Harry og Meghan eyðileggi konungsfjölskylduna

Meghan og faðir hennar hafa eldað grátt silfur frá því …
Meghan og faðir hennar hafa eldað grátt silfur frá því Meghan giftist inn í bresku konungsfjölskylduna, ef ekki lengur. AFP

Thomas Markle, faðir Meghan Markle, segir að hertogahjónin fráfarandi, Harry og Meghan, séu að „lítillækka konungsfjölskylduna og gera hana subbulega“. Þetta kemur fram í viðtali við sjónvarpsstöðina Channel 5. Sagði hann konungsfjölskylduna „eina af merkustu og elstu stofnunum heims“ og sakaði parið um að eyðileggja hana.

Sagði hann enn fremur að dóttir hans hefði alltaf viljað vera prinsessa, en um leið og hún hefði fengið það hefði hún kastað því frá sér, að því er virtist fyrir peninga. Þau ummæli kunna þó að skjóta skökku við í ljósi þess að Harry og Meghan munu einmitt afsala sér greiðslum frá konungsfjölskyldunni og byrja að borga leigu fyrir Frogmore-húsið, heimili þeirra á Bretlandi.

Um fátt er meira talað í Bretlandi þessa dagana en Harry og Meghan, eftir að þau tilkynntu að þau hygðust draga sig í hlé frá hefðbundnum störfum konungsfjölskyldunnar og verja meiri tíma í Norður-Ameríku. Eru þau sögð vilja sjálfstæði frá bresku konungsfjölskyldunni.

Boris Johnson, forsætisráðherra Breta, segir að landsmenn allir óski Harry Bretaprinsi og Meghan konu hans velfarnaðar er þau segja sig frá konunglegum skyldum. Þetta sagði Johnson í ræðu á fundi í Berlín í dag. Sagðist hann fullviss um að konungsfjölskyldan fyndi leið áfram fyrir hertogahjónin fráfarandi, sem munu afsala sér konunglegum titlum.

Elísabet Englandsdrottning mætti til Maríukirkjunnar í Hillington í morgun og var vel tekið. Í tilkynningu frá drottningu segir að hún styðji „umbreytingartímabil hjónanna“. Þá sé hún einstaklega stolt af því hve fljótt Meghan hafi tekist að verða ein af fjölskyldunni.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú stjórnar ferðinni í lífi þínu. Leyfðu ævintýraþránni að fá útrás og þá verður allt annað, sem þú þarft að gera, svo auðvelt.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú stjórnar ferðinni í lífi þínu. Leyfðu ævintýraþránni að fá útrás og þá verður allt annað, sem þú þarft að gera, svo auðvelt.