Erfitt að vera fjarri er sjórinn flæddi inn

„Þetta er búið að vera mjög ýkt ástand þarna í Feneyjum náttúrulega og erfitt að vera svona fjarri,“ segir Hrafnhildur Arnardóttir listakona, sem gengur undir listamannsnafninu Shoplifter. Verk hennar, Chromo Sapiens, sem er til sýnis í íslenska skálanum á Feneyjatvíæringnum í ár, varð fyrir barðinu á flóðunum þar í lok síðustu viku, eins og fjallað var um í Morgunblaðinu í dag.

„Þetta eru miklar náttúruhamfarir fyrir svona merkan og viðkvæman stað. Þetta er alveg lygilegt ástand,“ segir Hrafnhildur, sem ferðast frá New York til Feneyja í dag. Er hún ræddi við blaðamann mbl.is í gærkvöldi sagðist hún fegin hve litlar skemmdirnar voru og lítið tjón varð.

Innsetning Shoplifter, fyrir flóð. Yfir 35 þúsund gestir hafa sótt …
Innsetning Shoplifter, fyrir flóð. Yfir 35 þúsund gestir hafa sótt íslenska skálann heim á Feneyjatvíæringnum. Ljósmynd/Yellow Trace

Dýrustu græjurnar í verkinu, sem stýra hljóðverkinu í innsetningunni, hátalarar og fleira slíkt, voru á upphækkuðum fleti í húsnæðinu og skemmdirnar urðu þannig aðallega á ljósum sem lágu á gólfinu og lýsa verkið upp.

„Sem betur fer stóð innsetningin af sér þessar náttúruhamfarir,“ segir Hrafnhildur, ánægð sem áður segir. En verkið sjálft er aðallega gert úr litríku gervihári, sem reyndist mögulegt að þurrka eftir að saltvatnið hafði flætt um það, en skálinn var lokaður í fimm daga á meðan unnið var að lagfæringum.

Fimm hundruð fermetra hárgreiðsla

„Það er búið að vera mikil vinna og álag fyrir þá sem sitja yfir skálanum að laga til eftir þetta, en ekkert óyfirstíganlegt. Við sluppum vel og verkið er þannig hannað að til dæmis munum við koma og sýna það í Hafnarhúsinu í janúar og það truflar ekkert þá sýningu, við lentum ekki í neinum stórfelldum skaða og það er ekkert sem stöðvar mig í að setja sýninguna upp á öðrum stað.“

„Ég er að djóka með það að nú þurfi að láta hendur standa fram úr hárgreiðslusloppnum og kaupa rosalega mikið af sjampói, næringu og hárþurrkum til þess að laga verkið, því þetta er í raun ein heljarinnar fimm hundruð fermetra hárgreiðsla,“ segir Hrafnhildur og hlær.

Hrafnhildur Arnardóttir listakona segist ánægð með að verkið hafi ekki …
Hrafnhildur Arnardóttir listakona segist ánægð með að verkið hafi ekki skemmst.

Sýningin, sem sett er upp á eyjunni Guidecca, hefur gengið mjög vel og hafa yfir 35 þúsund gestir litið við í íslenska skálanum það sem af er hátíðinni. Hrafnhildur segist ótrúlega ánægð með viðtökurnar og þá gríðarlegu athygli sem verkið hefur fengið. Hún segir að þegar hún mæti á svæðið ætli hún að brydda upp á nýjungum í verkinu, síðustu sýningarhelgina.

„Á föstudag, laugardag, sunnudag langar mig að bjóða fólki að skoða sýninguna í dimmu rýminu, þannig að verkið sé ekki fyllilega upplýst, bjóða fólki að koma inn í verkið með vasaljós og ennisluktir, eins og venjan er í alvöruhellaskoðun. Þá mun myndast svona mystísk og töfrandi stemning þar sem hópurinn mun líta í kringum sig og ljósin færast til og litirnir poppa upp hér og þar þegar fólk lýsir upp verkið.“

„Þetta verður svona „performative, interactive, special edition“ af Chromo Sapiens, síðustu sýningarhelgina,“ segir Hrafnhildur.

Laufblöð bárust inn í sýningarsalinn með flóðvatninu.
Laufblöð bárust inn í sýningarsalinn með flóðvatninu. Ljósmynd/Augusto Maurandi
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant