Eru listaverkin ill eins og skaparar þeirra?

„Villimannasögur“ kallaði Gauguin þetta verk sem nú er sýnt í …
„Villimannasögur“ kallaði Gauguin þetta verk sem nú er sýnt í National Gallery í London. Hann sýnir þar sjálfan sig glaðhlakkalegan að baki tveimur hálfnöktum stúlkum á Tahítí, en hann bjó með annarri þeirra. AFP

Eitt helsta umræðuefnið um listir um þessar mundir snýst um það hvort hægt sé að skilja á milli listamanna og verka þeirra, hvort það sé eðlilegt eða æskilegt. Spurt er hvort listamaður sem einhverjir telja siðlausan skíthæl eða mögulega glæpamann geti skapað listaverk sem er fagurt, göfugt og lyfti sál og huga þess sem upplifir það.

Margir vilja útskúfa verkum listamanna sem sakaðir eru um hina verstu breytni, þótt það takist með misáhrifaríkum hætti. Nærtækt dæmi er að ítrekaðar ásakanir fósturdóttur bandaríska leikstjórans Woody Allen um að hann hafi brotið kynferðislega á henni hafa leitt til þess að kvikmyndir Allens, sem í áratugi var meðal virtustu listamanna á sínu sviði, fá ekki lengur dreifingu í heimalandinu – þótt Evrópubúar sýni þeim enn talsverðan áhuga. Og annar leikstjóri á níræðisaldri, Roman Polanski, er enn á flótta undan bandarískri réttvísi fyrir að níðast á unglingsstúlkum fyrir mörgum áratugum. Verk hans eiga erfitt uppdráttar vestanhafs en eru þó vinsæl í Evrópu – nýjasta kvikmynd hans er nú sú vinsælasta í Frakklandi. Og enn eru konur að koma fram með ásakanir á hendur Polanski og fregnir í vikuni herma að franskir leikstjórar hyggist vísa honum úr samtökum sínum.

Þá hefur undanfarnar vikur verið hávær umfjöllunin um umdeilda veitingu Nóbelsverðlaunanna til Peters Handke, meðal annars fyrir að gera lítið úr stríðsglæpum Bosníuserba í stríðinu á Balkanskaga. Ef staðfest er eða þykir víst að þessir listamenn og aðrir hafi brotið af sér, er þá rétt að láta listaverk þeirra hverfa, hversu góð eða mikilvæg sem þau hafa áður þótt?

Hreinsar tíminn verkin?

Í umræðunni um siðleysi, glæpi, listræn gæði eða mikilvægi listaverka er líka spurt hvort rétt sé að gera greinarmun á verkum samtímalistamanna og þeirra sem horfnir eru af sjónarsviðinu. Er auðveldara að hrífast af verkum listamanna sem að mati okkar hafa brotið af sér ef þeir eru látnir? Hefur dauðinn þá veitt þeim makleg málagjöld og lyft verkunum undan svörtum hjúp refsingarinnar? Eiga Norðmenn sem hatast hafa við Knut Hamsun í meira en sjötíu ár vegna stuðnings hans við nasista að fara að taka verk hans í sátt? Það er nefnilega erfitt að hafna því að maðurinn var einn besti rithöfundur liðinnar aldar. Og fer að verða óhætt að hrósa Leni Riefenstal fyrir ljósmyndir og meistaralega kvikmyndagerð, þótt hún hafi verið eftirlæti Hitlers? Og hvað um Caravaggio, sem varð svo sannarlega einum manni að bana á sinni stuttu ævi, mögulega tveimur? Er það arfleifð hans nokkuð til trafala – gerir hann mögulega bara enn meira spennandi, þennan áhrifamesta myndlistarmann sem uppi var kringum aldamótin 1600?

Hætta að horfa á Gauguin?

Í umræðunni um áreitni og misnotkun eru sjónir farnar að beinast að öðrum myndlistarmanni, einum þeim vinsælasta og eftirsóttasta, hinum franska Paul Gauguin (1848-1903). Í vikunni birtist grein í The New York Times sem athygli hefur vakið en í henni er spurt hvort við eigum að hætta að horfa á verk hans. Hann hafi nefnilega á síðustu árum ævi sinnar, þegar hann var skilinn við danska eiginkonuna sem hann eignaðist fimm börn með, og var fluttur til Kyrrahafseyja, haft samfarir við margar unglingsstúlkur, þrettán og fjórtán ára gamlar, og „kvænst“ tveimur þeirra og getið þeim börn.

Það er óumdeilt að sá rúmi áratugur sem Gauguin vann í Frönsku Pólýnesíu hafi verið sá gjöfulasti á ferli hans, listrænt séð, en á mörgum verkanna birtast þessar ungu stúlkur sem hann tældi, níddist á og kallaði síðan „villimenn“ í titlum málverkanna.

Á sýningu sem nú stendur yfir á portrettum eftir Gauguin í National Gallery í London spyr þulurinn í hljóðleiðsögninni hvort við ættum að hætta að horfa á þessi verk. Og í veggtextum er það útskýrt að listamaðurinn hafi níðst á ungum stúlkum og við það misnotað stöðu sína og forréttindi sem áhrifamikill Vesturlandabúi.

Sýnngarstjórinn segir að ekki sé lengur hægt að yppta öxlum og segja að svona hafi listamenn bara hagað sér „í gamla daga“; Gauguin hafi ekki verið sú hetja sem margir töldu hann vera.

Nánar má lesa um þetta í Morgunblaðinu í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant