„Spennandi áskorun“

Eva Ollikainen, verðandi aðalhljómsveitastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, stjórnar 70 ára afmælistónleikum …
Eva Ollikainen, verðandi aðalhljómsveitastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, stjórnar 70 ára afmælistónleikum sveitarinnar í kvöld í Eldborg Hörpu. mbl.is/Árni Sæberg

„Það er mér mikill heiður að stjórna þessum afmælistónleikum,“ segir finnski hljómsveitarstjórinn Eva Ollikainen um tónleika Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ) í Eldborg Hörpu í kvöld kl. 19.30 þar sem 70 ára afmæli sveitarinnar er fagnað. Uppselt er á tónleikana, en þeir verða sendir út í beinni útsendingu á Rás 1 auk þess að vera teknir upp í mynd og streymt beint á vef hljómsveitarinnar, sinfonia.is. 

Á efnisskrá kvöldsins er sjaldheyrt verk eftir Pál Ísólfsson sem nefnist Úr myndabók Jónasar Hallgrímssonar. Páll var frumkvöðull í íslensku tónlistarlífi og einn helsti hvatamaður þess að SÍ var stofnuð á sínum tíma. Grammy-verðlaunahafinn Augustin Hadelich leikur einleik í Fiðlukonsert eftir Jean Sibelius og loks leikur hljómsveitin Sinfóníu nr. 1 eftir Gustav Mahler.

„Fiðlukonsertinum hef ég stjórnað margoft, en þetta er í fyrsta sinn sem ég stjórna 1. sinfóníu Mahlers sem og verki Páls,“ segir Ollikainen, en blaðamaður settist niður með henni eftir æfingu fyrr í vikunni. „Verk Páls er einstaklega heillandi og fallegt. Það er uppfullt af þjóðlagastefjum sem útfærð eru með rómantískum hætti á sama tíma og hljómsetningin minnir um margt á Bartók. Eins og þetta,“ segir Ollikainen og grípur nóturnar sínar og syngur dæmi fyrir blaðamann.

Gaman að láta koma sér á óvart

„Fiðlukonsert Sibeliusar er einn sá besti sem skrifaður hefur verið. Tæknilega séð er þetta frábærlega saman sett verk á sama tíma og það býr yfir ótrúlegri tilfinningalegri dýpt. Svo spillir ekki fyrir hversu skemmtilegt verkið er fyrir hljómsveitina, því hún er ekki aðeins í hlutverki undirleikara fyrir einleikarann heldur fremur meðleikari,“ segir Ollikainen og tekur fram að sér finnist mjög viðeigandi að 1. sinfónía Mahlers sé flutt í kvöld.

„Auðvelt er að sjá þessa sinfóníu sem fallega táknsögu fyrir SÍ sem hefst með þróttmiklum æskuárum og fer gegnum ýmsar áskoranir áður en sæluríkið finnst að lokum. Þetta er því fullkomið verk til að flytja á þessum merku tímamótum.“

Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands fóru fram í Austurbæjarbíói 9. mars …
Fyrstu tónleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands fóru fram í Austurbæjarbíói 9. mars 1950. Róbert Abraham Ottósson stjórnaði hljómsveitinni, en á efnisskránni voru verk eftir Beethoven, Schubert, Haydn og Bartók. Ljósmyndasafn Reykjavíkur/Sigurhans Vignir

Í framhaldinu berst talið að kostum þess og ókostum að heimsþekktir tónlistarflytjendur séu bókaðir nokkur ár fram í tímann. „Það felst auðvitað ákveðið öryggi í því að vita hvaða verkefni bíða, sem auðveldar allt annað skipulag. En ég sakna þess aftur á móti að geta ekki brugðist hraðar við og sett verk fljótt á dagskrá sem heilla mig hér og nú. Hvernig á ég að vita í dag hvaða verki mig langar að stjórna eftir tvö ár?“ spyr Ollikainen og bendir á að fyrir vikið velji hún sér verkefni sem hún viti fyrir víst að hún muni alltaf vilja stjórna. Nefnir hún í því samhengi sinfóníur eftir Mahler, Bruckner, Strauss, Beethoven og Brahms.

„Ég held að þetta sé ein ástæða þess að margir stjórnendur halda sig við takmarkaðan fjölda meistaraverka – því við vitum að þetta eru verk sem munu alltaf höfða til okkar,“ segir Ollikainen og tekur fram að sig dreymi hins vegar um að geta árlega boðið upp á „carte blanche“ eða óskrifað blað á tónleikum. „Það væri spennandi áskorun jafnt fyrir mig og hljómsveitina hér að geta rannsakað og flutt tónverk sem höfða til mín hér og nú í stað þess að bíða í tvö ár. Ég held að það væri líka spennandi fyrir áhorfendur að mæta á tónleika og láta koma sér á óvart,“ segir Ollikainen sem tekur, fyrst kvenna, við stöðu aðalhljómsveitarstjóra og listræns stjórnanda SÍ í haust. Á ráðningartímanum, næstu fjögur árin, mun hún að jafnaði stjórna sveitinni í átta vikur á hverju starfsári, auk þess að stýra hljómsveitinni á fyrirhuguðum tónleikaferðum innanlands sem utan.

Tilraunir geta skilað kampavíni

Ollikainen kom fyrst til Íslands haustið 2005 og stjórnaði framhaldsskólatónleikum SÍ með nær engum fyrirvara. Hún stjórnaði sveitinni þrisvar á áskriftartónleikum 2007-10 og í fyrsta sinn í Hörpu í febrúar 2019, en skömmu síðar tók hún boði hljómsveitarinnar um að gerast aðalstjórnandi hennar. Spurð hvort hún hafi þurft að hugsa sig um þegar henni bauðst starfið svarar Ollikainen því neitandi.

„Ég heillaðist hreinlega af hljómsveitinni og fólkinu sem hér vinnur,“ segir Ollikainen og tekur fram að SÍ búi yfir tveimur sérstökum kostum. „Einbeiting hljómsveitarinnar á æfingum er töfrum líkust. Reynslan hefur kennt mér að því fjær sem við erum ys og þys stórborgarlífsins með öllum þeim hávaða, mannmergð og stressi sem stórum borgum fylgir og því nær sem við erum náttúrunni þeim mun betur eigum við með að einbeita okkur,“ segir Ollikainen og tekur fram að sjálf breytist hún þegar hún komi til Íslands.

„Annað sem heillar mig við hljómsveitina hér er samspilið. Hvort sem sveitin spilar barokktónlist eða samtímatónlist þá er samleikurinn alltaf lifandi. Ég held satt að segja að þau séu ófær um að spila „dauðar“ nótur,“ segir Ollikainen og bætir við til útskýringar: „Með „dauðum“ nótum á ég við nótur sem eru réttar og jafnvel fallegar, en skortir allt samhengi. Alltof margar hljómsveitir í heiminum í dag eru bara uppteknar af fallegu yfirborði en huga lítið sem ekkert að innihaldinu – sem er samt það sem mestu máli skiptir. Innihaldið fær sjálfkrafa mesta vægið hjá hljómsveitinni hér sem þýðir að það er draumastarf fyrir mig að fá að stjórna henni,“ segir Ollikainen og tekur fram að við bætist síðan að Eldborg sé framúrskarandi tónleikarými og allt utanumhald á skrifstofunni til fyrirmyndar.

Vill fleiri íslenskar sinfóníur

„Starfsárið 2020-2021 var að mestu mótað áður en ég var ráðin til starfa þannig að áherslur mínar í verkefnavali verða ekki greinilegar fyrr en á þarnæsta starfsári. Reyndar gat ég haft nokkur áhrif á verkefnavalið á þeim tónleikum sem ég mun stjórna á næsta starfsári,“ segir Ollikainen og áréttar að hún leggi mikla áherslu á fjölbreytni í verkefnavali. „Á síðustu árum hefur fjölbreytni vissulega aukist og sinfóníuhljómsveitir víðs vegar um heim eru farnar að leika fleiri verk eftir konur, eftir tónskáld með fjölbreyttari bakgrunn og tónskáld sem höfðu gleymst í tónlistarsögunni. Vandinn er hins vegar sá að oftast er um að ræða stutt verk eða konserta sem leiknir eru á fyrri hluta efnisskrárinnar, en ekki stærri sinfónísk verk sem rata á seinni hluta efnisskrárinnar. Á heimsvísu vantar tilfinnanlega að leiknar séu fleiri samtímasinfóníur. Það er líkt og skipuleggjendur þori ekki að setja slík verk á dagskrá og ég skil ekki hvers vegna.

Ég bind miklar vonir við að SÍ muni á næstu árum panta og frumflytja eina nýja sinfóníu eftir íslenskt tónskáld á hverju starfsári. Ég geri mér alveg grein fyrir að það felst ákveðin áhætta í því að panta nýjar sinfóníur og engin trygging fyrir því að öll verkin standist væntingar. En á tíu ára tímabili ætti svona markviss stefna að skila að minnsta kosti þremur til fjórum úrvalssinfóníum sem muni lifa,“ segir Ollikainen og bendir á að tónskáld verði líka að fá tækifæri til að þroskast með reynslunni sem felist meðal annars í því að heyra verk sín flutt.

Stjórnar nýju verki Daníels

Þó ekki sé enn búið að kynna næsta starfsár SÍ stenst blaðamaður ekki freistinguna að spyrja Ollikainen til hvers hún hlakki mest starfsárið 2020-2021. „Ég er mjög spennt fyrir opnunartónleikunum þar sem Íslandsfrumflutt verður From Space I saw Earth eftir Daníel Bjarnason, en um er að ræða verk fyrir þrjá stjórnendur,“ segir Ollikainen sem stjórna mun verkinu með Daníel Bjarnasyni, aðalgestastjórnanda SÍ, og Frímanni Bjarna Frímannssyni, aðstoðarhljómsveitarstjóra SÍ. Verkið var pantað og frumflutt af Fílharmóníusveitinni í Los Angeles seint á síðasta ári undir stjórn Zubins Mehta, Esa-Pekka Salonen og Gustavos Dudamel í tilefni af aldarafmæli Fílharmóníunnar. „Það er aldeilis frábært að geta flutt verkið hér á Íslandi og ég hlakka mjög mikið til því þetta verður einstök uppákoma,“ segir Ollikainen sem á næsta starfsári stjórnar einnig sinfóníu eftir Anton Bruckner.

„Ég hef löngum heillast af sinfóníunum sem Bruckner samdi snemma á ferli sínum og er því spennt fyrir því að stjórna 2. sinfóníu hans, sem var ákveðið tímamótaverk á ferli hans. Loks get ég nefnt að ég mun stjórna Íslandsfrumflutningi á 2. sinfóníu Thomasar Larcher sem nefnist Kenotaph,“ segir Ollikainen, en Larcher er eitt virtasta samtímatónskáld Austurríkis. „Þetta er tilfinningalega öflugt verk og einstaklega fallegt samtímaverk. Verkið samdi hann til minningar um flóttafólk sem drukknað hefur undanfarin ár í Miðjarðarhafi,“ segir Ollikainen, en verkið frumflutti Fílharmóníusveit Vínarborgar 2016.

Lengri gerð viðtalsins við Evu Ollikainen má lesa í Morgunblaðinu í dag, fimmtudaginn 5. mars. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson