Klósettuppsetningamaðurinn sló í gegn

Bill Withers árið 2015. Hann átti það til að leggja …
Bill Withers árið 2015. Hann átti það til að leggja góðum málefnum lið á sínum seinni árum. Sérstaklega studdi hann við bakið á krökkum sem glíma við stam. AFP

Fyrir skömmu bárust þau tíðindi að bandaríski sálarsöngvarinn Bill Withers hefði látist 82 ára að aldri. Hann var eldri en gengur og gerist þegar hann sló í gegn á sínum tíma og safnaði fyrir upptökum á tónlistinni sinni með því að setja upp salerni í breiðþotum. 

Withers ólst upp í fátækt í Vestur-Virginíu í hópi sex systkina. Ræturnar voru í bláköldum bandarískum raunveruleika. Afi hans hafði fæðst inn í þrældóm og heimabærinn var kolanámubærinn Slab Fork. Já, Slab Fork! Auk þess stamaði Bill og hann hefur lýst frumstæðum meðulum sem fólk hélt að dygðu til að hrista orðin upp úr barninu. Við fyrsta tækifæri kom hann sér því frá bænum og fólkinu og gekk í sjóherinn til að skipta um umhverfi. 17 ára gamall var hann kominn til Gvam og orðinn vélvirki í þjónustu Sáms frænda. 

Eftir áratug í hernum hélt Withers heim og en byrjaði að vinna við samsetningar á þotum í verksmiðju. Í hernum hafði hann oft sungið þegar hermennirnir lyftu sér upp en tónlistariðkunin var alltaf frekar óformleg og Withers segist ekki hafa eignast sinn fyrsta gítar fyrr en hann var kominn yfir þrítugt og í kjölfarið fór hann að reyna fyrir sér í tónlistarbransanum. Aldur sem þykir nokkuð virðulegur í þeim geira.

Við upphaf áttunda áratugarins varð samdráttur víða um heim og Withers var einn þeirra sem misstu starfið í efnahagsþrengingunum. Þetta gerðist eftir að hann hafði náð að telja stjórnendur Sussex-útgáfunnar á að gefa út sína fyrstu plötu, Just As I Am, árið 1971. Í heimildarmynd um kappann kemur fram að hann hafi fengið tvö bréf í póstinum einn daginn eftir að platan kom út. Annað bréfið var frá verksmiðjunni þar sem honum var tilkynnt að hann gæti komið aftur til starfa. Hitt bréfið var boð um að koma fram í þættinum hjá Johnny Carson. „Ain't No Sunshine“ var byrjað að fara á flug og ferill Withers líka. 

Bara eins og ég er. Bill var með nestisboxið sitt …
Bara eins og ég er. Bill var með nestisboxið sitt á leið til vinnu framan á umslaginu á sinni fyrstu breiðskífu. Væntanlega að fara setja upp nokkur salerni í 747 þotu þann daginn.

Lagið hafði verið b-hlið á smáskífu þar sem „Harlem“, fyrsta lag plötunnar, var a-hliðin. Þótt „Harlem“ sé gott lag kemur ekki á óvart að „Ain't No Sunshine“ hafi fengið alla athyglina. Galdurinn í þeirri upptöku er óumdeilanlegur og lagið er fyrir löngu orðið ódauðlegur sálarstandard. Útsetningin er einföld eins og lagið. Withers kom sér beint að efninu og skilaði því af heiðarleika sem sker í gegnum hvaða kjaftæði sem er. Um leið og lagið hefst er eins og hver fruma í líkamanum stillist inn á þennan letilega hraða og í tvær mínúturnar sem það endist er fólk algerlega á valdi tónlistarinnar. 

Galdurinn í tónlist felst oft í því sem er látið ógert og einfaldleikinn er yfirleitt í fyrirrúmi þegar Withers tókst hvað best upp. Líklega hefði ekki verið hægt að finna betri mann en Booker T. Jones, meistara stemningarinnar, til að hafa umsjón með upptökum á plötunni. Þar var líka að finna „Grandma's Hands“ sem skapaði síðar meir stemninguna í „No Diggity“, einum af stærri hipphoppsmellum tíunda áratugarins.  

Vinsældirnar urðu fljótt miklar, „Ain't No Sunshine“ fór í þriðja sæti Billboard-listans og Withers varð stórstjarna sem seldi milljónir platna. Bakgrunnur hans sem sem verkamaður  vakti athygli og var það sem þáttastjórnendur spurðu hann iðulega út í þegar hann kom fram í sjónvarpi.

Ennþá Bill. Okkar maður var ekki að fara láta frægðina …
Ennþá Bill. Okkar maður var ekki að fara láta frægðina breyta sér.

1972 gaf hann svo út Still Bill hjá Sussex þar sem „Lean On Me“ var að finna. Annar risasmellur sem lifir góðu lífi enn þann dag í dag. Þessar fyrstu plötur eru algjörlega skotheldar. Við tók klassískt plötuútgáfuvesen. Sussex tókst að fara á hausinn þrátt fyrir að vera með einn vinsælasta söngvara Bandaríkjanna á sínum snærum. Eftir hrókeringar í LA endaði Withers hjá Columbia og gaf út nokkrar fínar plötur. Við lok áratugarins náði hann tveimur stórum smellum í viðbót: „Lovely Day“ og „Just The Two Of Us“.

Stjörnulífið átti þó ekki við Withers, sem hafði gifst Marciu Johnson sem var og er með MBA-gráðu og tók að sjá um viðskiptahlið bóndans. Þau höfðu eignast tvö börn og ólíkt mörgum starfsbræðrum sínum hafði Withers mikinn metnað fyrir föðurhlutverkinu sem hafði þau áhrif að tónleikaferðalögum fækkaði. Þetta bættist við erfið samskipti við útgáfufyrirtækið sem hann fékk óbeit á. Í fyrrnefndri heimildamynd sést þegar hann rifjar upp hugmynd einhvers snillingsins hjá Columbia um að Withers myndi gera útgáfu af „In The Ghetto“ með Elvis. „Ég varð algjörlega brjálaður,“ rifjaði hann upp. 

Það var sjálfur Stevie Wonder sem formlega bauð Withers velkominn …
Það var sjálfur Stevie Wonder sem formlega bauð Withers velkominn í Rock & Roll Hall of Fame í Cleveland árið 2015. AFP

1985 gaf hann út sína síðustu plötu. Bransinn hafði slökkt í honum löngunina til að halda áfram að gefa út tónlist en hjónin höfðu líka náð að tryggja fjárhagslega afkomu sína og þurftu því ekki á bransanum að halda. Sálin sem er svo áþreifanleg í tónlistinni varð heldur ekki gripin úr lausu lofti. Withers hefur sagt að sé hægt að lýsa geði sínu á einhvern hátt sé „manic depressive“ nærri lagi. Geðhvarfasýki þrífst vel í óstöðugu umhverfi og einfaldara líf var því nauðsyn. Eftir stendur frábærlega vel heppnaður ferill þar sem Withers tókst að halda í eigin hugsjónir og vera trúr eigin sannfæringu. Alvörusál. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson