„Saga mín er myrk en ég tala frá hjartanu"

Sönkonan Duffy á Brit-verðlaunahátíðinni árið 2009.
Sönkonan Duffy á Brit-verðlaunahátíðinni árið 2009. AFP

Velska söngkonan Duffy hefur birt nánari lýsingu á því þegar henni var byrlað ólyfjan og nauðgað eftir að árásarmaður hélt henni fanginni. 

Duffy, sem heitir fullu nafni Aimee Anne Duffy, segist hafa viljað segja frá sinni „myrku sögu“ til að hjálpa „öðrum sem hafa lent í því sama“.

Farið með hana úr landi 

Í febrúar síðastliðnum greindi hún fyrst frá því sem gerðist á Instagram-síðu sinni en í nýrri færslu segir hún nánar frá því sem gerðist. „Ég vona að þetta verði til þess að þið skammist ykkar ekki ef þið eruð einmana,“ skrifaði Duffy. „Þetta var á afmælinu mínu. Mér var byrlað ólyfjan á veitingastað og ég var dópuð í fjórar vikur og ferðaðist til annars lands. Ég man ekki eftir að hafa farið í flugvél en rankaði við mér í aftursæti ökutækis. Það var farið með mig á hótelherbergi og árásarmaðurinn sneri aftur og nauðgaði mér,“ skrifaði hún.

„Ég man sársaukann og það að reyna að halda meðvitund í herberginu eftir að þetta gerðist. Ég var föst með honum í einn dag enn. Hann horfði ekki á mig, ég átti að ganga á eftir honum. Ég var með einhverri meðvitund og hélt mig til baka. Hann hefði getað losað sig við mig.“

Hún bætti við hún vissi ekki hvernig hún hefði haft styrkinn til að halda þessa daga út og sagði að árásarmaðurinn hefði talað um að hann ætlaði að drepa hana, að sögn Sky.

„Við lifum í skaðlegri veröld,“ sagði hún og bætti við: „Ég skammast mín ekki lengur fyrir að eitthvað hafi skaðað mig afar mikið. Ég tel að ef þú talar frá hjartanu fáirðu svör frá hjarta annarra. Saga mín er myrk en ég tala frá hjartanu mínu, út frá mínu lífi og fyrir lífi annarra sem hafa lent í því sama.“

Ein í tíu ár

Í fyrstu óttaðist hún að hafa samband við lögregluna en á endanum sagði hún kvenkyns lögregluþjóni frá því sem gerðist eftir að einhver hafði hótað því að segja sögu hennar opinberlega.

Hún bætti við að hún hefði verið í mikilli hættu á því að fremja sjálfsvíg eftir það sem gerðist og hefði eytt „næstum tíu árum algjörlega ein“.

Núna finnst henni hún geta „sagt skilið við þennan áratug“ og kveðst vera frjáls. Þakkar hún sálfræðingnum sem aðstoðaði hana við að vinna úr áfallinu og vonast til að gefa út tónlist einn góðan veðurdag. Hún bætti þó við: „Ég efast stórlega um að ég verði nokkurn tímann sama manneskja og fólk þekkti eitt sinn.“

Vann Brit- og Grammy-verðlaun

Platan hennar Rockferry komst á toppinn í Bretlandi árið 2008. Árið eftir vann hún þrenn Brit-verðlaun og ein Grammy-verðlaun. Síðasta platan hennar Endlessly, kom út árið 2010 og hlaut hún ekki eins góðar viðtökur.

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þetta er ekki rétti tíminn til að vera einn. Komdu þér út úr húsi. Viss aðili fær rauða spjaldið hjá þér.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant