Þakklátur fyrir verðlaunin

Jónas Reynir Gunnarsson skáld tekur við Maístjörnunni í dag.
Jónas Reynir Gunnarsson skáld tekur við Maístjörnunni í dag. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Ég er mjög þakklátur fyrir það að þessi verðlaun séu til. Þau skipta miklu máli fyrir ljóðlistina og bókmenntirnar á Íslandi,“ segir Jónas Reynir Gunnarsson sem nú á fjórða tímanum hlaut Maístjörnuna, ljóðabókaverðlaun Rithöfundasambands Íslands og Landsbókasafns Íslands – Háskólabókasafns, fyrir bók sína Þvottadagur sem Páskaeyjan gefur út. Hlaut hann að launum 350 þúsund krónur.

Við sama tækifæri var í safninu opnuð sýning á verðlaunabókinni og fyrri verkum höfundar. Þar eru einnig til sýnis þær aðrar bækur sem tilnefndar voru til verðlaunanna í ár, þ.e. bækurnar Kærastinn er rjóður eftir Kristínu Eiríksdóttur, Undrarýmið eftir Sigurlín Bjarneyju Gísladóttur, Vellankatla eftir Þórð Sævar Jónsson og Uppreisnir eftir Þór Stefánsson. 

„Maístjarnan var fyrst veitt 2017 og féll þá í skaut Sigurðar Pálssonar, fyrrum kennara míns og sem opnaði dyrnar fyrir mér inn í ljóðlistina. Ég er mjög glaður að fylgja í fótspor hans og verð honum ávallt fullur þakklætis,“ segir Jónas Reynir sem nam ritlist við Háskóla Íslands. Gjaldgengar til verðlaunanna í ár voru allar útgefnar íslenskar ljóðabækur ársins 2019 sem skilað var til Landsbókasafnsins. Í dómnefnd sátu Guðrún Steinþórsdóttir fyrir hönd Rithöfundasambandsins og Arnaldur Sigurðsson fyrir hönd Landsbókasafnsins.

Í umsögn dómnefndar um verðlaunabókina segir: „Þvottadagur er afar innihaldsrík og margræð ljóðabók. Einkennandi fyrir ljóðin er kraftmikið og hrífandi myndmál og þótt viðfangsefni þeirra séu gjarnan alvarleg er ísmeygilegi húmorinn sjaldnast langt undan. Þetta er sterkt og vandað verk sem vekur lesanda til umhugsunar og hreyfir við honum.“


Jónas Reynir hefur áður sent frá sér skáldsögurnar Millilendingu og Krossfiska, verðlaunaleikritið Við deyjum á Mars og ljóðabækurnar Leiðarvísi um þorp og Stór olíuskip, en fyrir þá síðarnefndu var hann tilnefndur til Maístjörnunnar og hlaut Bókmenntaverðlaun Tómasar Guðmundssonar 2017. Að sögn höfundar er Þvottadagur þriðja og síðasta bókin í þríleik sem hófst með Leiðarvísi um þorp og hélt áfram í Stórum olíuskipum.


Upptekinn af skynjuninni

„Ég lít á þessar þrjár bækur sem þríleik þótt ég hafi ekki lagt upp með það þegar ég skrifaði fyrstu bókina. Það er ákveðinn þráður sem tengir allar þrjár bækur og ljóðmælandinn er sá sami. Þetta er einhvers konar tilfinningalegt ferðalag um innri og ytri veruleika,“ segir Jónas Reynir og bendir á að ljóðalestur sé í sínum huga marglaga. „Gott er að lesa ljóðin hægt og meðtaka þau eins og tónlist sem hefur áhrif á skynjunina. Á þeim tímapunkti þarf maður ekki að hafa áhyggjur af því hvort maður skilji allt heldur einbeita sér fremur að skynjuninni. Eftir lestur getur ljóð hins vegar setið í manni og þá kvikna alls kyns hugleiðingar,“ segir Jónas Reynir. Ítarlegar verður rætt við hann í Morgunblaðinu á morgun. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
4
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant