Sekir frá fæðingu

Michael B. Jordan og Jamie Foxx í Just Mercy.
Michael B. Jordan og Jamie Foxx í Just Mercy.

Kvikmyndin Just Mercy er til umræðu í nýjasta þætti kvikmyndahlaðvarpsins BÍÓ en hún er sannsöguleg og byggir á endurminningum lögmannsins Bryan Stevenson. Brynja Hjálmsdóttir kvikmyndagagnrýnandi ræðir við stjórnendur þáttarins um myndina og gefur henni fjórar stjörnur í gagnrýni sinni sem finna má í Morgunblaðinu í dag. 

4% dauðadæmdra saklausir menn

Í gagnrýni Brynju segir m.a. að samkvæmt rannsóknum séu að minnsta kosti 4% þeirra sem dæmdir eru til dauða í Bandaríkjunum saklausir menn. „Hlutfall þeirra mála sem byggja á veikum grunni eða þar sem vafi leikur á sakhæfi vegna geðraskana og þroskaskerðinga er jafnvel hærra. Fjórir af hundrað eru kannski ekki margir en það eru samt viðbjóðslega margir þegar eins alvarlegt mál og að svipta menn lífi er annars vegar. Bandaríkin eru eitt fárra þróaðra ríkja sem enn nota dauðarefsinu, hún hefur verið afnumin í gervallri Evrópu, Kanada og flestum löndum Suður-Ameríku. Einu löndin sem tilheyra hinum svokallaða fyrsta heimi og enn dæma fólk til dauða eru Bandaríkin, Japan, Suður-Kórea og Taívan. Manni er nánast ofviða að reyna að skilja eða viðurkenna þær röksemdir sem réttlæta það að taka fólk af lífi. Að þetta sé enn gert í Bandaríkjunum og að þar sé allt að 60% landsmanna fylgjandi dauðarefsingum virðist handan skilnings,“ skrifar Brynja. 

Bryan Stevenson var nýútskrifaður úr lögfræði frá Harvard þegar hann flutti til Alabama til að reka mál fyrir fanga á dauðadeild á seinni hluta níunda áratugar síðustu aldar og bendir Brynja á að í Alabama hafi verið og sé enn hæsta hlutfall dauðadóma í Bandaríkjunum og þá  m.a. vegna þess að Albama leyfði dómurum að breyta úrskurði kviðdóms þannig að ef kviðdómur fór fram á lífstíðarfangelsi gat dómari breytt því í dauðadóm. Ákvæðið var fellt úr gildi fyrir þremur árum.

Hér má sjá stiklu myndarinnar:

Foxx senuþjófur 

Í myndinni er sjónum aðallega beint að máli eins manns, Johnny D, sem dæmdur var til dauða fyrir að myrða hvíta táningsstúlku en engin sönnunargögn voru í málinu önnur en vitnisburður tveggja hvítra manna og það vafasamra. Johnny D var auk þess með skothelda  fjarvistarsönnun sem ákveðið var að stinga undir stól.

„Ljóst er að Johnny D er fórnarlamb rasisma og lögregluofbeldis í ríki þar sem svartir menn eru „sekir frá því augnabliki sem þeir koma í heiminn“, eins og Johnny kemst að orði,“ skrifar gagnrýnandi sem telur myndina virkilega vel gerða, handritið gott og heilmiklu miðlað með  innrömmun og klippingu. Michael B. Jordan stendur sig vel í hlutverki Bryans en  Jamie Foxx stelur senunni í hlutverki Johnny D, að mati rýnis. 

Þáttarstjórnendur og gagnrýnandi eru sammála um Just Mercy sé bæði vel gerð og áhrifamikil, eins og heyra má í hlaðvarpsþættinum hér fyrir neðan. 

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú átt í vændum viðurkenningu fyrir störf þín. Mesta stoðin sem þér gefst kostur á í lífinu gæti vel verið einhver sem þú varla þekkir eða þér líkar ekki.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú átt í vændum viðurkenningu fyrir störf þín. Mesta stoðin sem þér gefst kostur á í lífinu gæti vel verið einhver sem þú varla þekkir eða þér líkar ekki.