„Búið að bjarga hátíðinni“

Auður tryllti lýðinn á Listasafni Reykjavíkur á laugardagskvöld.
Auður tryllti lýðinn á Listasafni Reykjavíkur á laugardagskvöld. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum rosalega ánægð með hvernig þetta gekk allt og erum að fá jákvæð viðbrögð. Þetta er tveggja ára erfiðisvinna að baki,“ segir Ísleif­ur B. Þór­halls­son, fram­kvæmda­stjóri Ice­land Airwaves. Hátiðin um helgina var önnur hátíðin sem haldin er undir merkjum Senu, en Iceland Airwaves hefur sett svip sinn á tónlistarlífið í borginni síðustu 20 ár. 

Ísleifur viðurkenndi fúslega að hann fyndi fyrir þreytu eftir helgina þegar blaðamaður sló á þráðinn í morgunsárið. „En það er mikil gleði í hópnum yfir hvað þetta gekk vel,“ segir hann. 

Ísleifur B. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves, er ánægður með hvernig …
Ísleifur B. Þórhallsson, framkvæmdastjóri Iceland Airwaves, er ánægður með hvernig til tókst með Iceland Airwaves í ár en ljóst er að hátíðin í ár verður rekin með tapi, en þó mun minna en síðustu ár. „Þetta er það lítið að við teljum að það sé kominn góður grunnur, það eru allir sáttir við hana og við erum að halda í Airwaves-töfrana.“ mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Vissum að þetta yrði mikið lexíuár“

Hátíðin í ár var með smærra sniði en oft áður. Tónleikarnir voru engu að síður um 200 talsins og komu um 150 hljómsveitir og tónlistarmenn fram frá miðvikudegi til laugardags. Ísleifur og aðrir skipuleggjendur hátíðarinnar hafa ekki farið leynt með það að rekstur hátíðarinnar hefur verið erfiður, en Iceland Airwaves skilaði 60 milljóna króna tapi 2016 og 2017. Sena tók við rekstrinum fyrir hátíðina í fyrra. 

„Þegar við tókum við þessu var þetta svolítið komið út í skurð, rekstrarlega séð. Við erum búin að fara í alls konar breytingar sem við vissum að yrðu erfiðar og yrðu ekkert endilega vinsælar. En við höfum verið dugleg að ræða þær og útskýra og það hefur mætt skilningi,“ segir Ísleifur. 

Tapið í fyrra nam 40 milljónum króna. „Við bjuggumst alveg við því að það tæki þrjú ár að ná tökum á þessu en við lentum alveg í smá höggi í fyrra. Tapið varð talsvert meira en við bjuggumst við. Við gerðum okkar besta en við vissum að þetta yrði mikið lexíuár,“ segir Ísleifur. 

Of Monsters And Men stigu á svið í Valsheimilinu og …
Of Monsters And Men stigu á svið í Valsheimilinu og tóku tónleikagestir vel undir. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ná að halda í Airwaves-töfrana

Tapið í ár verður mun minna að mati Ísleifs en upphæðin er ekki alveg komin á hreint. „Þetta er það lítið að við teljum að það sé kominn góður grunnur, það er komin einhver formúla, hátíðin er góð, það eru allir sáttir við hana og við erum að halda í Airwaves-töfrana.“ 

Ein af helstu breytingum sem Sena gerði á fyrirkomulagi hátíðarinnar var að fækka utandagskráratriðum, svokölluðum „off-venue“-tónleikum. Þegar mest var voru staðirnir sem tóku þátt í off-venue um 60 talsins en í ár voru þeir 20, en gjald sem staðirnir þurfa að greiða fyrir utandagskrárþátttöku var hækkað verulega. 

„Við erum rosalega sátt við hvernig off-venue er í dag. Við skiljum alveg að fólk elski off-venue. Við elskum off-venue líka,“ segir Ísleifur og hlær. 

