Sat ekki auðum höndum

Hallveig Rúnarsdóttir sópran á æfingu með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg …
Hallveig Rúnarsdóttir sópran á æfingu með Sinfóníuhljómsveit Íslands í Eldborg Hörpu í gær. Tónleikarnir verða í beinni í kvöld kl. 20. Mbl.is/Arnþór Birkisson

„Það var uppselt á tónleikana mína með Sinfóníunni sem halda átti í seinustu viku en aflýsa þurfti út af kórónuveirufaraldrinum. Þótt það verði einhverjir áheyrendur á tónleikum kvöldsins verður salurinn auðvitað ekki fullur þar sem virða þarf samkomutakmarkanir. Á móti kemur að ég fæ tækifæri til að syngja fyrir alla landsmenn heima í stofu,“ segir Hallveig Rúnarsdóttir sópran sem syngur á tónleikum Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ) í kvöld kl. 20. Tónleikarnir verða sendir út beint á Rás 1 og í Ríkissjónvarpinu auk þess sem horfa má á þá í beinni útsendingu á vefnum sinfonia.is.

Upphaflega stóð til að Hallveig kæmi fram með SÍ 14. maí og var löngu orðið uppselt á þá tónleika. „Efnisskrá kvöldins er að hluta til sú sama og vera átti í síðustu viku, en breyta þurfti öðru þar sem hljómsveitin er umfangsminni,“ segir Hallveig og vísar til þess að vegna samkomutakmarkana séu aðeins 46 hljóðfæraleikarar á sviðinu í Eldborg í stað fullskipaðrar hljómsveitar. „Til að virða tilmæli sóttvarnalæknis er síðan lögboðið tveggja metra bil á milli allra hljóðfæraleikaranna, sem hefur áhrif á hljóminn, sem er skemmtilegt.“

Aría með tveimur sólistum

Á tónleikum kvöldsins syngur Hallveig aríurnar „Dove sono“ úr Brúðkaupi Fígarós, „L'amerò, sarò constante“ úr Il rè pastore og „Non mi dir“ úr Don Giovanni eftir W.A. Mozart auk einsöngslaganna „Draumalandið“ og „Gígjan“ eftir Sigfús Einarsson, „Hvert örstutt spor“ eftir Jón Nordal og „Á Sprengisandi“ eftir Sigvalda Kaldalóns. Jafnframt leikur hljómsveitin 1. kafla úr sinfóníu nr. 29 eftir Mozart og Méditation úr óperunni Thaïs eftir Jules Massenet þar sem Sigrún Eðvaldsdóttir leikur einleik. Hljómsveitarstjóri er Bjarni Frímann Bjarnason. Aðspurð segir Hallveig aríurnar þrjár mjög ólíkar. „Greifynjan í Brúðkaupi Fígarós syngur „Dove sono“ þar sem hún spyr sig hvert allar fallegu stundirnar með eiginmanninum hafi horfið nú þegar hann sé farinn að leita á önnur mið. Í raun má segja að þetta sé saknaðarljóð,“ segir Hallveig og tekur fram að allt önnur stemning ríki í „L'amerò, sarò constante“ sem lýsa megi sem hreinræktuðu ástarljóði sem Aminta syngur. „Óperan Il rè pastore er mjög sjaldan flutt, en þessi aría castrato-hlutverksins Aminta er frægasta hluti hennar og oftast flutt sem konsertaría,“ segir Hallveig og bendir á að eitt af því sem geri aríuna jafn skemmtilega og raun ber vitni sé hversu fyrirferðarmikil fiðluröddin sé í stykkinu. „Fiðlan er í fallegu samspili við sópranröddina. Hvað það varðar er þessi aría óvenjuleg sökum þess að í verkinu eru í raun tveir sólistar,“ segir Hallveig, en fiðluröddina leikur Nicola Lolli konsertmeistari.

Fólk tónleikaþyrst í haust

„Arían „Non mi dir“ sem Donna Anna syngur seint í óperunni Don Giovanni er ætluð Don Ottavio, ástmanni hennar, þar sem hún reynir að útskýra líðan sína,“ segir Hallveig og rifjar upp að snemma í verkinu verði Donna Anna fyrir árás af hendi titilpersónunnar sem hafi mikil áhrif. „Þessi aría er ekki oft flutt á tónleikum vegna þess hversu ofboðslega erfið hún er. Sem dæmi er hún aldrei höfð með í aríusafnbókum vegna þess hversu snúin hún þykir,“ segir Hallveig sem þekkir aríuna mjög vel þar sem hún söng hlutverk Donnu Önnu árið 2016 í uppfærslu Íslensku óperunnar á Don Giovanni.

Spurð hvernig sé að komast aftur á svið eftir að samkomutakmörkunum var aflétt segir Hallveig það ánægjulegt. „Ég sat ekki auðum höndum í samkomubanninu heldur sinnti kennslu auk þess sem ég tók þátt í tónleikadagskránni Heima í Hörpu. Þá söng ég fyrir alveg tómum sal í Eldborg og sneri meira að segja baki í áheyrendabekkina, sem var mjög sérstakt,“ segir Hallveig og tekur fram að hún reikni með að nóg verði að gera í haust. „Allir tónleikarnir sem átti að halda í vor hafa færst til hausts og bætast við þá tónleika sem fyrir voru þannig að það verður mikið stuð og nóg úr að velja,“ segir Hallveig og reiknar með að fólk verði tónleikaþyrst.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þessi dagur er betri en flestir þar sem þú hefur gleymt gömlum byrðum. Gakktu úr skugga um að þú misskiljir ekki neitt áður en þú skuldbindur þig til einhvers.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Birgitta H. Halldórsdóttir
2
Lone Theils
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant