Skömmin er komin til að vera

Hjaltalín er í hörkuformi þessa dagana.
Hjaltalín er í hörkuformi þessa dagana. Eggert Jóhannesson

Fimmtudagurinn hjá mér byrjaði off-venue. Svo mikið off-venue að það var á öldrunarheimilinu Eirhömrum í Mosfellsbæ þar sem búið var að setja upp leiksýningu með endurminningum fimm kvenna og ein þeirra var mamma. Ómögulegt að missa af því þó ég þyrfti að fórna góðum tónleikum fyrir vikið. Einn af hápunktunum var þegar kór eldri borgara í bænum söng lagið um tímann og hvernig hann týnist eftir Bjartmar. Atriði sem ætti vel heima á Airwaves.

Þegar ég náði í bæinn var dúettinn Glass Museum á sviði í Gamla bíói, trommari og píanisti. Ylvolgur bræðingur af Clayderman og Battles. Á Hressó var írska söngkonan Roe sem stóð ein á sviðinu, söng og spilaði á gítar og trommaði ofan í það. Falleg írsk sál og alvöru hæfileikar þar á ferðinni. Kæmi lítið á óvart ef maður myndi rekast á það nafn aftur. Hjaltalín var mjög flott í Hafnarhúsinu, greinilega í stuði þessa dagana og lágstemmd Jófríður naut sín vel í Gamla bíói þó einhverjir heimamenn á djamminu gerðu sitt besta í að tala hana í kaf.

JFDR kom fram í Gamla Bíói á fimmtudag.
JFDR kom fram í Gamla Bíói á fimmtudag. Eggert Jóhannesson

Takk Matti

Eitt af því sem ég var spenntastur fyrir að sjá í ár var hinn sultuslaki Mac DeMarco. Platan hans og Shakespeare-tilvitnunin; Salad Days, frá 2014 er að mínu viti ein af af bestu plötum áratugarins. Hann stóð vel fyrir sínu og tók nokkra af helstu slögurunum. „Chamber of Reflection“ var augljós hápunktur og frábært bandið naut sín vel í lestarlaginu „Choo Choo“ af Here Comes the Cowboy sem kom út í ár.

Það er ótrúlega gaman að fylgjast með tónlistarmanni sem tekur sig mátulega alvarlega og nær að gefa húmornum gott pláss. Gömlu fjölbragðaglímumyndbrotin frá sjöunda eða áttunda áratugnum sem voru á stórum skjá fyrir ofan sviðið voru algjört konfekt. Frábær bókun hjá hátíðinni og gestirnir, sem flestir virtust erlendir, kunnu vel að meta kappann og sungu hástöfum með í „My Old Man“.

Mac DeMarco í Listasafni Reykjavíkur.
Mac DeMarco í Listasafni Reykjavíkur. Eggert Jóhannesson

Ég vildi sjá meira íslenskt og dreif mig í röð að bíða eftir Auðn á Gauknum. Það virtist lítið vera að gerast í röðinni þegar Matti á Rás 2 hvíslaði því að mér að það gæti verið snjallt að skella sér bara á Shame í Gamla bíói. Það var besta ákvörðun sem ég hef tekið í langan tíma. Þvílíkir tónleikar. Sveitin er skipuð fimm London-búum sem eru rétt skriðnir yfir tvítugt og fullir af stórhættulegri orku sem oft er langbest að finna farveg með gítarmögnurum og hljómsveitargræjum.

Hvar ætti maður að byrja? Ég hafði lesið að þeir ættu eitthvað sameiginlegt með Doors, Sleaford Mods og Pixies... já, kannski. Það mætti þó auðveldlega bæta við frekar hörðu pönki, My Bloody Valentine og Happy Mondays inn í það mengi. Söngvarinn Charlie Steen er býsna sérstök týpa. Furðuleg mixtúra af Paul Scholes, Shaun Ryder og Alexander mikla. Gæti hæglega leikið hedónískan prins í einhverri ævintýrafantasíunni... það hlýtur að segja einhverjum eitthvað!

Reynsluboltar hlusta líka á Mac DeMarco.
Reynsluboltar hlusta líka á Mac DeMarco. Eggert Jóhannesson

Eftir að hafa náð að skapa frekar harkalega ringulreið fyrir framan sviðið þar sem skattalaganemar frá Bandaríkjunum hristu sig og hoppuðu á skandinavíska brúarverkfræðinga og hollenska viðmótsforritara. Kannski ekki nákvæmlega, en mér sýndist í það minnsta afar fáir Íslendingar á staðnum sem er skömm enda er ég viss um að það væri ennþá verið að tala um þessa tónleika ef þeir hefðu verið haldnir í Norðurkjallaranum í MH árið 1983.

Sviðsframkoman hjá Steen myndi halda hvaða sveit sem er á floti en söngvarinn og bassaleikarinn Josh Finerty er ekki minni stjarna. Aðra eins frammistöðu hjá bassaleikara og kappinn reiddi fram á sviðinu hef ég bara ekki séð. Hvaða vítamín drengurinn er að bryðja er mér ráðgáta. Fyrir það fyrsta hljóp hann um sviðið eins og hann væri að keppa í frjálsum (enda var hann í stuttbuxum) og við erum að tala um allra lengstu vegalengdir sem í boði voru á sviðinu. Stökk svo reglulega upp á bassatrommuna og karatesparkaði út í loftið. Meðan á þessum æfingum stóð missti hann ekki úr slag í ótrúlega vel útfærðum og flottum rokkbassaleik. Tónlistin er nefnilega frábær líka.

Mac DeMarco gæti átt feril í uppistandi ef músíkin hættir …
Mac DeMarco gæti átt feril í uppistandi ef músíkin hættir að gefa af sér. Eggert Jóhannesson

 Unnið fyrir kaupinu

Til að ná betra útsýni og hvíla fæturna ákvað ég að fara upp á svalirnar. Eitthvað gerðist á leið minni upp því algjört kaos var á sviðinu þegar þangað kom. Rótari sveitarinnar var kominn upp á svið að reyna að teipa bassann við Finerty sem stóð á öðrum fæti og hélt bassanum uppi með hinum. Einhver festing hafði brotnað og greinilega ekkert varahljóðfæri... svona gekk þetta um stund og ég hef aldrei séð rótara og tæknimann þurfa að vinna jafn rækilega fyrir kaupinu og í þessum eltingaleik því Finerty var ekkert á þeim buxunum að gefa neitt eftir í látunum. Ekki var þó að sjá neitt fát á tæknimanninum öfluga enda öruggt að ýmislegt gengur á í kringum þessa peyja sem hann hefur tekið að sér. Augljóst var að þeir voru í óvenju miklum fíling og hvert einasta andlit í salnum virtist brosa að yfirgengilegu stuðinu á strákunum.

Umslag plötunnar Songs of Praise með hljómsveitinni Shame.
Umslag plötunnar Songs of Praise með hljómsveitinni Shame.

Á milli laga og í mestu látunum lýsti Steen því yfir með ljóðrænum tilþrifum að hann væri að upplifa besta ár lífs síns. Demónískt glottið sem fylgdi var afar sannfærandi. Vonbrigðin í salnum voru því áþreifanleg þegar tæknimaður óð inn á sviðið og tilkynnti að skömmin ætti fimm mínútur eftir. Þær hefðu alveg mátt vera fimmtíu.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson