Daniel Johnston látinn 58 ára að aldri

Daniel Johnston í Fríkirkjunni.
Daniel Johnston í Fríkirkjunni. mbl.is/Golli

Daniel Johnston er látinn 58 ára að aldri. Banamein hans er hjartaáfall, segir umboðsmaður tónlistarmannsins, Jeff Tartakov, í samtali við Guardian. Johnston kom oftar en einu sinni til Íslands og hélt hér tónleika, meðal annars í Fríkirkjunni árið 2013.

Fyrir þá sem ekki þekkja þá er Johnston bandarískur tón- og myndlistarmaður sem hefur á síðari árum safnað að sér dyggum hópi áhangenda og orðið að hálfgerðu „költi“. 

„Þrátt fyrir daglegar orrustur við geðhvarfasýki er bandaríski tónlistar- og myndlistarmaðurinn Daniel Johnston dáður af fjölda fólks, lærðum jafnt sem leikum. Ástæðan er einföld: sköpun hans er hrein og tær, laus við allt stærilæti og prjál. List hans kemur hindrunarlaust frá hjartanu og er raunverulega það eina sem hefur haldið honum hérna megin grafar í gegnum róstusama ævi.“ Þannig skrifar Arnar Eggert Thoroddsen um Johnston í Lesbók Morgunblaðsins árið 2009. 

Fjölmargir tónlistarmenn minnast Johnstons enda er hann dáður af mörgum. Meðal annars Beck, Judd Apatow og Ezra Furma sem segir að Johnston hafi verið einn af sínum bestu kennurum. Johnston var einnig eftirlæti Kurts Cobains og leikarinn Elijah Wood syrgir þennan mikla listamann sem nú er fallinn frá.

Daniel Johnston fæddist í Kaliforníu árið 1961 en var alin upp í Vestur-Virginíu. Johnston varð þekktur fyrir tónlist sína eftir að hann flutti til Austin í Texas. Vinsældir hans jukust jafnt og þétt, ekki síst eftir að hann fór að gefa fólki kassettur með tónlistinni á götum úti. Alls gaf hann út 17 plötur á ferlinum. 

Daniel Johnston.
Daniel Johnston. AFP

Heimildarmyndin The Devil and Mr. Johnston kom út árið 2006 en hún sem fjallar um ævi Johnstons og vakti hún mikla athygli. „Myndin er firnavel gerð, allt handbragð einkennist af miklu næmi og sannri ástríðu fyrir viðfangsefninu. Óhefðbundnar leiðir eru nýttar til að koma sögunni sem best á framfæri og myndin nær að komast afar nálægt kviku þess sem fjallað er um, nokkuð sem svo margar myndir af svipuðum toga flaska á,“ skrifar Arnar Eggert.

„Það er ótrúlegt að fylgjast með þróun og þroska Johnstons. Í æsku og á unglingsárum var sköpunargleðin hamslaus; hann teiknaði, bjó til bíómyndir og samdi lög á gítar og píanó allan liðlangan daginn, alla daga.

Um tvítugt fór ýmislegt að bresta og eitt af fyrstu dæmunum er þegar hann fær þráhyggju fyrir stúlku sem heitir Laurie. Öll ástarlög hans upp frá því fjalla um þessa stúlku sem hann sá í eitt augnablik á unglingsárum. Í aukaefni með myndinni er fylgst með því þegar Johnston hittir Laurie áratugum síðar. „Giftum okkur!“ segir hann við hana, með einlægum, glaðhlakkalegum rómi.

Stuttu eftir Woodshock fór Johnston að fikta við LSD og viðkvæm sálin fékk á sig stórt högg. Hann fékk djöfulinn á heilann og var settur á stofnun. Hann hefur verið inn og út af stofnunum eftir það og átti til að taka voveifleg köst. Hin síðustu ár hefur líðan hans þó verið nokkuð stöðug.

Daniel var alinn upp hjá íhaldssamri, strangkristinni fjölskyldu í Texas. Eitt af því sem liggur undir í myndinni, en kemur aldrei skýrt fram, er að uppeldið og viss ofverndun hafi líkast til verið eitt af því sem spilaði inn í geggjunina. Johnston var hálfgert örverpi, sá eini af systkinunum sem sýndi listræna takta og í raun einangraður, bæði í fjölskyldunni og í samfélaginu í kring,“ segir ennfremur í grein Arnars Eggerts.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú kannt að fá merkilegar upplýsingar sem gætu á endanum haft breytingar í för með sér. Gríptu til viðeigandi ráðstafana í tæka tíð.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Laila Brenden
2
Erla Sesselja Jensdóttir
3
Sigríður Dúa Goldsworthy
4
Lars Kepler