Fylgdist með af svölunum heima

Sýningin Sóttqueen í Ásmundarsal.
Sýningin Sóttqueen í Ásmundarsal. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Um nýliðna helgi var opnuð samsýningin Sóttqueen í Ásmundarsal og eins og nafnið gefur til kynna er innblástur listamanna sóttur í hina fordæmalausu tíma sóttkvía og samkomubanns vegna COVID-19-farsóttarinnar.

Postprent stendur fyrir sýningunni en það er svokallað prent-„kollektíf“ sem þýða mætti sem samvinnuhóp eða samyrkjubú, rekið af Þórði Hans Baldurssyni myndlistarnema og Viktori Weisshappel Vilhjálmssyni sem er grafískur hönnuður. Auglýstu þeir eftir verkum fyrir sýninguna á Facebook og sögðust forvitnir að sjá hvers konar list yrði til á tímum sóttkvíar og samkomubanns. Áttu áhugasamir að senda inn teikningar, ljósmyndir eða grafík sem svo yrði birt á Instragram og eina skilyrðið að verkin tengust ástandinu sem þá var en þá stóð yfir samkomubann. Nú hefur fjöldi innsendra verka ratað á veggi Ásmundarsalar og upphengingin í hinum frjálslega salon-stíl.

Skemmtilega er unnið með hugmyndir um samkomubann og sóttkví á …
Skemmtilega er unnið með hugmyndir um samkomubann og sóttkví á sýningunni Sóttqueen. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Ljúfsár opnun

Þórður Hrafn var svo óheppinn að vera í sóttkví þegar sýningin var sett upp og opnuð en hann var þá nýkominn frá Hollandi þar sem hann nemur myndlist. Þórður kom fyrir rúmri viku og sýningin var opnuð um nýliðna helgi. Hann er spurður að því hvernig hafi verið að skipuleggja og setja upp myndlistarsýningu án þess að geta verið á staðnum.

Þórður hlær og segist sem betur fer hafa verið með góða samstarfsmenn. „En það var ákveðin togstreita að vilja hafa hlutina eins flotta og mögulegt er en geta ekkert lagt fram sjálfur og þurfa að skipa öðrum fyrir,“ segir Þórður og hlær við. Hann hafi fengið að vera með í ráðum eins og hægt var og eins og tæknin leyfði. Við opnun fékk hann að taka einn rúnt um salinn í spjaldtölvu og heilsa gestum. „Það var ljúfsárt,“ segir hann um þá reynslu.

– Gastu ekki skálað við gesti heiman frá þér? „Jú, ég gerði það, ég var úti á svölum. Ég bý á Grettisgötu og sé næstum því yfir í Ásmundarsal,“ segir Þórður og hlær.

Hann segir að gaman hafi verið að sjá hversu margir sendu inn verk og hversu fjölbreytt þau voru. „Það er gaman að sjá þetta koma saman sem eina heild, þetta meikar alveg sens.“

Sýningar af þessu tagi sjást ekki oft í fínni sýningarsölum borgarinnar, verkin unnin hratt og uppsetning frjásleg og sýnendur ekki allir myndlistarmenn, sumir grafískir hönnuðir og aðrir ljósmyndarar, svo dæmi séu tekin. Sum verkanna eru spaugileg en önnur fúlasta alvara, eins og gefur að skilja.

Þórður Hans Baldursson og Viktor Weisshappel stofnuðu Postprent.
Þórður Hans Baldursson og Viktor Weisshappel stofnuðu Postprent. Ljósmynd/ Salka Rósinkranz

Til í fleiri sýningar

Þórður er spurður hvort þeir Viktor gætu hugsað sér að setja upp fleiri sýningar af þessu tagi; með því að óska eftir verkum út frá einni, skýrri og einfaldri hugmynd og hengja upp frjálslega. „Það er klárlega eitthvað sem við myndum vilja gera en stjörnurnar röðuðust alveg rétt upp í þessu. Þetta er klárlega einhvers konar konsept sem ég væri til í að endurtaka með einhverjum hætti,“ segir Þórður.

Þeir Viktor stofnuðu Postprent árið 2008 og geta listamenn komið sínum verkum á framfæri á vefsíðu fyrirtækisins sem er á slóðinni postprent.is. Hægt er að kaupa verk af ýmsu tagi þar eða öllu heldur útprentanir af þeim.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson