Einkaritari Díönu varar Harry við

Harry Bretaprins, hertogi af Sussex og yngri sonur Karls Bretaprins …
Harry Bretaprins, hertogi af Sussex og yngri sonur Karls Bretaprins og Díönu heitinnar prinsessu af Wales, er í hópi fólks sem hyggur á hópmálsókn gegn tveimur fjölmiðlafyrirtækjum. AFP

Harry Bretaprins, hertogi af Sussex og yngri sonur Karls Bretaprins og Díönu heitinnar prinsessu af Wales, er í hópi fólks sem hyggur á hópmálsókn gegn tveimur fjölmiðlafyrirtækjum.  Fyrirtækin eru sögð hafa leynt upplýsingum um hvernig blaðamenn þeirra komust á ólöglegan hátt yfir upplýsingar um Harry, vini hans og starfsfólk hans.

Um er að ræða útgáfufyrirtækin Mirror Group Newspapers, sem gefur m.a. út götublaðið Daily Mirror og fyrirtækið News Group útgefandi The Sun, að því er fram kemur á vefsíðu breska dagblaðsins The Guardian.

Hjónin Harry og Meghan.
Hjónin Harry og Meghan. AFP

Fyrirtaka innan tíðar

Fyrirtaka í málinu verður síðar í þessum mánuði. Í frétt The Guardian segir að málið sé höfðað á grundvelli þess að persónulegra upplýsinga hafi verið aflað á ólöglegan hátt á árunum 1994-2011. Málið snertir líka móður Harrys, Díönu prinsessu, því að lögmenn hans hyggjast komast að því hvort blaðamenn hafi hlerað símsvara hennar. Einnig munu þeir rannsaka hvernig standi á því að fjölmiðlafyrirtækin hafi ráðið einkaspæjara til að fygjast með vinum hennar og fjölskyldu eftir dauða hennar í ágúst árið 1997.

Lögspekingar í Bretlandi hafa bent á að Harry gæti reynst örðugt að leggja kæruna fram, því sex ára fyrningafrestur sé á brotum sem þessum frá því að þolandi þeirra verður þeirra var. Lögmenn hans munu aftur á móti halda því fram að gögnum hafi verið leynt og því eigi þessi fyrningarfrestur ekki við.

Lögmenn prinsins hyggjast einnig varpa ljósi á hvaða brögðum blöðin beittu til að afla sér upplýsinga um prinsinn og fólk honum nákomið á ólöglegan hátt.

„Almenningsálitið er hverfult“

Patrick Jephson, fyrrverandi einkaritari Díönu prinsessu, varar son hennar við því hvaða afleiðingar það geti haft fyrir hann að fara í mál sem þetta. Í opnu bréfi sem birt er á vefsíðu The Guardian segir hann að líklega muni prinsinn hafa almenningsálitið með sér í byrjun málsins en það geti verið fljótt að breytast og málsóknin komið prinsinum í koll. „Almenningsálitið er hverfult,“ skrifar Jephson.

Harry og Meghan. Bæði standa í stríði við fjölmiðla.
Harry og Meghan. Bæði standa í stríði við fjölmiðla. AFP

Hingað til hefur verið fátítt að meðlimir bresku konungsfjölskyldunnar fari í stríð við fjölmiðla, en Meghan eiginkona Harrys höfðaði fyrir nokkrum dögum mál á hendur breska blaðinu The Mail on Sunday fyrir að birta bréf hennar til föðurs síns.

Málsókn prinsins hefur vakið mikla athygli; bresku blöðin tala um að hann sé kominn í stríð gegn fjölmiðlum og í pistli í Financial Times er Harry kallaður „æsti prinsinn“. 

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Finndu leið til að koma hugmyndum þínum á framfæri þannig að enginn misskilningur standi þeim í vegi. Dropinn holar bergið og einn góðan veðurdag fjölgar áhangendunum.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Finndu leið til að koma hugmyndum þínum á framfæri þannig að enginn misskilningur standi þeim í vegi. Dropinn holar bergið og einn góðan veðurdag fjölgar áhangendunum.