Jólaspá Hrútsins: Eina mínútu í einu

mbl.is

Elsku hrúturinn minn, þú ert að fara inn í tímabil þar sem þú munt svo sannarlega vera í essinu þínu. Mikið af því sem þú varst búinn að ákveða að myndi gerast í kringum þig er að koma til þín.

Þú ert líka búinn að leggja svo hart að þér til að sjá sólskinið að það mun skína til þín úr öllum áttum. Að sjálfsögðu getur þú einblínt og sett sem aðalatriðið í þínu fallega heilabúi eitthvað sem er leiðinlegt eða pirrar þig, en ég verð að segja að það algjörlega þinn eigin valkostur.

Þessi tími mun fæða af sér jákvæðni, bæði í huga og líkama og þar af leiðandi styrkingu á sjálfstrausti, sem er með því mikilvægasta sem þú þarft að hafa með þér í þessu ferðalagi sem kallast lífið.

Það verður almennt meiri friður, því þú hefur það vit að bíta í tunguna á þér og sleppa því að segja það sem er í raun og veru alveg ónauðsynlegt. Þetta hefur stundum verið akkilesarhæll þinn en núna hefur þú styrk, vit og blessun til að láta sumt ósagt.

Seigla og ákveðni til að klára allt það sem þú ætlaðir að gera mun gefa þér svo mikla hamingju því að enginn er í raun og veru ánægður nema eftir gott dagsverk, svo vertu stoltur af sjálfum þér.

Þegar jólin eru að nálgast flækistu að sjálfsögðu í spennunni sem tengist öllu því ímyndaða stressi sem við látum oft verða að veruleika og skemmum mínúturnar, klukkutímana og daginn sem okkur er gefinn. Hugsaðu eina mínútu í einu því þegar höfuðið fer á flakk um hvað er að gerast eða hvernig það verður ertu ekki að skapa rétta eða góða tíðni. Þú ert að taka svo mörg gæfuspor í lífi þínu, elskan mín, taktu vel eftir hverju spori.

Jólaknús til þín!

Sigga.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú stendur eins og klettur í öllu því róti sem í kringum þig er. Leystu fyrst þinn vanda og þá rekst allt hitt í kjölfarið.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú stendur eins og klettur í öllu því róti sem í kringum þig er. Leystu fyrst þinn vanda og þá rekst allt hitt í kjölfarið.