Látinn leika á ný

James Dean á enn upp á pallborðið, 64 árum eftir …
James Dean á enn upp á pallborðið, 64 árum eftir andlát sitt. Michael Ochs Archives

„Við leituðum dyrum og dyngjum að fullkomnum leikara til að fara með hlutverk Rogans, sem hefur mjög snúin karaktereinkenni, og eftir margra mánaða yfirlegu þá völdum við James Dean,“ sagði Anton Ernst, annar leikstjóra kvikmyndarinnar Finding Jack, sem til stendur að gera vestur í Hollywood, í samtali við The Hollywood Reporter á dögunum. Um er víst að ræða lítið hlutverk en þó mikilvægt fyrir framvindu myndarinnar.

Valið sætir tíðindum enda hefur James Dean legið hreyfingarlaus í gröf sinni í 64 ár og engin áform haft, svo vitað sé, um að auka við ferilskrána sem telur aðalhlutverk í þremur kvikmyndum um miðjan sjötta áratuginn, East of Eden, Rebel Without a Cause og Giant.

Ekki grafinn upp

Til að fyrirbyggja allan misskilning þá hyggjast Ernst og félagi hans, Tati Golykh, ekki grafa goðsögnina upp og tefla henni fram í núverandi ástandi. Þvert á móti þarf Dean ekkert að hafa fyrir listsköpuninni að þessu sinni en framlag hans til Finding Jack verður sótt í gamlar myndir, kvikar og ókvikar, sem soðnar verða saman fyrir atbeina nýjustu tölvutækni, þannig að vart mun víst á milli sjá á tjaldinu hverjir verða tápmeiri, Dean eða meðleikarar hans í myndinni.

Allt er þetta gert með samþykki fjölskyldu Deans. „Það er okkur mikill heiður að fjölskylda hans skuli styðja við bakið á okkur og við munum gera allt sem í okkar valdi stendur til að tryggja að ekki falli skuggi á arfleifð einnar skærustu kvikmyndastjörnu sögunnar. Fjölskyldan lítur svo á að hér sé um fjórðu kvikmynd hans að ræða; kvikmynd sem honum auðnaðist ekki að gera. Við ætlum ekki að valda aðdáendum hans vonbrigðum,“ bætti Ernst við í samtalinu við The Hollywood Reporter.

Gott og vel. Ugglaust verða einhverjir aðdáendur James Dean glaðir að sjá hann „að nýju“ á hvíta tjaldinu en er samt ekki eitthvað bogið við þetta?

Hvað um alla leikara á svipuðu reki í Hollywood sem sannarlega draga ennþá andann? Hvers eiga þeir að gjalda? Þið munið að menn lágu mánuðum saman yfir þessu áður en þeir komust að niðurstöðu. Og enginn annar var þess umkominn að taka hlutverkið að sér.

Gerist í Víetnamstríðinu

Það er heldur ekki eins og myndin gerist á sjötta áratugnum, þar sem hið íkoníska yfirbragð Deans kæmi án efa að notum, hún á sér stað í Víetnamstríðinu. James Dean fór yfir móðuna miklu áratug áður en fyrsti bandaríski hermaðurinn drap niður fæti þar um slóðir.

Þá þykir sumum helst til mikill markaðsfnykur af gjörningnum. Hver hefur svo sem heyrt um Anton Ernst og Tati Golykh? Eru þeir ekki bara að þessu til að freista þess að vekja athygli á kvikmynd sem annars myndi sigla milli skers og báru? Sennilega er þó of snemmt að svara því af fullri vissu. Mögulega verður Finding Jack meistaraverk. Mögulega ekki.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það þarf ekki alltaf einhver ósköp til þess að lífga upp á tilveruna. Hvað sem þú tekur þér fyrir hendur mun ganga upp. Vertu bjartsýn/n.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það þarf ekki alltaf einhver ósköp til þess að lífga upp á tilveruna. Hvað sem þú tekur þér fyrir hendur mun ganga upp. Vertu bjartsýn/n.