„Falleg, köld og óhugnanleg“

Danny, leikinn af Danny Lloyd, hjólar um ganga Overlook-hótelsins í …
Danny, leikinn af Danny Lloyd, hjólar um ganga Overlook-hótelsins í The Shining.

Kvikmyndin Shining var frumsýnd árið 1980 og stendur því á fertugu. Af því tilefni er fjallað um hana í nýjasta þætti kvikmyndahlaðvarpsins BÍÓ og rætt við kvikmyndafræðinginn Oddnýju Sen sem er afar fróð um myndina og leikstjóra hennar, Stanley Kubrick. 

Oddný Sen kvikmyndafræðingur.
Oddný Sen kvikmyndafræðingur.

Oddný segir að í myndinni mega finna hliðstæður og andstæður og nefnir sem dæmi að talað sé um tvo umsjónarmenn eða húsverði hótelsins sem er sögusvið myndarinnar. Í byrjun myndarinnar er Jack Torrance, leikinn af Jack Nicholson, í atvinnuviðtali og segir rekstrarstjóri hótelsins honum þá að Charles nokkur Grady hafi misst vitið af því að vera lokaður inni í hótelinu og drepið dætur sínar, átta og tíu ára. „En þegar Jack hittir drauginn þá heitir hann allt öðru nafni, hann heitir Delbert Grady og á tvíbura. Það er dæmi um þessar andstæður og hliðstæður og draugarnir eru í einhverju öðru hlutverki,“ segir Oddný. 

Jack Nicholson í hlutverki Jack Torrance í The Shining.
Jack Nicholson í hlutverki Jack Torrance í The Shining.

Hún segir dæmigert fyrir flestar kvikmyndir Kubrick að ruglað sé í áhorfendum. „Hann vill ekki að áhorfandinn sitji og sé bara mataður á einhverri hryllingsmynd eða einhverri mynd, hann vill að áhorfandinn taki þátt í myndinni. Og það gerir hann mjög sérstakan sem leikstjóra en ég held að þetta hafi valdið því að myndin fékk kannski ekkert rosalega góða dóma fyrst, fólki fannst hún einmitt ruglingsleg og allt of löng en það er einmitt skemmtilegur vinkill á myndinni sem hefur haft gríðarleg áhrif á hryllingsmyndagerð nútímans og líka bara á kvikmyndaleikstjóra nútímans,“ segir Oddný. 

Stanley Kubrick er einn áhrifamesti kvikmyndaleikstjóri sögunnar.
Stanley Kubrick er einn áhrifamesti kvikmyndaleikstjóri sögunnar.

Skoðaði yfir þúsund hótel 

Kubrick var þekktur fyrir fullkomnunaráráttu sína, ofurnákvæm vinnubrögð og áráttukennda hegðun. Lagði hann mikið á leikara og tökulið kvikmyndarinnar og var aðalleikkonan, Shelley Duvall, á barmi taugaáfalls og hefur lýst ómennsku álaginu sem var á henni í tökum. Gott dæmi um leit hans að fullkomnun og þráhyggju er leit hans að rétta hótelinu fyrir myndina. „Hann fór og skoðaði eitthvað yfir þúsund hótel í Bandaríkjunum áður en hann fann Overlook-hótelið sem er bara notað að utan og síðan hannaði hann sjálfur sviðsmyndina inni í stúdíói,“ nefnir Oddný. 

Stephen King árið 2018.
Stephen King árið 2018.

Stephen King, höfundur bókarinnar sem handrit myndarinnar var unnið upp úr, var mjög ósáttur við kvikmyndina, eins og frægt er orðið, og líkti henni við fagurlega hannaða bifreið án vélar. Þótti myndin sálarlaus. „Þetta fannst mörgum gagnrýnendum þegar hún kemur fyrst fram og það er alveg gagnrýni vert að myndir Kubrick eru mjög kaldar, þær eru mjög kaldar og fjarlægar,“ segir Oddný. „Ég myndi segja að hún væri falleg, köld og óhugnanleg.“

Shelley Duvall í hlutverki Wendy í The Shining.
Shelley Duvall í hlutverki Wendy í The Shining.

Tímalaust meistaraverk

Oddný kennir kvikmyndafræði og segir nemendur hafa tekið myndinni mjög vel og þyki hún hafa elst vel. Nemendur séu m.a. hrifnir af löngu hjólapallaskotunum, stílbragði sem Quentin Tarantino hefur notað mikið auk fleiri leikstjóra. „Og líka þetta að sýna eitthvað og við vitum að eitthvað óhugnanlegt er að fara að gerast og svo gerist það allt í einu. Þetta er galdurinn við The Shining og gerir hana að því tímalausa meistaraverki sem hún er þótt hún hafi fengið misjafnar viðtökur og verið umdeild.“

Hér fyrir neðan má finna hlaðvarpsþáttinn um The Shining. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson