Tónlistarmaðurinn Ozzy Osbourne greindi frá því í nýju viðtali við The Good Morning Show að hann hefði greinst með parkinsonsjúkdóm.
Osbourne greindist í febrúar á síðasta ári en hann fagnaði 71 árs afmæli sínu í desember síðastliðinn. „Þetta hefur verið skelfilega átakanlegt fyrir okkur öll. Ég hélt síðustu tónleika á gamlárskvöld í The Forum. Síðan datt ég illa og þurfti að fara í aðgerð á hálsi, sem ruglaði í öllum taugunum,“ sagði Osbourne.
„Þetta er PRKN 2 [tegund af parkinsonsjúkdómi]. Það eru svo margar tegundir af sjúkdómnum. Þetta er ekki neinn dauðadómur en hann hefur áhrif á ákveðnar taugar í líkamanum. Og þetta er eiginlega þannig að þú átt mjög góðan dag og síðan mjög slæman dag,“ sagði eiginkona hans, Sharon Osbourne, sem fylgdi honum í viðtalið.
Ozzy Osbourne er búinn að fresta tónleikaferðalagi sínu um heiminn og hefur hvílt sig heima síðustu vikur. Hann segist þó vera á batavegi núna.
„Ég var dofinn niður handlegginn fyrir aðgerðina og fæturnir verða alltaf kaldir. Ég veit ekki hvort það er út af parkinsonsjúkdómnum en það er vandamálið. Af því að þeir klipptu á einhverjar taugar í aðgerðinni. Ég hafði aldrei heyrt um sársauka í taugum og það er skrítin tilfinning,“ sagði Osbourne.