HBO gæti valtað yfir Netflix

Allir sem telja sig áhugamenn um gott sjónvarpsefni missa ekki …
Allir sem telja sig áhugamenn um gott sjónvarpsefni missa ekki af Emmy verðlaunahátíðinni í nótt. AFP

Sjónum verður á ný beint að Krúnuleikum (e. Game of thrones) þegar Emmy-verðlaunin eru haldin hátíðleg í 71. sinn í Microsoft-höllinni í Los Angeles í nótt. Fyrir þá sem ekki þekkja til eru Emmy-verðlaunin eins konar uppskeruhátíð sjónvarpsframleiðenda  Óskarsverðlaunin í sjónvarpi, segja sumir.

Síðasta þáttaröð Krúnuleika, sem sýnd var í vor, á möguleika á því að slá eigið met fyrir flest Emmy-verðlaun einnar þáttaraðar, en til þess þarf þáttaröðin í kvöld að bæta þremur verðlaunagripum við hina tíu sem þáttaröðin fór með heim af fyrri hluta Emmy-hátíðarinnar í síðustu viku. Í kvöld verða þó veitt verðlaun í „stóru flokkunum“, eins og fyrir bestu þáttaraðirnar, besta leik, bestu leikstjórn o.fl.

Hin umdeilda sería sigurstrangleg

Sem fyrr segir verður sjónum beint að Krúnuleikum, þáttum sem eru vanir því að komast sérstaklega vel frá Emmy-verðlaunahátíðinni, og telja sérfræðingar vestanhafs góða möguleika á því að Krúnuleikar fái verðlaunin í flokki bestu dramaþáttaraða. Var þáttaröðin sem um ræðir vægast sagt umdeild meðal aðdáenda, m.a. þótti endirinn á þessum gríðarvinsælu þáttum nokkuð ómerkilegur, en kunnugir telja þó að það muni ekki koma að sök.

Aðrir þættir í þessum flokki, sem nokkurra vinsælda nutu, eru sem dæmi netflix-þættirnir Bodyguard og Ozark og NBC-þættirnir This Is Us.

Níu leikarar tilnefndir

Þáttaröð Krúnuleika á vitaskuld möguleika á því að hljóta fleiri verðlaun en í þessum flokki, en sem dæmi eru níu af leikstjörnunum úr þáttunum tilnefndar í flokknum fyrir leik sinn. Þeirra nafntoguðust eru drekadrottningin Emilia Clarke, sem lék Daenerys Targaryen, og Kit Harington, sem lék Jon Snow. 

Julia Louis-Dreyfus hefur sex sinnum fengið Emmy-styttuna fyrir leik í …
Julia Louis-Dreyfus hefur sex sinnum fengið Emmy-styttuna fyrir leik í þáttunum Veep. Hér, í eitt af mörgum skiptum, árið 2017. AFP

Önnur þáttaröð sem á nú í síðasta skipti séns á því að hljóta Emmy-verðlaun er síðasta þáttaröð háðsádeilunnar Veep. Í þeim leikur Julia Louis-Dreyfus forseta Bandaríkjanna, en Louis-Dreyfus hefur þegar unnið til Emmy-verðlauna fyrir leik sinn í öllum fyrri þáttaröðum Veep, sex alls. Þættirnir hafa unnið í flokki gamanþátta fyrir seinustu þrjár þáttaraðir og þykir ekki ólíklegt að sú síðasta fari með styttuna heim.

Peter Dinklage, sem lék Tyrion Lannister í Krúnuleikum, hefur þrisvar …
Peter Dinklage, sem lék Tyrion Lannister í Krúnuleikum, hefur þrisvar sinnum fengið Emmy-verðlaun fyrir leik sinn í þáttunum. Hann gæti bætt þeim fjórðu við í kvöld. AFP

HBO framleiðir allar þjrár

Í þriðja „stóra flokknum“, flokki sjónvarpsþátta með fyrirfram ákveðinn fjölda þátta (e. miniseries), þykir líklegt að Chernobyl muni fara með sigur af hólmi. Chernobyl-þættirnir voru strax og þeir voru frumsýndir í vor gríðarlega vinsælir, en þeir fjalla eins og nafnið gefur til kynna um kjarnorkuslysið sem átti sér stað í Chernobyl í Úkraínu í apríl 1986. Þættirnir þóttu sérstaklega vel framleiddir og skutust á topp lista kvikmynda- og þáttavefsíðunnar IMDB yfir bestu þáttaraðir allra tíma. Héldu þeir sætinu um nokkurn tíma en féllu svo niður um nokkur sæti, og sitja nú í fjórða sæti listans. Þykir það þó gríðarlega góður árangur, sem dæmi sitja Krúnuleikar í áttunda sæti listans og When They See Us, þáttaröð sem keppir við Chernobyl í ofannefndum flokki, í þrítugasta sæti. 

Athygli vekur að sjónvarpsrisinn HBO framleiddi allar þáttaraðirnar sem hér hafa verið nefndar sem líklegustu sigurvegararnir í stóru flokkunum þremur, Krúnuleika, Veep og Chernobyl. 

Sjónvarpssérfræðingar vestanhafs hafa gefið þessu sérstakan gaum, vegna þess að HBO á möguleika á því að taka verðlaunin þrenn (e. clean sweep) en ekki síður vegna þess að mögulega mun streymisveitan Netflix ekki hljóta nein verðlaun í stóru flokkunum þremur. 
Ofannefnd þáttaröð Netflix, When They See Us, þykir líklegust netflix-þáttaraða til að geta brotist í gegn og tekið ein verðlaun af HBO, en það er þó langt í frá sjálfgefið, enda etur þáttaröðin kappi við Chernobyl, sem þykir af mörgum sú besta allra tíma.

Ef af verður, og HBO tekur verðlaunin þrenn, verður það „rýtingur í hjarta Netflix“, eins og einn amerískur sérfræðingur orðaði það, enda hefur Netflix enn ekki náð að hljóta verðlaun í neinum af þremur stóru flokkunum þrátt fyrir öfluga framleiðslu og hundruð tilnefninga á seinustu árum. 

Margir tilnefndir og að afhenda

Eins og alltaf á stórum hátíðum í Hollywood eru það ekki einungis verðlaunin sem vekja munu athygli í Microsoft-höllinni í kvöld. Kjólarnir, hárgreiðslurnar, glysinn og glamúrinn verða að líkindum eitt helsta umfjöllunarefni dægurmiðla vestanhafs.

Michael Douglas er tilnefndur til verðlauna fyrir aðalhlutverk sitt í …
Michael Douglas er tilnefndur til verðlauna fyrir aðalhlutverk sitt í gamanþáttunum The Kominsky Method. Að auki afhendir hann verðlaun í kvöld. AFP

Margar stjarnanna eru bæði tilnefndar til verðlauna og að veita verðlaun í öðrum flokkum og þykir því líklegt að margir verði búnir að tjalda öllu til í klæðaburði og snyrtimennsku þegar papparassarnir byrja að smella af. Á meðal þeirra sem munu veita verðlaun eru ofurstjarnan Gwyneth Paltrow og gamla brýnið Michael Douglas. 

Sjónvarpsstöðin FOX sýnir frá hátíðinni og hefjast herlegheitin klukkan átta vestanhafs.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Félagslífið stendur í miklum blóma, sem þýðir að þú þarft að standa við gefin loforð. Einnig er lag að byrja nýtt samband og handsala viðskipti.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Félagslífið stendur í miklum blóma, sem þýðir að þú þarft að standa við gefin loforð. Einnig er lag að byrja nýtt samband og handsala viðskipti.