„Að fara á einhvern lítinn bar eða bókasafn eða plötubúð og sjá frábæran íslenskan listamann, jafnvel einhvern þokkalega stóran, koma fram um miðjan dag, þetta er ólýsanleg stemning. Við þurftum bara að ná tökum á þessu, þetta var komið á yfir 60 staði og var farið að leysa hátíðina meira en að bæta við hana. Við höfum alltaf viljað halda í off-venue en samt að það væri einhver stjórn á því.“ 

Airwaves-gestir í góðum gír á Listasafni Íslands um helgina.
Airwaves-gestir í góðum gír á Listasafni Íslands um helgina. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Svindl og svínari“ sem dæmi sig sjálft

Rekstraraðilar í miðborginni hafa verið missáttir við breytt  fyrirkomulag off-venue dagskrár. Klaus Ortilieb, veitingamaður og hóteleigandi á Hlemmi Square, var til að mynda ekki sáttur með þetta breytta fyrirkomulag þegar það var kynnt í fyrra. 

Um helgina fór sérstök tónlistarhátíð fram á Hlemmi Square, Airwhales.  James Cox, einn skipu­leggj­andi hátíðar­inn­ar, sagði í samtali við mbl.is fyrir helgi að þeim hafi fundist tilvalið að halda hátíðina þar sem aðrar hátíðir eru að minnka aðeins og tíminn sem hljómsveitir hafa í sviðsljósinu sömuleiðis á sama tíma og margir erlendir blaðamenn og gestir eru á landinu.

Ísleifur segir hátíð líkt og Airwhales vera ekkert annað en svindl og svínarí. „Þetta dæmir sig sjálft og þetta er óverjandi. Þú ert að „teika“ Iceland Airwaves-hátíðina og reyna að réttlæta það með því að segja að þú sért að berjast fyrir einhverjum málstað. Þessir aðilar eru ekki að berjast fyrir neinum málstað, þeir eru bara að setja hátíðina ofan í okkar hátíð, búa til nafn sem hljómar næstum því nákvæmlega eins. Þeir eru að reyna að ná fólkinu sem er að fara á Iceland Airwaves til sín á okkar kostnað.“

Sena hyggst ekki aðhafast neitt vegna Airwhales-hátíðarinnar að þessu sinni. „Við bregðumst við ef einhver er að nota Iceland Airwaves vörumerkið alveg blákalt. En að setja einhvern lögfræðing í að eltast við þetta er bara ekki þess virði. Enda hef ég ekki skynjað neitt hjá fólki annað en að því finnist þetta hallærislegt,“ segir Ísleifur, sem horfir björtum augum til næstu Airwaves-hátíðar, en miðasala á hátíðina hófst í gær.     

Daði Freyr kom fram í Valsheimilinu á lokakvöldi Iceland Airwaves …
Daði Freyr kom fram í Valsheimilinu á lokakvöldi Iceland Airwaves á laugardag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Markmiðið að reka Airwaves á núlli

Ekki er von á stórum breytingum fyrir næstu hátíð að sögn Ísleifs. „Við erum rosalega ánægð með hátíðina í núverandi mynd en auðvitað förum við í greiningarvinnu og förum yfir tölfræðina, hvað á að bóka mörg bönd og þess háttar. En við teljum okkur vera komin með mjög góðan grunn og við ætlum að halda áfram á sömu braut og erum mjög bjartsýn.“

Varðandi rekstur hátíðarinnar segir Ísleifur að markmiðið hafi alltaf verið að reka hátíðina á grunni „Það er ekki háleitara en það. Ef við náum að reka hana á núlli tiltölulega vandræðalaust erum við fín. Það er búið að bjarga hátíðinni og hún rúllar.“

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það þarf ekki alltaf einhver ósköp til þess að lífga upp á tilveruna. Hvað sem þú tekur þér fyrir hendur mun ganga upp. Vertu bjartsýn/n.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það þarf ekki alltaf einhver ósköp til þess að lífga upp á tilveruna. Hvað sem þú tekur þér fyrir hendur mun ganga upp. Vertu bjartsýn/n.