Leitað að Rómeó

Ebba Katrín Finnsdóttir hefur verið ráðin til að leika hlutverk …
Ebba Katrín Finnsdóttir hefur verið ráðin til að leika hlutverk Júlíu í Rómeó og Júlíu eftir Shakespeare sem Þjóðleikhúsið frumsýnir í mars 2021. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Það er spennandi áskorun að fá að leika þetta hlutverk og í raun algjör forréttindi því þetta er hlutverk sem margar leikkonur dreymir um að fá að takast á við,“ segir Ebba Katrín Finnsdóttir sem ráðin hefur verið til að leika hlutverk Júlíu í uppfærslu Þjóðleikhússins á Rómeó og Júlíu eftir William Shakespeare í leikstjórn Þorleifs Arnar Arnarssonar sem frumsýnd verður í mars 2021. Eins og fram kemur í frétt á baksíðunni í dag leitar Þjóðleikhúsið að þeim eina rétta í hlutverk Rómeós og er skráningarfrestur á vef leikhússins til miðnættis 12. maí.

Rómeó og Júlía er fyrsta sýningin sem Þorleifur leikstýrir í Þjóðleikhúsinu eftir að hann gekk til liðs við leikhúsið með samningi þess efnis að hann leikstýri þar einni sýningu árlega næstu árin. Listrænir stjórnendur sýningarinnar auk Þorleifs eru Ilmur Stefánsdóttir sem hannar leikmynd, Björn Bergsteinn Guðmundsson lýsingu og Kristján Ingimarsson sem sér um kóreógrafíuna.

Samkvæmt upplýsingum frá Þjóðleikhúsinu koma í hlutverk Rómeós aðeins til greina leikarar á aldrinum 20-30 ára sem lokið hafa námi í leiklist eða starfað við atvinnuleiklist. Skráningarform og allar nánari uppýsingar eru á vefnum leikhusid.is/romeoprufur. Leikstjóri og listrænir stjórnendur velja í framhaldinu þá sem boðið verður að koma í prufur fyrir hlutverkið. Þar gefst þeim tækifæri til að leika tvær stuttar senur úr verkinu á móti Ebbu Katrínu og öðrum leikurum í leikstjórn Þorleifs. Prufurnar fara fram nú í maí. 

Ebba Katrín Finnsdóttir í hlutverki sínu sem Ugla í Atómstöðinni …
Ebba Katrín Finnsdóttir í hlutverki sínu sem Ugla í Atómstöðinni - endurliti sem Þjóðleikhúsið sýndi í haust. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

Líkamlega krefjandi

Aðspurð segist Ebba Katrín hafa unnið með texta Shakespeare í leiklistarnámi sínu. „Á öðru ári tókst ég á við lafði Makbeð og fann þá hversu líkamlega krefjandi það er að fara með texta Shakespeare. Maður stekkur ekki fyrirvaralaust á þennan texta, heldur þarf góðan undirbúning bæði líkamlega og andlega,“ segir Ebba Katrín sem bíður spennt eftir að fá textann í hendurnar. „En teymi ungra efnilegra ljóðaslammara eru að vinna nýja þýðingu á verkinu.“

Ebba Katrín útskrifaðist af leikarabraut Listaháskóla Íslands fyrir tveimur árum og vakti um svipað leyti athygli fyrir hlutverk sitt í sjónvarpsþáttaröðinni Mannasiðum á RÚV. Fyrsta árið eftir útskrift lék hún m.a. í Dúkkuheimili, 2. hluta, Núna 2019 og Matthildi í Borgarleikhúsinu. Á yfirstandandi leikári hefur hún í Þjóðleikhúsinu leikið í Meistaranum og Margarítu, Þínu eigin leikriti II – Tímaferðalagi og Uglu í Atómstöðinni – endurliti. Ebba Katrín hefur enn ekki unnið með Þorleifi sem leikstjóra, en þekkir vel til hans þar sem hún tók þátt í Njálu sem Þorleifur leikstýrði í Borgarleikhúsinu 2015 og Álfahöllinni sem Þorleifur leikstýrði í Þjóðleikhúsinu 2017.

„Ég var dresser í báðum sýningum auk þess sem við sviðsfólkið vorum fengin til að klæða okkur í búninga og taka þátt í völdum atriðum á sviðinu,“ segir Ebba Katrín og útskýrir að „dresser“ hafi umsjón með búningum á sýningum.

Ebba Katrín Finnsdóttir í hlutverki sínu sem Korovév í Meistaranum …
Ebba Katrín Finnsdóttir í hlutverki sínu sem Korovév í Meistaranum og Margarítu sem var jólasýning Þjóðleikhússins á yfirstandandi leikári. Ljósmynd/Hörður Sveinsson

Djarfar ákvarðanir

„Ég er sannfærð um að það verði bæði krefjandi og þroskandi að vinna með Þorleifi. Ég er ótrúlega spennt að vinna með honum. Mér hefur alltaf fundist svo gaman að horfa á sýningar hans því þær eru svo mikið fyrir augað. Sýningar hans koma manni líka alltaf á óvart því hann er ófyrirsjáanlegur. Hann þorir að taka djarfar ákvarðanir, sem gefur manni sem leikara hugmynd um að maður geti komið með djörf tilboð á móti og svo treystir maður því að hann velji og skapi einhverja snilld,“ segir Ebba Katrín. Aðspurð segir hún spennandi að skoða hvort hægt sé að taka Júlíu í nýjar áttir í túlkun. „Mér finnst áhugavert hvernig við viðhöldum hugmyndum, staðalímyndum og ákveðinni birtingarmynd með því að segja eldri sögur aftur og aftur. Samfélagið er komið á nýjan stað og því vakna eðlilega nýjar spurningar. Það er mér til dæmis algjörlega framandi hugmynd að selja einhvern í hjónaband gegn sínum vilja og ég skil ekki hvernig það á að líðast í nútímanum.“

Ebba Katrín Finnsdóttir (lengst til hægri) ásamt Láru Jóhönnu Jónsdóttur …
Ebba Katrín Finnsdóttir (lengst til hægri) ásamt Láru Jóhönnu Jónsdóttur í Þínu eigin leikriti II - Tímaferðalagi sem sýnt var í Þjóðleikhúsinu í vetur. Ljósmynd/Ásta Jónína Arnardóttir

Sterkar taugar til leikhússins

Sem fyrr segir hefur Ebba Katrín ekki þurft að kvarta undan verkefnaskorti frá útskrift. „Ég hef verið ótrúlega heppin og fengið að takast á við ólík hlutverk. Það besta sem hent getur ungan leikara er að fá að vera sem mest á sviði því þannig öðlast maður reynslu og aukið öryggi. Það er því frábært að fá að vera í stöðugri þjálfun og mæta nýjum mótleikurum á sviði,“ segir Ebba Katrín og tekur fram að það hafi líka verið afar gefandi að fá tækifæri til að vinna með ólíkum leikstjórum.

Ebba Katrín Finnsdóttir hlakkar til að vinna með Þorleifi Erni …
Ebba Katrín Finnsdóttir hlakkar til að vinna með Þorleifi Erni Arnarssyni leikstjóra. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ebba Katrín hefur notið þess að starfa í stóru atvinnuleikhúsunum í borginni og hrósar báðum húsum. „Mér finnst magnaðir hlutir vera að gerast í báðum húsum. Ég ber óneitanlega sterkar taugar til Þjóðleikhússins því hér kynntust amma mín og afi auk þess sem langafi minn vann í hljómsveitargryfjunni,“ segir Ebba Katrín, en langafi hennar var tónlistarmaðurinn og hljómsveitarstjórinn Viktor J. Urbancic. Sonur hans, Pétur Marteinn Páll Urbancic, spilaði í hljómsveitargryfjunni og kynntist þá Ebbu Ingibjörgu Egilsdóttur sem vann sem sætavísa í leikhúsinu.

Viðtalið við Ebbu Katrínu birtist fyrst í Morgunblaðinu 6. maí. 

Uppfært: Upphaflega stóð í fréttinni að umsóknarfrestur væri til miðnættis 7. maí en hann hefur verið framlengdur til miðnættis 12. maí. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson