið Ástþórs er ekki endilega að verða hluti af meginstraumi rapptónlistar íslenskrar. „Ég vil bara búa til tónlist, auðvitað. Mér finnst eins og allt of margir vilji bara verða rapparar - en þeir vilja ekki verða tónlistarmenn. Það er að segja, þeir vilja fylgjendurna, þeir vilja spilunina, þeir vilja peningana, en þeir elska ekki að gera tónlist. Þeir hafa ekki ástríðu fyrir þessu endilega,“ segir Ástþór.

„Ég átti alltaf auðvelt með íslensku og þannig shit,“ sagði …
„Ég átti alltaf auðvelt með íslensku og þannig shit,“ sagði Krabba Mane og hann endaði upp á sviði. Þar líður honum best. Ljósmynd/Berglaug

Og slíkt er auðvitað bráðnauðsynlegt, ástríða, það eina sem knýr áfram sanna list. „Ég hef verið að semja ljóð síðan ég var krakki og ég átti alltaf auðvelt með íslensku og þannig shit,“ segir Ástþór. „Ég mun ekki breyta mér til að höfða til neins en það væri auðvitað fínt að geta lifað á listinni og hver veit nema það styttist bara í það,“ segir Krabbi. 

Peningarnir, giggin. 

„Auðvitað fylgist maður með því hvernig manni gengur. Ég viðurkenni það alveg að ég fer daglega og tjékka hvað margir eru búnir að hlusta en síðan er ég samt ekkert að væla yfir því. Eina sem ég stressa mig kannski yfir eru giggin. Ég vil vera uppi á sviði sem mest, þar líður mér best,“ segir Ástþór, sem spilaði á nokkrum stöðum á Menningarnótt, eins og framan greinir. Þannig að það er ekki mikið stress með giggin, eftir allt.

Að ná í pakka og setja síðan eitthvað út í hann, það var rútína

Peningaleysi ætti svo sem ekki að vefjast mjög fyrir honum, gömlum fíkli. „Ég spjara mig vel án mikilla peninga. Ég var skuldugur lengi og þar má segja að ég hafi lært að lifa án peninga,“ segir Ástþór. 

„Menn sem vildu drepa mig fyrir tveimur árum vegna skulda eru að senda mér skilaboð núna og hrósa mér fyrir plötuna,“ segir Ástþór. Margt hefur sem sé breyst og hann er á betri vegferð þessa dagana.

Þótt hann ræði eiturlyfin fjálglega á nýju plötunni er hann breyttur maður og talar um að hann myndi ekki óska neinum þess að fara sömu leið og hann fór á sínum tíma. „Að ná í pakka og setja síðan eitthvað út í hann, það er rútína,“ sagði hann í Rútínu en það er ekki lengur rútína, og ekki heldur „að brjóta saman blað og blanda sígó út í gras“.

Það var þá og nú er nú, Ástþór er ekki að blanda eiturlyfjum lengur, hvorki fjórum hlutum út í einn, né fimm út í núll, hann er breyttur maður.  „Þú getur náttúrulega ekki treyst nokkrum sköpuðum hlut sem dópsali segir þér,“ segir Ástþór en hann er ekki dópsali lengur, þannig að það verður að treysta því.


 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leitaðu nýrra leiða til þess að auðga líf þitt og bæta. Einhver þér eldri getur miðlað þér af reynslu sinni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
3
Kolbrún Valbergsdóttir
4
Sigríður Dúa Goldsworthy
5
Arnaldur Indriðason
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Leitaðu nýrra leiða til þess að auðga líf þitt og bæta. Einhver þér eldri getur miðlað þér af reynslu sinni.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
3
Kolbrún Valbergsdóttir
4
Sigríður Dúa Goldsworthy
5
Arnaldur Indriðason