Halda útisamsöng fyrir íbúa Hrafnistu í Garðabæ

Selma og Katrín Halldóra mæta.
Selma og Katrín Halldóra mæta. Samsett mynd

Föngulegur hópur íslenskra söngvara ætlar að halda samsöng fyrir utan Hrafnistu-Ísafold í Garðabæ í dag.

Ingunn Björk Vilhjálmsdóttir stendur fyrir samsöngnum ásamt tónlistarfólkinu en faðir hennar, Vilhjálmur, er meðal heimilismanna. Vilhjálmur er 89 ára og hefur fjölskylda hans ekki getað heimsótt hann.  

„Mig langaði að gera „góðverk“, á tímum COVID-19, gleðja pabba og aðra á Hrafnistu-Ísafold, en pabbi er 89 ára gamall og við getum ekki heimsótt hann. Ég talaði því við æskuvinkonu mína, Selmu Björnsdóttur söngkonu, og boltinn fór strax að rúlla. Fyrst ætluðum við bara tvær að syngja í portinu bak við Ísafold, en Selma talaði við aðra söngvara og allir tóku svo vel í þessa hugmynd, að nú erum við búnar að smala 15 söngvurum sem ætla að gefa vinnu sína og gleðja alla á Ísafold í dag,“ segir Ingunn í samtali við mbl.is.

Þau munu syngja nokkur lög, þar á meðal Lóan er komin og Heyr mína bæn. Þetta eru til dæmis Selma Björnsdóttir, Katrín Halldóra, Björgvin Franz, Gréta Salome, Matti Matt, Hansa og fleiri.

Að sögn Ingunnar fagnaði yfirstjórn Hrafnistu framtakinu og allir íbúar líka. „Íbúar ætla að setjast út á svalir, fá heitt kakó með rjóma, teppi og klæða sig vel og syngja með okkur „Lóan er komin“,“ segir Ingunn og bætir við að þau verði færri en 20 og að tveir metra verði á milli allra söngvaranna, auk þess sem þau munu vera í mikilli fjarlægð frá íbúunum. „Við viljum auðvitað ekki taka neina sénsa, en markmiðið er bara að gleðja eldri borgara.“

Samsöngurinn fer fram í portinu við Hrafnistu-Ísafold.
Samsöngurinn fer fram í portinu við Hrafnistu-Ísafold. Ljósmynd/Aðsend
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Einkar gott er að sinna viðskiptum og fjármálum í dag. Láttu einskis ófreistað til þess að komast til botns í hlutunum.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Einkar gott er að sinna viðskiptum og fjármálum í dag. Láttu einskis ófreistað til þess að komast til botns í hlutunum.