„Nýjar áskoranir“

Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri með Sinfóníuhljómsveit Íslands á sviðinu í …
Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri með Sinfóníuhljómsveit Íslands á sviðinu í Eldborg Hörpu. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er ákaflega stolt af því að vera partur af hljómsveit sem tekst á við nýjar áskoranir af jákvæðni og er tilbúin að laga sig að aðstæðum hverju sinni,“ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ). Þegar samkomubannið var sett á í mars ásamt ferðatakmörkunum vegna kórónuveirufaraldursins var ljóst að aflýsa þyrfti öllum tónleikum sem eftir væri á yfirstandandi starfsári. Með breytingum á samkomubanni frá 4. maí verður aftur breyting á dagskrá hljómsveitarinnar. 

„Síðustu vikur hafa ýmsir kammerhópar úr hljómsveitinni komið fram á tónleikum í Eldborg í beinu streymi þrisvar í viku,“ segir Lára Sóley, en um var að ræða samstarf við Hörpu og Íslensku óperuna. „Fimmtudagskvöld hafa verið sinfóníukvöld á RÚV 2 og persónulegar heimsendingar hljóðfæraleikara hafa slegið í gegn á samfélagsmiðlum hér heima og erlendis,“ segir Lára Sóley og tekur fram að með breytingum á samkomubanni í þessari viku aukist möguleikar hljómsveitarinnar í starfi.

Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.

Sumargjöf til skólabarna

„Rýmkun á samkomubanninu nú þýðir að nú getur stærri hluti hljómsveitarinnar komið fram á ný og munum við halda ferna tónleika fyrir landsmenn næsta mánuðinn í beinni sjónvarpsútsendingu á RÚV,“ segir Lára Sóley og tekur fram að hljóðfæraleikarar sveitarinnar hlakki til að geta hist aftur og spilað saman þó allir geri sér grein fyrir að þeirra bíði ýmsar áskoranir.

„Að sjálfsögðu förum við eftir öllum fyrirmælum Almannavarna og virðum regluna um tveggja metra fjarlægð. Hljómsveitin mun því starfa í breyttri mynd þar sem að hámarki 50 listamenn geta komið saman á sviðinu í Eldborg hverju sinni,“ segir Lára Sóley og tekur fram að leikar hefjist á fimmtudag með Barnastund kl. 11 sem send verði til leik- og grunnskóla um land allt í beinu streymi á vef hljómsveitarinnar auk þess sem tónleikarnir verða sýndir beint RÚV 2.

Segir hún dýrmætt að geta hafið dagskrána í maí á því að senda börnum landsins og kennurum þeirra sumargjöf fyrstu vikuna sem skólahald er aftur komið í eðlilegt horf. „Í samstarfi við Hörpu munu tveir skólahópar vera gestir í sal á tónleikunum. Það er í sjálfu sér mikil áskorun, en gríðarlega mikilvægt skref. Í þessum nýja veruleika sem við búum í verða margar slíkar áskoranir framundan og mikilvægt að við byrjum strax að takast á við þær og læra,“ segir Lára Sóley og tekur fram að hljómsveitin taki eina viku í einu. „Það eina sem við vitum þegar við gerum plönin okkar er að þau eiga mjög líklega eftir að breytast,“ segir Lára Sóley og tekur fram að óráðlegt væri að bíða eftir því að allt verði eins og það var áður en kórónuveirufaraldurinn braust út. „Því hlutirnir verða sennilega aldrei alveg eins og þeir voru áður.

Hallveig Rúnarsdóttir sópran syngur aríur eftir Mozart á tónleikum 20. …
Hallveig Rúnarsdóttir sópran syngur aríur eftir Mozart á tónleikum 20. maí. mbl.is/Ómar Óskarsson

Listafólk í heimsklassa

Við erum einstaklega lánsöm að á Íslandi býr og starfar listafólk í heimsklassa sem við getum leitað til,“ segir Lára Sóley og bendir á að meðan ferðatakmarkanir séu í gildi verði ekki hægt að fá einleikara og stjórnendur að utan. „Samkvæmt starfsáætlun átti Hallveig Rúnarsdóttir sópran að koma fram með hljómsveitinni í maí og það er okkur ánægjuefni að hún kemur fram á tónleikum 20. maí,“ segir Lára Sóley og tekur fram að endurhugsa hafi þurft efnisskrána í ljósi fámennari hljómsveitar. Á efnisskránni verða þrjár óperuaríur eftir W.A. Mozart auk þess sem Hallveig syngur þrjú sígild íslensk sönglög. Einnig leikur Sigrún Eðvaldsdóttir Méditation, úr óperunni Thaïs eftir Massenet, en hljómsveitarstjóri er Bjarni Frímann Bjarnason.“

Páll Óskar Hjálmtýsson syngur með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum 20. …
Páll Óskar Hjálmtýsson syngur með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum 20. maí. mbl.is/Kristinn Magnússon

Fimmtudaginn 28. maí stígur Páll Óskar á svið Eldborgar og flytur mörg af sínum þekktustu lögum í útsetningum fyrir sinfóníuhljómsveit. „Páll Óskar hefur um áratuga skeið verið ein skærasta poppstjarna Íslands og kom fram með Sinfóníuhljómsveit Íslands á tónleikum árið 2011 við frábærar undirtektir þar sem færri komust að en vildu. Það er því frábært að fá hann til liðs við okkur,“ segir Lára Sóley.

Víkingur Heiðar Ólafsson leikur píanókonsert eftir Mozart á tónleikum með …
Víkingur Heiðar Ólafsson leikur píanókonsert eftir Mozart á tónleikum með Sinfóníuhljómsveit Íslands 4. júní.

Fimmtudaginn 4. júní verður Víkingur Heiðar Ólafsson í einleikshlutverkinu með hljómsveitinni undir stjórn Daníels Bjarnasonar, aðalgestastjórnanda SÍ. „Víkingur er einn dáðasti píanóleikari samtímans og hefur hlotið lof um allan heim fyrir tónleika sína og hljóðritanir á undanförnum árum,“ segir Lára Sóley og tekur fram að ánægjulegt sé að geta lokið þannig yfirstandandi starfsári. Á efnisskránni eru píanókonsert nr. 23 eftir Mozart og Allegretto úr 7. sinfóníu Beethovens.

Daníel Bjarnason stjórnar tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands 4. júní.
Daníel Bjarnason stjórnar tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands 4. júní. mbl.is/Valgarður Gíslason

Krefst hugmyndaflugs

Aðspurð segir Lára Sóley það hafa verið afar lærdómsríkt að taka þátt í því að aðlaga starfsemi hljómsveitarinnar að samkomubanni. „Venjulega eru um 90 manns á sviði sem sitja þétt og listamenn alls staðar að úr heiminum gestir okkar í hverri viku. Það hefur því krafist útsjónarsemi og hugmyndaflugs að endurskipuleggja starfið,“ segir Lára Sóley og viðurkennir að þetta hafi verið mikil áskorun.

Í ljósi þess að starfsár sinfóníuhljómsveita eru skipulögð með mjög löngum fyrirvara, en enginn veit á núverandi tímapunkti hvenær erlendir listamenn geta komið til landsins vegna ferðatakmarkana, liggur beint við að spyrja hvernig næsta starfsár komi til með að líta út. „Vegna samkomubannsins þurfti að fresta og fella niður töluvert af viðburðum á yfirstandandi starfsári. Við höfum því skoðað hvort hægt sé að koma þeim inn í komandi dagskrá,“ segir Lára Sóley og bendir á að langt sé síðan starfsárið 2020-2021 var tilbúið.

„Í raun var skipulagning vegna starfsársins 2021-2022 langt komin þegar faraldurinn braust út. Við erum að velta ýmsum hlutum upp með skipulagninguna,“ segir Lára Sóley og tekur fram að fróðlegt verði að sjá hvort og hvernig ferðatakmörkunum verða aflétt. „Ég reikna með að upp úr miðjum maí getum við tekið ákvörðun um hvernig við munum haga starfsárinu næsta að minnsta kosti fram til áramóta,“ segir Lára Sóley og bætir við:

„Eins og staðan er núna er ekki hægt að horfa of langt fram í tímann. Við erum búin að teikna upp ýmsar sviðsmyndir og verður svo bara að spila hlutina eftir eyranu og hafa æðruleysið að leiðarljósi,“ segir Lára Sóley og áréttar að styrkleikar Sinfóníuhljómsveitar Íslands felist ekki síst í því að starfsfólk sveitarinnar sé tilbúið að takast á við breyttar aðstæður.

Viðtalið við Láru Sóleyju Jóhannsdóttur birtist fyrst í Morgunblaðinu í dag. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson