Reykjavíkurdætur ræða fordóma í NY Times

Stikla úr myndbandi Reykjavíkurdætra við lagið Thirsty Hoes.
Stikla úr myndbandi Reykjavíkurdætra við lagið Thirsty Hoes. Skjáskot/Youtube

Reykjavíkurdætur horfa út í heim. Þannig er fyrirsögnin í umfjöllun New York Times um íslensku rappsveitina Reykjavíkurdætur — eða Daughters of Reykjavík eins og þær nefna sig nú. Þær hafi verið hafðar að háði og spotti innanlands og leiti nú með tónlistina úr landi.

„Við höfum verið umdeildar á Íslandi,“ hefur New York Times eftir Þuríði Blæ Valsdóttur, stofnanda sveitarinnar sem leikstýrði nýju tónlistarmyndbandi sveitarinnar við lagið Thirsty Hoes en það kom út á dögunum. Myndbandið minnir á fjarfund, þar sem hver rappari situr fyrir framan tölvuskjáinn heima hjá sér.

Daughters of Reykjavík hlutu verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar …
Daughters of Reykjavík hlutu verðlaun Jónasar Hallgrímssonar á degi íslenskrar tungu í fyrra fyrir að vera „vald­efl­andi fyr­ir­mynd­ir sem hafi sýnt að hægt sé að fella marg­brot­inn reynslu­heim ungra Íslend­inga í orð“. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Haft er eftir Þuru Stínu Kristleifsdóttur, sem reyndar er sögð Jóhannsdóttir í fréttinni, að sveitin hafi orðið til á svokölluðum „open mic“-kvennakvöldum. Þegar þær hafi komið saman sem hópur hafi þær mætt miklum og ljótum kynjafordómum. Gagnrýnendur hefðu sagt þær líta vel út, en tónlistin væri drasl; feit pæling sem gekk ekki upp, eins og skáldið sagði.

Steiney Skúladóttir, ein Reykjavíkurdætra, gengst þó við því að sveitin hafi ekki verið sérlega góð þegar allar voru velkomnar og hópurinn samanstóð af allt að 21 liðskonu. En jafnvel þótt andrúmsloftið sé fagmannlegra nú hafi þær enn þann stimpil að vera lélegir tónlistarmenn. „Það er bara okkar vörumerki á Íslandi,“ segir Steiney.

Rifjað er upp þegar Reykjavíkurdætur fluttu tónlistaratriði í þættinum Vikan með Gísla Marteini á RÚV. Vakti atriðið athygli ekki síst fyrir þær sakir að dæturnar sveifluðu gervilimum á sviðinu og ofbauð einum gesti þáttarins, Ágústu Evu Erlendsdóttur, svo að hún gekk út í beinni útsendingu. „Fólk sagði að við værum miklu dónalegri en karlkynsrapparar, en við erum það ekki. Við erum nákvæmlega jafndónalegar,“ segir Þura og vísar í tvöfalt siðgæði sem virðist oft við lýði milli karlkyns- og kvenkynsrappara.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Ekki afskrifa neina hugmynd, nema þú sért fullviss um tilgangsleysi hennar. Hafðu hugfast að aldrei er hægt að gera svo að öllum líki.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Ekki afskrifa neina hugmynd, nema þú sért fullviss um tilgangsleysi hennar. Hafðu hugfast að aldrei er hægt að gera svo að öllum líki.