Sprenging í bóksölu á netinu

Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, segir að sala bóka á …
Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, segir að sala bóka á vef útgáfunnar hafi allt að tífaldast milli ára þegar litið sé til einstakra daga í marsmánuði. mbl.is/Kristinn Magnússon

Bóksala á netinu hefur margfaldast hér á landi eftir að samkomubanni var komið á, eins og við var að búast, enda engar fjöldasamkomur í boði. Blaðamaður hafði samband við nokkur af helstu forlögum landsins og einnig Heimkaup og forvitnaðist um netsölu bóka nú á tímum kórónuveirufaraldurs.


Sala aldrei verið meiri


Dögg Hjaltalín, framkvæmdastjóri Sölku, segir að hún og útgefandi Sölku, Anna Lea Friðriksdóttir, hafi orðið varar við aukna sölu bóka á vef útgáfunnar. „Við höfum verið með vefverslunina í mörg ár og hefur salan aldrei verið jafnmikil og síðustu daga. Fólk er einnig að panta fleiri bækur og sumir jafnvel alveg heilu kassana af bókum.

Dögg Hjaltalín.
Dögg Hjaltalín. mbl.is/Ófeigur Lýðsson



Við ákváðum að framlengja afsláttarverðið sem var á Bókamarkaðinum í Laugardal og gæti það einnig verið ástæða þess hversu margir eru að kaupa bækur á netinu,“ segir Dögg og bætir við að matreiðslubækur séu vinsælasti bókaflokkurinn á vef Sölku þessa dagana og barna- og handavinnubækur njóti einnig vinsælda. Bókin Bakað úr súrdeigi rjúki út og því virðist sem allir séu farnir að baka úr súrdeigi nú þegar þeir hafi nægan tíma til þess heima fyrir.

„Einnig er greinilegt að fólk vill gera vel við sig í mat og seljast matreiðslubækurnar hennar Evu Laufeyjar líka mjög vel,“ segir Dögg og nefnir einnig bók með hugmyndum um útiveru með börnum sem sé vinsæl. „Við höfum séð undanfarna daga að pantanirnar eru að stækka og fólk er að kaupa fleiri bækur í einu og ég tel að það verði þróunin á næstunni. Við erum smátt og smátt að átta okkur á því að við verðum með nægan tíma til að glugga í bækur á næstunni.“


Margföld netsala


Egill Örn Jóhannsson, framkvæmdastjóri Forlagsins, segir að sala í gegnum vefverslun Forlagsins hafi margfaldast á undanförnum dögum og vikum og suma dagana hafi hún verið meira en tíföld miðað við marsmánuð í fyrra.
„Þegar við sáum í hvað stefndi fyrir nokkrum vikum hófum við markvisst átak við að kynna vefverslunina, sem hefur satt að segja gengið langt framar vonum. Á heimasíðunni seljum við bækur allra útgefenda, og er að finna yfir fimm þúsund titla á forlagid.is,“ segir Egill. „Þannig bættum við útkeyrslu á höfuðborgarsvæðinu til muna í síðustu viku og erum núna í sumum tilvikum að ná að afhenda bækur samdægurs, en í langflestum tilvikum náum við afhenda bækur til viðskiptavina daginn eftir að pöntun er gerð.
Sömuleiðis hófum við mikið átak í að kynna betur úrval bæði raf- og hljóðbóka, en ég ímynda mér að margir geri sér ekki grein fyrir því að úrval í báðum flokkum er orðið gríðarlegt og hægt að gera mjög góð kaup.
Í síðustu viku ákváðum við að gefa þrjár hljóðbækur og um leið og kynningin hófst fór heimasíða Forlagsins algerlega á hliðina enda ásóknin rosaleg. Við gáfum þannig á fyrstu tveimur til þremur dögunum yfir þúsund hljóðbækur til viðskiptavina, sem svo hafa fjölmargir keypt sér fleiri hljóðbækur í kjölfarið,“ segir Egill. „Þannig að þetta er sannanlega ljós í myrkrinu, eins og sakir standa, hversu vel þetta hefur gengið, og ég á ekki von á öðru en það haldi áfram. Og þó svo við verðum kannski að skella tímabundið í lás, harðni aðgerðir Almannavarna, verður alltaf hægt að kaupa sér bæði raf- og hljóðbækur á netinu. Það er gott til þess að vita að fjölmargir Íslendingar eru að leita sér afþreyingar við bóklestur og hlustun á meðan þetta fár gengur yfir.“


Áskrifendum fjölgar og fjórföld sala hjá Eddu


María Rán Guðjónsdóttir hjá Angústúru segir forlagið bjóða upp á bækur í áskrift, þýðingar á merkum bókum frá ýmsum heimshornum og áskrifendum að þeim hafi fjölgað mikið undanfarið. „Fólki finnst sérstaklega kærkomið að fá heimsenda nýja bók á þessum tímum — algjör himnasending! Netsala hefur einnig aukist og ég spái því að hún eigi eftir að gera það enn frekar, nú þegar flestir hafa komið sér vel fyrir heima með nóg að bíta og brenna. Í samkomubanni er upplagt leyfa sér að gleyma sér í góðri bók,“ segir María.

María Rán Guðjónsdóttir.
María Rán Guðjónsdóttir.



Nafna hennar, María B. Johnson, sölu- og markaðsstjóri Eddu útgáfu sem gefur m.a. út Andrés Önd, segir að sala á alls kyns afþreyingarefni, þrautabókum og krossgátubókum á vef útgáfunnar, edda.is, hafi töluvert aukist. „Þrautabækur og krossgátubækur Moggans rjúka út núna. Bæði hefur salan aukist á netinu hjá okkur og eins til verslana og óhætt er að segja að salan á netinu hafi fjórfaldast hjá okkur frá sama tíma í fyrra,“ segir María.


Áttföld sala en þrengir að starfsemi bókabúða


Pétur Már Ólafsson, útgefandi hjá Bjarti & Veröld, hefur sömu sögu að segja og aðrir útgefendur. „Sala á bókum á netinu hefur margfaldast hjá okkur. Salan á fyrsta ársfjórðungi á bjartur-verold.is er um það bil áttfalt meiri en á sama tíma í fyrra og hefur langmest aukning verið nú í mars. Að sama skapi hefur sala í verslunum dregist saman og munar þar að sjálfsögðu mest um Leifsstöð þar sem ævinlega selst mikið af kiljum. Til að koma til móts við lesendur höfum við ákveðið að fella niður sendingarkostnað á bókum innanlands. Við höfum líka fengið fjölda nýrra áskrifenda í neon-bókaklúbbnum en þar bjóðum við splunkunýjar þýðingar á því sem hæst ber í bókmenntum heimsins hverju sinni. Klúbburinn hefur verið starfandi í nálega aldarfjórðung og sendir frá sér fjórar til sex bækur á ári,“ segir Pétur Már.

Pétur Már Ólafsson.
Pétur Már Ólafsson. mbl.is/Kristinn Ingvarsson



„Það er ljóst að bókaútgefendur sem aðrir munu taka á sig mikið högg vegna minni sölu á næstunni. Þrengjast mun að starfsemi bókabúða eins og annarra verslana á næstu vikum. Salan mun þá færast í enn meira mæli yfir á netið, enda á þjóðin mjög erfitt með að vera bókarlaus. Þó að þrengi að sölumöguleikum okkar látum við þó ekki deigan síga. Í vikunni dreifum við nýrri kilju, Þöglu stúlkunni eftir Hjorth og Rosenfeldt en það er verðlaunaþýðandinn Snæbjörn Arngrímsson sem snarar bókinni um réttarsálfræðinginn Sebastian Bergman á íslensku,“ segir Pétur Már.


Snörp aukning


Guðmundur Magnason, framkvæmdastjóri Heimkaupa sem selja m.a. bækur á netinu, segist hafa séð snarpa aukningu milli vikna, vel rúmlega tvöfalda sölu eða 125% frá elleftu viku til þeirrar tólftu. Allt stefni í enn meiri sölu í vikunni sem nú er að líða. Guðmundur bendir á að hluti af þessum seldu bókum séu rafbækur og enga vírusa þar að finna. Hann bætir við að aldrei hafi selst eins mörg púsluspil og nú.

Guðmundur Magnason.
Guðmundur Magnason. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant