Aukinn áhugi á dórófóni eftir sigurgöngu Hildar

„Hugmyndin um ný hljóðfæri er fjarri fólki þannig að þegar …
„Hugmyndin um ný hljóðfæri er fjarri fólki þannig að þegar þetta dúkkar upp í menningunni þá vekur þetta ansi margar tengingar,“ segir Halldór. Ljósmynd/Sammi Drew

Dórófónn, nýtt hljóðfæri Halldórs Úlfarssonar myndlistarmanns og hönnuðar, hefur vakið mikla athygli á síðustu vikum og mánuðum. Ástæðan er sú að Hildur Guðnadóttir notar hljóðfærið í tónlist sinni í Jókernum. Fyrir tónlistina hefur Hildur hlotið fjölda verðlauna, nú síðast Óskarsverðlaunin sem hún hlaut í nótt. 

Dórófónninn er lítt þekktur enda hefur hann verið í mótun á síðustu árum. Hljóðfærið er hluti af doktorsrannsókn Halldórs við Háskólann í Sussex í Bretlandi. Verkefnið hófst þó í myndlistarnámi hans í Finnlandi nokkru fyrr.

Vel heyrist í dórófóninum í einni aðalsenu Jókersins, senu þar sem Jókerinn dansar á barmi taugaáfalls á almenningssalerni. Þá heyrist verk Hildar „Bathroom dance“ og leikur dórófónninn stórt hlutverk í því. Myndbandið við lagið má sjá hér að neðan.

Ætlunin er að tæplega tvöfalda magn dórófóna sem finna má í heiminum á þessu ári og segir Halldór að aukninguna megi tengja beint við velgengni Hildar sem er fyrrverandi skólasystir hans úr Menntaskólanum við Hamrahlíð.

Hér má sjá dórófóninn sem Hildur kallar Jimi Hendrix-selló.
Hér má sjá dórófóninn sem Hildur kallar Jimi Hendrix-selló. Ljósmynd/Aðsend

Ræddi dórófóninn við Vanity Fair

„Ég hef legið á Google í hvert sinn sem Hildur vinnur til verðlauna og athugað hvort minnst hafi verið á dórófóninn í kjölfarið,“ segir Halldór. Sú hefur gjarnan verið raunin og ræddi Hildur dórófóninn meðal annars í viðtali við Vanity Fair nýlega. 

„Í viðtölum hefur Hildur verið svo góð að minnast á að hún notar hljóðfærið í þessu verki. Í kjölfarið hefur komið hrina af einhverjum tilvísunum í þessi viðtöl við hana og ég hef séð svona einstaka samtöl og spjall á spjallþráðum um nýstárleg hljóðfæri eða hjá sellistum og strengjaleikurum sem eru að bera saman bækur sínar.“

Jimi Hendrix-selló, grátandi skrímsli

Dórófónninn er nefndur í höfuðið á Halldóri sjálfum og ber nafnið halldorophone á ensku. Um er að ræða eins konar rafselló sem er gætt klassískum stengjum en einnig setti af strengjum sem bera enduróm. 

„Svo tónlistin verður að eins konar endurómsgangverki, eins og Jimi Hendrix-selló, grátandi skrímsli,“ sagði Hildur um dórófóninn í viðtali við Vanity Fair.

Hljómi dórófónsins svipar til sellós, rafmagnsgítars og orgels.
Hljómi dórófónsins svipar til sellós, rafmagnsgítars og orgels. Ljósmynd/Aðsend

Umfjöllun um dórófóninn hefur orðið til þess að Halldór hefur fengið einstaka fyrirspurnir um það hvort hægt sé að fjárfesta í dórófóni. Spurður hvort það sé raunin segir Halldór léttur í bragði:

„Fólki er velkomið að hringja í mig og við getum bara séð hvort samningar takist. Dórófónninn er nægilega tilbúinn. Það hefur tekið tíma að finna hvað það er sem gerir góðan dórófón og hvernig besti dórófónninn sem ég geti búið til sé. Það gæti breyst á einhverjum tímapunkti, það er að segja að maður verði betri í að gera dórófóna góða þegar fram líða stundir. Ég treysti mér til þess að útskrifa dórófóninn svo ef einhver vill dórófón þá gæti ég afgreitt hann.“

Sjaldgæft að ný hljóðfæri verði til

Halldór segir að það sé sjaldgæft að ný hljóðfæri líti dagsins ljós í nútímanum og það sé líklega önnur ástæða þess að dórófónninn hafi vakið áhuga. 

„Hugmyndin um ný hljóðfæri er fjarri fólki þannig að þegar þetta dúkkar upp í menningunni þá vekur þetta ansi margar tengingar. Til að mynda tengingu við uppfinningu sem er alltaf rómantísk. Hljóðfæri eiga sérstakan sess í menningunni okkar, þau eru mikilsverðir hlutir sem fólki þykir almennt vænt um og þykir mikið til koma. Það held ég að auki tilfinninguna fyrir því að það sé eitthvað sérstakt á ferðinni.“

Hildur Guðnadóttir með Óskarinn á verðlaunaafhendingunni í nótt.
Hildur Guðnadóttir með Óskarinn á verðlaunaafhendingunni í nótt. AFP

Áhugi tónlistarfólks á dórófóninum liggur helst í áhuga á hljómnum sem hann gefur frá sér, að mati Halldórs.

„Það er líka svo sérstakt og þekkjanlegt sánd í dórófóninum og ég held að það veki líka áhuga og fólk verður forvitið. Tónlistarfólk fer að velta fyrir sér hvernig sé að spila á þetta, hvar þetta sánd eigi heima og hvernig sé hægt að nota það.“

Fimm dórófónar til, fjórir á leiðinni

Fimm dórófónar eru til í heiminum í dag og verða fjórir nýir skapaðir í ár. 

„Það má tengja það beinlínis við velgengni Hildar en líka það að nú er ég starfandi mestmegnis í Bretlandi þar sem er stærra hagkerfi með meira fjármagni í menningarmálum og stórum menningarverkefnum breitt yfir. Það er áhugavert verkefni að fara í gang í samstarfi við tvo skóla þar sem nemandi í einum skóla með leiðsögn minni og kennara smíðar nýjan dórófón og svo fer það hljóðfæri í hendurnar á öðrum nemendahópi, fólk í tónsmíðanámi á háskólastigi sem mun semja fyrir það hljóðfæri og kynnast því,“ segir Halldór.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er rangt að telja að allt viðgangist bara ef það kemst ekki upp. Gættu þess þó að sum mál eru alls ekki ætluð öðrum, þótt góðir séu.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er rangt að telja að allt viðgangist bara ef það kemst ekki upp. Gættu þess þó að sum mál eru alls ekki ætluð öðrum, þótt góðir séu.