„Mér þykir ótrúlega vænt um þetta“

Auður Ava Ólafsdóttir rithöfundur hlaut í dag hin virtu frönsku …
Auður Ava Ólafsdóttir rithöfundur hlaut í dag hin virtu frönsku bókmenntaverðlaun Médicis étranger fyrir skáldsögu sína Ungfrú Ísland sem kom út í franskri þýðingu Érics Boury. Ljósmynd/Aðsend

„Mér þykir ótrúlega vænt um þetta,“ segir Auður Ava Ólafsdóttir sem fyrr í dag hlaut hin virtu frönsku bókmenntaverðlaun Médicis étranger fyrir skáldsögu sína Ungfrú Ísland sem kom út í franskri þýðingu Érics Boury.

Verðlaunin eru ár hvert veitt fyrir annars vegar bestu þýddu bókina og hins vegar fyrir bestu frönku bókina, en sigurvegari í ár í þeim flokki var Luc Lang fyrir skáldsöguna La tentation. 

Stofnað var til verðlaunanna fyrir rúmum 60 árum og meðal þeirra sem hafa hlotið Médicis étranger eru Milan Kundera, Doris Lessing, Umberto Eco og Paul Auster.

„Ég var nú ekkert viss um að þessi bók um mínar persónulegu skáldsagnaaðferðir sem ég legg í munn sögupersónunnar yrði þýdd,“ segir Auður, en frá því bókin kom út í Frakklandi september hefur hún hlotið afburða dóma þar í landi.

„Rýnar hafa beint sjónum sínum að hugmyndum bókarinnar um sköpunina og frelsið og séð hana sem óð til minnihlutahópa. Einnig hefur vakið athygli hugmyndin um að tungumálið sé föðurland rithöfundar,“ segir Auður Ava sem, þegar blaðamaður Morgunblaðsins náði tali af henni, nýkomin af blaðamannafundi í París þar sem tilkynnt var um verðlaunin og á leið í boð hjá franska útgefanda sínum þar sem von var á fjölmenni.

„Ég er enn að átta mig á því hversu mikil tíðindi þessi verðlaun eru í franska bókmenntaheiminum,“ segir Auður Ava og tekur fram að hún sé þýðendunum Éric Boury og Catherine Eyjólfsson einstaklega þakklát fyrir að gefa sér rödd á frönsku.

„Ég ætlaði fyrst að skrifa bók um konu af kynslóð ömmu, sem var fædd í lok 19. aldar. Ömmu mína langaði alltaf að skrifa, en hún var talandi skáld. Hún hefði örugglega orðið miklu betra skáld en ég ef hún hefði verið uppi á öðrum tíma með tilheyrandi möguleikum,“ segir Auður Ava og rifjar upp hún hafi byrjað að skrifa bókina þegar hún sat við dánarbeð móður sinnar vorið 2017.

„Bókin var mín leið til að hafa mömmu lengur hjá mér þegar ég valdi að skrifa inn í hennar tímabil,“ segir Auður Ava og vísar þar til sjöunda áratugar síðastu aldar en Auður Ava er sem listfræðingur sérfræðingur í þeim tíma.

„Á endanum er þetta samt tíma- og staðlaus bók,“ segir Auður Ava og bendir á að hún hafi smyglað sínum persónulegu teróríum um sköpunina og bókmenntir inn í bókina sem hún leggur í munn sögupersóna.

„Söguhetjan er fjarri mér, enda skrifar hún af karlmannlegu sjálfstrausti. Ég er miklu nær aukapersónu í bókinni sem er móðir í kjallara í Norðurmýri með ungabarn,“ segir Auður Ava og tekur fram að hún sjái sjálfa sig í fleiri aukapersónum bókarinnar sem séu á jaðrinum.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er eitthvað að en þér finnst þú ekki geta fest hendur á neinu. Við getum ekki breytt fólki, bara elskað það eins og það er.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er eitthvað að en þér finnst þú ekki geta fest hendur á neinu. Við getum ekki breytt fólki, bara elskað það eins og það er.