„Þetta er búið að vera ótrúlegt ár“

Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Kanadísku þjóðarhljómsveitarinnar, er vön krísustjórnun en …
Arna Kristín Einarsdóttir, framkvæmdastjóri Kanadísku þjóðarhljómsveitarinnar, er vön krísustjórnun en segir að flókið verði að greiða úr núverandi stöðu vegna þess hversu óvissan er mikil í tengslum við kórónuveirufaraldurinn. Ljósmynd/Hilmar Þorsteinn Hilmarsson

„Þetta er búið að vera ótrúlegt ár,“ segir Arna Kristín Einarsdóttir. Hún tók við starfi framkvæmdastjóra Kanadísku þjóðarhljómsveitarinnar (National Arts Centre Orchestra) sem starfar í Kanadíska menningarhúsinu í Ottawa (National Arts Centre) 1. maí 2019 eftir að hafa gegnt stöðu framkvæmdastjóra Sinfóníuhljómsveitar Íslands frá árinu 2013.

„Þetta byrjaði afar vel. Mér var tekið opnum örmum hér í Kanada, jafnt af hljómsveitinni, samstarfsfólki og samfélaginu í kringum hljómsveitina,“ segir Arna Kristín og rifjar upp að stuttu eftir að hún tók til starfa hafi menningarhúsið og hljómsveitin fagnað 50 ára starfsafmæli. „Hljómsveitin fór meðal annars í mikla og flotta tónleikaferð til Evrópu, enda var öllu tjaldað til í tilefni afmælisins,“ segir Arna Kristín og líkir því við magalendingu þegar kórónuveirufaraldurinn braust út og sett var á útgöngubann í Kanada föstudaginn 13. mars. „Síðan þá hef ég unnið við borðstofuborðið heima hjá mér og stýrt stofnuninni þaðan,“ segir Arna Kristín sem býr ásamt eiginmanni og tveimur sonum á aldrinum 10 og 15 ára í Ottawa.

Tónleikar í beinu streymi

„Það er mjög erfitt að vinna úr þeirri stöðu sem upp er komin,“ segir Arna Kristín sem er þó ýmsu vön þegar kemur að krísustjórnun. „Ég hef auðvitað reynt ýmislegt,“ segir Arna Kristín og vísar þar til efnahagshrunsins 2008 og eldgossins í Eyjafjallajökli 2010. „Það verður hins vegar mun flóknara að greiða úr núverandi stöðu vegna þess hversu óvissan er mikil,“ segir Arna Kristín og tekur fram að vandasamt sé að stýra stofnun sem reiði sig á samkomur meðan samkomubann ríki.

„Líkt og margar aðrar sinfóníuhljómsveitir í heiminum höfum við nýtt tæknina og netið til að ná til áheyrenda okkar,“ segir Arna Kristín. Hljóðfæraleikarar NAC hafa m.a. leikið á hádegistónleikum alla virka daga sem nefnast „Lunch break“ og streymt er á netinu heiman frá þeim. „NAC fór svo í samstarf við FacebookCanada til að skapa vettvang þar sem tónlistarfólk getur sótt um að halda tónleika í beinu streymi og fá greitt fyrir, en þetta var meðal annars hugsað til að bæta upp tekjutap vegna aflýstra tónleika. Um er að ræða 45-60 mínútna tónleika heima í stofu í beinu streymi á Facebook-síðu NAC,“ segir Arna Kristín og rifjar upp að verkefnið hafi fyrst aðeins átt að standa yfir í nokkrar vikur en verið framlengt um óákveðinn tíma vegna þess hversu góðar viðtökurnar hafi verið en um 3,6 milljónir hafi séð streymið.

„Svo höfum við verið í vikulegu beinu sambandi við áskrifendur okkar og sent þeim hljóðritanir með vídeóskilaboðum frá aðalhljómsveitarstjóranum, Alexander Shelley. Að auki hafa hljóðfæraleikararnir sinnt öflugu fræðslustarfi, boðið upp á yfir 200 einkatíma, hóptíma og þjálfun í prufuspilun í gegnum netið og Alexander verið með listamannaspjall og kennt hljómsveitarstjórnun. Í liðinni viku kom síðan út nýr geisladiskur,“ segir Arna Kristín og vísar þar til disks þar sem Kanadíska þjóðarhljómsveitin leikur verk eftir Robert og Clöru Schumann og Johannes Brahms undir stjórn Alexanders Shelley.

„Þetta er fyrsti diskurinn af fjórum í þessari seríu og gaman að vekja sérstaka athygli á tónlist Clöru,“ segir Arna Kristín, en á diskinum leikur venesúelski píanóleikarinn Gabriela Montero píanókonsert eftir Clöru Schumann auk þess að tengja verkin saman með frumsömdum spuna. „Það er mjög dýrmætt að geta sent eitthvað ferskt frá sér á þessum tímum. Það hefur verið mikið átak að koma allri starfseminni á rafrænt form nánast á einni nóttu. En það hefur verið þeim mun nauðsynlegra, því þetta er eina leiðin til að leyfa áhorfendum að njóta sköpunar hljómsveitarinnar,“ segir Arna Kristín og tekur fram að það hafi verið magnað að fylgjast með viðbrögðum og áhorfstölum síðustu vikna. „Til lengri tíma litið verður áhugavert að sjá hverju þessi rafræna umbylting skilar. Stóra spurningin núna er hins vegar hvenær áhorfendur treysta sér til að mæta á tónleikastaði eftir að samfélagið opnast á ný að kófi loknu,“ segir Arna Kristín sem er í nánu samtali og samráði við aðra stjórnendur sinfóníuhljómsveita vestanhafs.

Sláandi fundur stjórnenda

„Fyrir um mánuði tók ég þátt í sögulegum símafundi American League of Orchestras þar sem stjórnendur allra stærstu og virtustu hljómsveita Norður-Ameríku gáfu stutta skýrslu um hvernig verið væri að bregðast við stöðunni,“ segir Arna Kristín, en um 700 hljómsveitir tilheyra samtökunum. „Þetta var mjög sláandi fundur þar sem hver stjórnandi á fætur öðrum lýsti vandanum sem þeir standa frammi fyrir og veltu fyir sér hvernig best mætti tryggja áframhaldandi starfsemi og viðspyrnu þegar hægt verður að taka upp tónleikahald á ný,“ segir Arna Kristín og bendir á að rekstur sinfóníuhljómsveita í Norður-Ameríku standi almennt tæpt og megi við litlum áföllum.

„Það er mikill munur á rekstrarfyrirkomulaginu í Ameríku annars vegar og Evrópu hins vegar, ekki síst á Norðurlöndum,“ segir Arna Kristín. Aðspurð segir hún sjálfsaflaféð, bæði í formi miðasölu og styrktaraðila, þurfa að vera um 55% af rekstrarfé NAC. „Flestar hljómsveitir í kringum okkur fá mun lægra framlag frá ríkinu,“ segir Arna Kristín og bendir á að flestar hljómsveitir reiði sig þannig á fjárstuðning frá styrktaraðilum.

