Akademían harðlega gagnrýnd

Mæður Srebrenica mótmæla fyrir framan sænska sendiráðið í Sarajevo. Þær …
Mæður Srebrenica mótmæla fyrir framan sænska sendiráðið í Sarajevo. Þær halda á mynd af Peter Handke sem mun vera tekin 1996 þegar hann heimsótti Srebrenica þar sem um 8.000 drengir og menn voru myrtir í fjöldamorðum Bosníuserba á Bosníumúslimum í júlí 1995. Handke hefur gert lítið úr stríðglæpum Bosníuserba og dáðst að Slobodan Miloševic AFP

Sú ákvörðun Sænsku akademíunnar (SA) að veita austurríska höfundinum Peter Handke Nóbelsverðlaunin í bókmenntum árið 2019 sætti strax harðri gagnrýni. Fannst mörgum ótækt að verðlauna mann sem gert hefði lítið úr stríðsglæpum sem Bosníuserbar frömdu í stríðinu á Balkanskaga 1992-95, mært Slobodan Miloševic og farið gagnrýnum orðum um stríðsglæpadómstóllinn í Haag sem réttaði yfir Miloševic og fleirum leiðtogum Bosníuserba.

Fljótlega eftir að ákvörðunin var tilkynnt var stofnað til undirskriftasöfnunar á netinu þar sem skorað var á SA að ógilda ákvörðunina og hafa nú þegar rúmlega 55 þúsund manns skrifað undir. Fyrr í þessum mánuði efndu ýmis samtök sem berjast fyrir þolendum og vitnum að þjóðarmorðunum í Bosníustríðinu til friðsamlegra mótmæla fyrir framan sænska sendiráðið í Sarajevo þar sem ákvörðun SA var fordæmd. Samtökin Mæður Srebrenica eru meðal þeirra sem boðað hafa til mótmælaaðgerða gegn Handke í Stokkhólmi á Nóbelsdeginum sem haldinn er 10. desember og þeirra sem skrifað hafa SA bréf þar sem þess er krafist að SA afturkalli ákvörðunina.

„Það er augljóst að við lítum bókmenntaverk Peters Handke ólíkum augum,“ skrifar Anders Olsson, fyrrverandi ritari SA, í nýlegu svarbréfi sínu til samtakanna sem Sænska útvarpið (SVT) fjallaði um í fyrradag. Í bréfi sínu tók Olsson fram að SA væri sammála samtökunum um að skilgreina bæri blóðbaðið í Srebrenica sem þjóðarmorð. „Nóbelsnefndin segist horfa til niðurstöðu stríðsglæpadómstólsins í Haag, en samt velur hún að verðlauna Handke sem afneitar niðurstöðunni. Það er mótsagnakennd og hræsni,“ skrifar Murat Tahirovic, formaður samtaka sem berjast fyrir þolendum og vitnum þjóðarmorðsins, í svarbréfi til SVT.

Í bókmenntaheiminum hafa ýmsir bent á að Handke hljóti verðlaunin fyrir framúrskarandi ritstörf og fólk verði að geta aðgreint bókmenntaverkinn og höfundinn. Til útskýringar og réttlætingar á vali sínu hafa bæði Henrik Petersen, meðlimur sérstakrar Nóbelsnefndar sem hafði það hlutverk að velja verðlaunahafa áranna 2018 og 2019 eftir krísuna innan SA sem hófst í árslok 2017 (með ásökunum á hendur Jean-Claude Arnault, eiginmanns Katarinu Frostenson fyrrverandi meðlims SA), og Eric M. Runesson, meðlimur SA, í annars vegar Dagens Nyheter og hins vegar Spiegel vísað í bækurnar Der mit seinem Jugoslawien eftir Lothar Struck frá 2013 og Peter Handke und „Gerechtigkeit für Serbien“ eftir Kurt Gritsch frá 2016. Báðar bækur verja þá afstöðu Handke að efast um grimmdarverk Bosníuserba og styðja þau sjónarmið Handke að fréttaflutningur frá Bosníustríðinu hafi verið ósanngjarn í garð Bosníuserba.

Réttlæta valið með bókum sem byggja á samsæriskenningum

Bandaríski blaðamaðurinn Peter Maass og höfundur verðlaunabókarinnar Love Thy Neighbor: A Story of War frá 1997 um Bosníustríðið fjallar ítarlega um val SA á Handke og bækur Struck og Gritsch í grein sem birtist nýverið í The Intercept. Þar gagnrýnir hann Petersen og Runesson harðlega fyrir að glepjast af bókum sem byggi augljóslega á samræmiskenningum um Bosníustríðið sem eigi ekki við rök að styðjast. Bendir hann á að bæði Struck og Gritsch geri sjónarmið Jacques Merlino sem birtist í bók hans Les verites Yougoslaves ne sont pas toutes bonnes a dire frá 1993 að sínum, en Merlino hélt því fram að bandaríska almannatengslafyrirtækið Ruder Finn Global Public Affairs hefði á tímum Bosníustríðsins staðið fyrir herferð þar sem grimmdarverk Bosníuserba voru stórlega ýkt í því skyni að hafa áhrif á almenningsálitið á Vesturlöndum.

Í grein sinni rekur Maas hversu fjarstæðukennd þessi samsæriskenning er, sem lifi enn góðu lífi í ýmsum öfgahópum og hjálpaði Handke að hljóta Nóbelsverðlaunin í bókmenntum. Maas bendir samtímis á að Gritsch vísi ítrekað í bók sinni til þýska blaðamannsins Thomas Deichmann, sem mun vera þekktur fyrir tilraunir sínar til að endurskrifa söguna þegar kemur að Bosníustríðinu og bar vitni fyrir hönd Dusko Tadic sem dæmdur var í 20 ára fangelsi fyrir glæpi gegn mannkyni vegna stríðsglæpa sinna í Omarska. Deichmann var helsti ferðafélagi Handke til Serbíu og Bosníu á tíunda áratug síðustu aldar áður en Handke sendi frá sér ferðabækurnar Eine winterliche Reise zu den Flüssen Donau, Save, Morawa und Drina oder Gerechtigkeit für Serbien og Sommerlicher Nachtrag zu einer winterlichen Reise árið 1996. Að mati Maass felur val SA á Handke í sér að nær gleymdar samsæriskenningar fái byr undir báða vængi á ný, sem sé bæði afturför og áhyggjuefni.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant