Tónlist Veigars í nýrri Joker-stiklu

Joaquin Phoenix í hlutverki Jókersins.
Joaquin Phoenix í hlutverki Jókersins.

Í gær sendi Warner Bros. kvikmyndafyrirtækið frá sér síðustu stiklu ( e. Final trailer ) fyrir eina af stærstu kvikmyndum sem fyrirtækið mun frumsýna á þessu ári, Joker, með Joaquin Phoenix í hlutverki Jókersins, erkióvinar Leðublökumannsins.

Mikil eftirvænting ríkir fyrir frumsýningu myndarinnar, og miðað við þau sýnishorn sem birst hafa til þessa, eru menn sérlega spenntir að sjá frammistöðu Phoenix, en margir þekktir leikarar hafa spreytt sig á hlutverki Jókersins, menn eins og Jack Nicholson, Heath Ledger og Jared Leto.

Veigar Margeirsson tónskáld þurfti að fljúga til Los Angeles til …
Veigar Margeirsson tónskáld þurfti að fljúga til Los Angeles til að geta séð sýnishorn úr Jókernum. Haraldur Jónasson/Hari

Íslendingar hafa aðkomu að myndinni á fleiri en eina vegu því auk þess sem Hildur Guðnadóttir semur tónlistina í myndinni, og sagt hefur verið frá áður í Morgunblaðinu, sér Veigar Margeirsson kvikmyndatónskáld og fyrirtæki hans Pitch Hammer Music um tónlistina í fyrrnefndri stiklu. Að sögn Veigars er um að ræða frumsamda tónlist frá Pitch Hammer í stiklunni, með óljósum tilvitnunum í Stephen Sondheim-lagið „Send in the Clowns“.  „Í blálokin á stiklunni syngur enginn annar en Frank Sinatra sjálfur,“ segir Veigar í samtali við mbl.is. „Það vill reyndar svo til að ég hef alltaf haft mikið dálæti á þessu lagi hans Sondheim. Þetta er gullfalleg tónsmíð.”

Veigar segir að í Hollywood tali menn um mikinn leiksigur Phoenix í rullunni. „Hann er alveg klikkaður í þessu. Ég flaug upprunalega til Los Angeles í apríl sl. til að vinna í þessu og sjá hluta af efniviðnum. Það mátti ekki senda mér neitt efni á rafrænu formi af ótta við að eitthvað kynni að leka út.“

Ekki dæmigerð ofuhetjumynd

Þó að Veigar megi samkvæmt trúnaðarsamningum ekki segja neitt frá því sem hann hefur séð úr myndinni, má hann þó segja að ekki sé um dæmigerða ofurhetjumynd að ræða. Meira sé um að ræða eins konar persónuleikastúdíu á Jókernum. „Ég held að fólk verði ekki svikið. Það sem ég sá af myndinni kom mér mikið á óvart.“

Leikstjóri kvikmyndarinnar er Todd Philips sem þekktur er fyrir The Hangover-myndirnar og Old School meðal annars. „Hann kemur úr óvæntri átt, og er ekki einhver sem menn hefðu veðjað á fyrir fram sem leikstjóra svona myndar.“

Veigar segir að vinnan við tónlistina í Joker stiklunni hafi verið eitt af skemmtilegri verkefnum ársins hjá Pitch Hammer, og frumsýning stiklunnar í gær sé endapunkturinn á ferli sem staðið hafi síðan í apríl. Myndin verður frumsýnd hér á Íslandi 4. október nk.

Sjáðu stikluna hér fyrir neðan og hlustaðu á tónlist Veigars:

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert ekki eins og þú átt að þér og þarft að komast að því af hverju það stafar. Passaðu þig á sölufólki.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofia Rutbäck Eriksson
2
Torill Thorup
3
Sarah Morgan
4
Unnur Lilja Aradóttir
5
Jenny Colgan
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert ekki eins og þú átt að þér og þarft að komast að því af hverju það stafar. Passaðu þig á sölufólki.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Sofia Rutbäck Eriksson
2
Torill Thorup
3
Sarah Morgan
4
Unnur Lilja Aradóttir
5
Jenny Colgan