„Samkeppnin meiri og öðruvísi“

Laufey Lin Jónsdóttir.
Laufey Lin Jónsdóttir. Ljósmynd/Aðsend

Laufey Lin Jónsdóttir hefur gert það gott sem söngkona bæði hérlendis og svo nýverið vestanhafs, en hún gefur út sína aðra smáskífu á morgun, mánudag. Hún hefur vakið talsverða athygli í Bandaríkjunum að undanförnu, meðal annars hjá frægri sjónvarpsstjörnu. 

Laufey gaf út sína fyrstu smáskífu „Street by street“ 6. apríl, en hún stundar nám við Berklee-tónlistarskólann í Boston þar sem hún er á forsetalista. 

Á nokkrum vikum hefur Laufey fengið rúmlega 20.000 nýja fylgjendur á Instagram og yfir 180.000 manns hafa hlustað á Street by Street á Spotify. Laufey segist enn vera að átta sig á viðbrögðunum sem hún hefur fengið. 

„Ég held að ég sé enn þá ekki alveg búin að átta mig á því að það séu svona margir að hlusta á tónlistina mína og fylgjast með mér. Fylgnin sprakk út fyrir tveimur mánuðum og er því allt frekar nýtt og óraunverulegt fyrir mér en ég er mjög þakklát og spennt fyrir framtíðinni,“ segir Laufey. 

Fræg sjónvarpsstjarna á meðal nýrra fylgjenda

Á meðal nýrra fylgjenda hennar er bandaríski leikarinn Josh Radnor, en hann er hvað þekktastur fyrir að fara með hlutverk Ted Mosby í gamanþáttunum How I met your mother. 

„Þegar Josh Radnor „followaði“ mig fyrst þá fattaði ég ekki að þetta væri Ted Mosby. Ég kannaðist eitthvað við nafnið hans og skoðaði síðuna hans en áttaði mig samt ekki á að þetta væri hann þótt ég hafi horft á How I met your mother margoft. Það var ekki fyrr en einhver benti mér á að Ted Mosby væri að „followa“ mig að ég tengdi allt saman. Ég fæ svo alltaf í magann þegar tónlistarmenn sem ég hef dáðst að í gegnum tíðina fylgja mér og senda mér kveðjur,“ segir Laufey.

Markaðurinn stærri í Bandaríkjunum 

Laufey útskrifaðist úr Verzlunarskólanum vorið 2018 og flutti eftir útskrift til Bandaríkjanna öðru sinni, en hún ólst upp í Washington. Hún segir samkeppnina í tónlistarbransanum í Bandaríkjunum vera allt öðruvísi en á Íslandi. 

„Samkeppnin er talsvert meiri og öðruvísi úti. Ég er á ákveðinni braut tónlistar sem er blanda af djassi, indie-tónlist og svokölluðu „bedroom poppi“ sem er með stærri markað í Bandaríkjunum, Bretlandi og Asíu og ég hef þess vegna náð stærri fylgishópi en heima. Íslenski markaðurinn er frábær en hann snýst aðeins meira um hiphop og popptónlist um þessar mundir. Mér þætti mjög vænt um það ef þessi tegund tónlistar sem ég er að vinna í fengi framgang á Íslandi,“ segir Laufey. 

Þrátt fyrir að vera í námi í Boston dvelur Laufey nú í Washington hjá foreldrum sínum og stundar námið þaðan vegna heimsfaraldurs kórónuveiru. Aðspurð hvað sé fram undan segist Laufey vera að vinna að sinni fyrstu EP plötu. 

„Ég er að fara að gefa út lag á morgun, mánudaginn 25. maí, sem heitir „Someone New” sem ég vann með pródernum mínum hér í Bandaríkjunum sem heitir Davin Kingston. Svo er ég að klára EP-plötu sem kemur út seinna í sumar,“ segir Laufey ánægð.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert upp á þitt besta og hefur jákvæð áhrif á umhverfi þitt með léttleika þínum. Nýttu þér andlegt og líkamlegt atgervi þitt til hins ítrasta því allt annað eru svik við sjálfan þig.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert upp á þitt besta og hefur jákvæð áhrif á umhverfi þitt með léttleika þínum. Nýttu þér andlegt og líkamlegt atgervi þitt til hins ítrasta því allt annað eru svik við sjálfan þig.