Óvissan mjög mikil

„Á öðrum fundi stjórnenda þremur vikum seinna kvað við annan og jákvæðari tón. Í millitíðinni höfðu fylkis- og ríkisstjórar brugðist við og sett af stað úrræði til að bæta atvinnugreinum tjónið vegna heimsfaraldursins, m.a. með hlutabótaleiðinni sem nýst hefur mörgum hljómsveitum. Á sama tíma var mjög jákvætt að heyra hversu vel samfélagið í kringum hverja og eina hljómsveit hafði brugðist við með það að markmiði að styðja fjárhagslega við hljómsveitir sínar með því til dæmis að óska ekki eftir endurgreiðslu miða þrátt fyrir að aflýsa hafi þurft tónleikum. Á sama tíma varð aukningar vart í áskriftarsölu auk þess sem sterkir styrktaraðilar brugðust tiltölulega hratt við. Þessi stuðningur skiptir öllu við að koma hljómsveitunum í gegnum þennan þunga skafl sem kófið er,“ segir Arna Kristín og bendir á að mestu skipti auðvitað að tryggja öryggi og heilsu starfsfólks sem og gesta. Segist hún ekki sjá fyrir sér að gerlegt verði að halda sinfóníutónleika og listaviðburði fyrir fullum sal áheyrenda fyrr en komið sé annaðhvort bóluefni eða hjarðónæmi og því sé óvissan mjög mikil.

Tækifæri til nýsköpunar

„Fyrst vorum við sannfærð um að við yrðum komin aftur á svið með áheyrendur í sal í september. Núna erum við farin á horfa til þess að mögulega gerist það ekki fyrr en í nóvember, sumir segja janúar. Meðan hljómsveitir geta ekki nýtt nema hálfan salinn til að uppfylla tveggja metra regluna þá er ljóst að tónleikahaldið stendur ekki undir sér fjárhagslega,“ segir Arna Kristín og tekur fram að í raun sé öll vinnan við næsta starfsár rokin út í veður og vind. „Við þurfum bara að byrja upp á nýtt, og þreifa okkur áfram í óvissunni,“ segir Arna Kristín og bendir á að flestir einleikarar og hljómsveitarstjórar ferðist á milli landa og komi fram með ólíku hljómsveitum. „Við erum hluti af stóru alþjóðlegu neti og mikill hreyfanleiki milli hljómsveita,“ segir Arna Kristín og bendir á að rætt sé um það í bransanum að hljómsveitarstjórar þurfi í framhaldinu að hægja á sér og vera lengur á hverjum stað í vinnutörnum sínum. „En ástandið núna felur í sér tækifæri til að gera hlutina öðruvísi en áður og sprengja fastmótaða formið sem við höfum svo lengi starfað innan. Nú er lag til að gera hlutina með nýjum hætti,“ segir Arna Kristín og tekur fram að undirstaðan sé þó að rekstrargrundvöllur hljómsveitanna sér tryggður.

Listamenn lykilstarfsmenn

„Vonandi átta stjórnvöld og samfélögin sig á virði menningarstofnana sinna og koma þeim til aðstoðar þannig að þær verði tilbúnar til starfa þegar kófinu léttir. Við getum aðlagast ýmsu, en fjárhagslega mun dæmið ekki ganga upp meðan samkomutakmarkanir eru í gildi,“ segir Arna Kristín og áréttar að listir séu þó aldrei mikilvægari en einmitt í krísum.

„Listirnar hafa veitt almenningi andlega næringu í kórónuveirufaraldrinum og margsannað gildi sitt. Í raun ætti að skilgreina listamenn sem lykilstarfsmenn. Listamenn munu eiga mikilvægan þátt í því að efla andlega heilsu almennings og græða sárin eftir þetta áfall og sorgarferli sem heimurinn gengur í gegnum vegna faraldursins,“ segir Arna Kristín og tekur fram að það sé á ábyrgð samfélagsins að hlúa að menningarstofnunum og listum sem tengi saman kynslóðirnar og söguna. „Það þarf að passa upp á menningarverðmætin,“ segir Arna Kristín og tekur að lokum fram að hún reyni að halda í bjartsýnina og sjá tækifærin sem felist í stöðunni. „Þó ljósin dofni aðeins um tíma þá bíðum við spennt eftir að geta boðið gesti aftur velkomna. Ég get ekki beðið eftir þeim degi,“ segir Arna Kristín.

Viðtalið við Örnu Kristínu birtist fyrst í Morgunblaðinu laugardaginn 16. maí. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson