Renna Slayer og Pantera saman?

Kerry King í essinu sínu í Laugardalnum.
Kerry King í essinu sínu í Laugardalnum. Árni Sæberg

Tónleikahald liggur niðri í málmheimum eins og öðrum heimum um þessar mundir enda ógerlegt að stíga hinn æðisgengna slamdans með tvo metra á milli iðkenda. Hann gengur út á að menn hjóli í og hrökkvi hver af öðrum. Af fullum þunga. Til að stytta sér stundir leggjast menn í pælingar, almennar og sérhæfðar, og setja fram alls kyns kenningar. Misáhugaverðar eins og gengur.

Ein vinsælasta kenningin um þessar mundir er á þann veg að til standi að stofna nýtt ofurband á grunni tveggja áhrifamestu málmbanda sögunnar, Pantera og Slayer, en eftir að hið síðarnefnda lagði upp laupana seint á síðasta ári heyra þau nú bæði sögunni til. Orðrómur þess efnis komst raunar strax á kreik eftir að Slayer kvaddi en hefur fengið byr undir báða vængi undanfarið; ekki síst eftir að Paul Bostaph, trymbill Slayer, sendi frá sér hálfkveðna vísu á samfélagsmiðlum þess efnis að hann væri farinn að vinna að áhugaverðu verkefni með ónefndum góðkunningja málmelskra.

Málmskýrendur ruku að vonum upp til handa og fóta og stilltu félögum hans úr Slayer, gítarleikurunum Kerry King og Gary Holt, upp í hinu nýja bandi, ásamt Philip Anselmo, söngvara Pantera. Þá vantar bassaleikara og Rex Brown hlýtur að koma til álita enda hinn Panteringurinn hérna megin móðu. Abbott-bræðurnir eru sem kunnugt er báðir farnir; Dimebag var myrtur á miðjum tónleikum árið 2004 og Vinny Paul fylgdi honum fyrir tveimur árum. Í sömu viku og Slayer lék í Laugardalnum. Banamein hans var hjartasjúkdómur.

Allt útlit er fyrir að Tom Araya, bassaleikari og söngvari Slayer, sé sestur í helgan stein. „Tom endurskoðar aldrei sínar ákvarðanir,“ sagði eiginkona hans, Sandra, sem frægt var í samtali við málmgagnið Metal Pulp And Paper. Þannig að ekki er hann orðaður við verkefnið. Ekki heldur Dave Lombardo, sem upphaflega lamdi húðir með bandinu. Jeff Hanneman gítarleikari hélt á fund feðra sinna árið 2013.

Ólíkindatólið Philip Anselmo.
Ólíkindatólið Philip Anselmo. AFP


Sterkur þráður

Sterkur þráður var á sínum tíma milli Slayer og Pantera og mikil vinátta; ekki síst milli Dimebag og Kerry King. Sá síðarnefndi henti meira að segja í eitt stykki „outro“ í laginu Goddamn Electric sem var á síðustu plötu Pantera, Reinvetning the Steel, árið 2000 og kom fram sem gestur á tónleikum.

Lítið hefur spurst til King eftir kveðjutónleika Slayer en hann skrifaði þó undir nýjan samning við gítarframleiðandann Dean, sem eitt af andlitum merkisins, fyrr á þessu ári og sagði við það tækifæri: „Orðum þetta svona ... Dean samdi ekki að ósekju við mig.“ Allt bendir því til þess að við eigum eftir að sjá King aftur á sviði í framtíðinni; hann hefur á hinn bóginn ekki sagt orð um samstarf við Anselmo og sína gömlu félaga Bostaph og Holt.

Nánar er fjallað um málið í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notfærðu þér þann hæfileika þinn að vera fundvís á missmíðir. Njóttu þess að vera með öðrum og að deila draumum þínum og framtíðarvonum með þeim.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Notfærðu þér þann hæfileika þinn að vera fundvís á missmíðir. Njóttu þess að vera með öðrum og að deila draumum þínum og framtíðarvonum með þeim.