Tæplega 100 ára og enn í fullu fjöri

Betty White á Emmy-verðlaunahátíðinni 2018.
Betty White á Emmy-verðlaunahátíðinni 2018. AFP

Flestir ættu að kannast við leikkonuna Betty White en White fagnar 98 ára afmæli í dag. White hefur átt langan feril á hvíta tjaldinu og í sjónvarpi. 

White fæddist 17. janúar 1922 í Oak Park, Illinois-ríki í Bandaríkjunum. White-fjölskyldan dvaldi þó ekki lengi í Oak Park heldur fluttist hún til Los Angeles í kreppunni miklu 1929. 

Þegar White kom til Los Angeles fóru hjólin að snúast hjá henni. Hún hafði mikinn áhuga á leiklist og fékk aðalhlutverkið í leikriti sem framhaldsskólinn hennar setti upp. Hún útskrifaðist svo með glæsibrag árið 1940.

Áður en hún fékk hlutverk í sjónvarpi var hún vinsæl útvarpskona. Upp úr krafsinu fékk hún starf við þættina Hollywood on Television. Ekki leið á löngu þar til hún stjórnaði sínum eigin spjallþætti, The Betty White Show. Stuttu seinna fékk hún hlutverk í þáttunum Date with the Angels.

Úr The Betty White Show.
Úr The Betty White Show. Ljósmynd/WikiCommons

Eftir tvö stutt hjónabönd fann White hina einu sönnu ást. Hún varð ástfangin af þáttastjórnandanum Allen Ludden, sem hún kynntist þegar hún var gestur í þætti hans. „Okkur leið eins og við þekktum hvort annað,“ sagði hún í viðtali á þeim tíma. Það tók þó sinn tíma fyrir Ludden að fá White til að giftast sér. 

Hann þrábað hennar en alltaf sagði White nei. Á endanum fór hann að ganga um með trúlofunarhring í hálsfesti. Það gerði hann alveg þangað til hún sagði að lokum já. Þau giftu sig 14. júní 1963. Hann lést úr magakrabbameini árið 1981. Þau eignuðust engin börn saman, en White er stjúpmóðir þriggja barna hans sem misstu einnig móður sína úr krabbameini.

Betty White árið 2010.
Betty White árið 2010. Ljósmynd/WikiCommons

Hún var reglulegur gestur í þætti Johnny Carson og vöktu innslög hennar mikla athygli og kátínu áhorfenda.

Það sem hefur án efa verið hennar stærsta hlutverk er aðalhlutverkið í Golden Girls sem sýndir voru á árunum 1985 til 1992. Þættirnir hafa ítrekað lent á lista yfir bestu þætti allra tíma og unnu White og mótleikkonur hennar Beatrice Arthur, Rue McClanahan og Estelle Getty allar Emmy-verðlaun fyrir frammistöðu sína.

Hún hefur leikið í fjöldum öllum af sjónvarpsþáttum síðan og einnig kvikmyndum þótt þær séu færri. Hún lék eftirminnilega á móti Söndru Bullock og Ryan Reynolds í kvikmyndinni The Proposal árið 2009. 

White ásamt eiginmanni sínum Allen Ludden.
White ásamt eiginmanni sínum Allen Ludden. Ljósmynd/WikiCommons

Árið 2010 var stórt ár fyrir hana þar sem hún vakti mikla athygli fyrir að leika í Snickers-auglýsingu sem sýnd var í kringum ofurskálina í NFL-deildinni í Bandaríkjunum. 

Sama ár fékk hún heiðursviðurkenningu sem skógarvörður. Það hafði verið hennar draumur að verða skógarvörður þegar hún var lítil stelpa, en í þá daga máttu konur ekki verða skógarverðir. Draumurinn rættist því að lokum og sagði White að hún hefði alltaf verið skógarvörður í hjartanu, nú væri það bara loksins formlegt.

White er ekki sest í helgan stein og heldur áfram að birtast í spjallþáttunum og grínþáttum hér og þar um Bandaríkin. Hún fékk heiðursverðlaun Emmy-verðlaunanna árið 2018.

Á Emmy-verðlaunahátíðinni árið 1989.
Á Emmy-verðlaunahátíðinni árið 1989. Ljósmynd/WikiCommons
White hitti Barack Obama, þáverandi forseta Bandaríkjanna, árið 2012.
White hitti Barack Obama, þáverandi forseta Bandaríkjanna, árið 2012. Ljósmynd/WikiCommons
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú munt ná takmarki þínu ef þér tekst að virkja annað fólk til að hjálpa til. Markmið þitt á þessu ári ætti að vera að sættast við þig og sjá kostina sem þú býrð yfir.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú munt ná takmarki þínu ef þér tekst að virkja annað fólk til að hjálpa til. Markmið þitt á þessu ári ætti að vera að sættast við þig og sjá kostina sem þú býrð yfir.