Mun dauði Flack hafa einhver áhrif?

Mun fráfall sjónvarpsstjörnunnar Caroline Flack hafa einhver áhrif á hvernig …
Mun fráfall sjónvarpsstjörnunnar Caroline Flack hafa einhver áhrif á hvernig almenningur kemur fram við frægt fólk á samfélagsmiðlum? AFP

Mikil umræða hefur skapast í kringum fráfall fyrrverandi Love Island-þáttastjórnandans Caroline Flack. Flack fannst látin á heimili sínu á laugardag og staðfest var í vikunni að hún hefði tekið sitt eigið líf.

Mikil sorg ríkir í Bretlandi en umræðan snýst einnig um ákall á breytingar á því hvernig fólk kemur fram við stjörnur á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum.

Flack hóf feril sinn í raunveruleikaþáttum árið 2002 og var viðriðin þá í mörg ár. Hún var þátttakandi í smærri raunveruleikaþáttum á árunum 2009 til 2014. Árið 2015 fékk hún stórt tækifæri þegar hún fékk starf þáttastjórnanda í The X Factor.

En kvöldið eftir fyrstu beinu útsendinguna var ekki gleðikvöld fyrir Flack. Hún var hágrátandi að lesa ljótar athugasemdir um sig á samfélagsmiðlum. „Viðbrögðin voru yfirþyrmandi því ég gerði mér ekki grein fyrir að fólk myndi vera að tala um hvernig ég lít út, hvernig ég stend, hvernig ég geng, hvernig ég tala og hvernig ég hlæ,“ sagði Flack í viðtali á sínum tíma. 

Sjónvarpsferill Flack var litaður af niðrandi ummælum í fjölmiðlum og almennings á samfélagsmiðlum. Fleiri stjörnur hafa orðið fyrir barðinu á niðrandi ummælum um sig á netinu og hafa margir tekið meðvitaða ákvörðun um að hætta að lesa þau. 

Tónlistarkonan Billie Eilish greindi frá því í vikunni að hún sé hætt að lesa athugasemdir um sig á samfélagsmiðlum því þær voru að „eyðileggja líf hennar“. Bróðir hennar Finneas O'Connell sagði í sama viðtali að þrátt fyrir að fólk sé frægt geti ummæli frá ókunnugum á samfélagsmiðlum sært. 

Nornaveiðar á samfélagsmiðlum

„Það verður að vera lína. Það er eins konar nornaveiðamenning sem myndast og samfélagsmiðlar geta stundum orðið eitraðir,“ sagði tónlistarkonan Nicola Roberts í viðtali á BBC News á mánudag. 

Kærasti Flack, Lewis Burton, sakaði hana um líkamsárás á síðasta ári og í kjölfarið fylgdi mikill fjölmiðlastormur. Ekki var búið að dæma í málinu en síðast þegar hún kom fyrir dómara, 23. desember, neitaði hún ásökununum. 

Daginn eftir birti hún færslu á Instagram þar sem hún þakkaði öllum þeim sem höfðu sýnt henni kærleik á árinu. Þar sagði hún einnig að öll athyglin og gagnrýnin sem hún hefði hlotið á síðustu mánuðum væri erfið fyrir eina manneskju.

Í breskum fjölmiðlum hefur verið dregin sú ályktun að Flack hafi tekið sitt eigið líf vegna slæmrar meðferðar á samfélagsmiðlum og í fjölmiðlum.

Það mun líklegast aldrei neinn komast að því af hverju Flack tók sitt eigið líf, enda ástæðurnar á bak við sjálfsvíg oft margþættar og flóknar. 

Þriðja sjálfsvígið tengt Love Island

Í kjölfar ásakana kærasta síns missti Flack starf sitt sem þáttastjórnandi Love Island. Hún hafði stýrt þáttunum frá árinu 2015 við nokkuð góðan orðstír. 

Flack er ekki sú fyrsta tengd raunveruleikaþáttunum Love Island til að taka sitt eigið líf. Hin tvö voru þátttakendur í þáttunum sem snúast um að finna ástina. Sophie Gradon var 32 ára þegar hún fannst látin í júní 2018. Mike Thalassitis var 26 ára þegar hann fannst látinn í mars 2019. Bæði höfðu þau þurft að þola óvægnar athugasemdir á samfélagsmiðlum í kjölfar þátttöku sinnar í Love Island.

Eftir andlát fyrrverandi keppendanna var ýmsu breytt í fyrirkomulagi þáttanna en framleiðendur þáttanna voru harðlega gagnrýndir fyrir að hlúa ekki að andlegri heilsu keppenda. 

Breska sjónvarpsstöðin iTV framleiðir þættina en hún tilkynnti um breytingarnar á vormánuðum 2019. Breytingarnar fólu í sér að þátttakendur fengu andlegan stuðning eftir að þeir luku keppni. Einnig að tilvonandi keppendur fengju andlegan stuðning og þeim gerð grein fyrir hvað þátttaka í þáttunum gæti mögulega þýtt fyrir þá. 

Einhverjir hafa kallað eftir því að serían sem er í gangi núna, 6. sería, verði sú síðasta sem gerð verði af þáttunum. Fórnarkostnaðurinn fyrir raunveruleikaþætti sem þessa sé of mikill. 

Byggt á umfjöllun BBC um málið.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant