Nokkrar úrvalsplötur á árinu

Nokkrar afbragðsplötur hafa komið út á árinu.
Nokkrar afbragðsplötur hafa komið út á árinu.

Nú þegar þetta ólánsár nálgast það að verða hálfnað er ekki úr vegi að fara aðeins yfir eitthvað af þeim erlendu plötum sem hafa verið gefnar út til þessa.  

Run the Jewels - RTJ4

Fyrstir á blað eru þeir Killer Mike og El-P með sína fjórðu plötu sem talar beint inn í ástandið í Bandaríkjunum. Kraftmiklir taktar og reitt rapp. „Look at all these slave-masters posing on your dollar,“ gargar Zack De La Rocha í JU$T. Í „walking in the snow“ er rappað um Eric Garner sem lést í höndum lögreglumanna árið 2014 og myndskeiðin sem fólk sá af atvikinu. Besta rappið er gjarnan það sem hljómar áríðandi og þessi plata er þannig. Kæfingartök lögreglumanna í Bandaríkjunum eru hálfgert þema í rímunum og tímasetningin gæti varla átt betur við en í dag þar sem Bandaríkin loga bókstaflega eftir að George Floyd hlaut sömu örlög og Garner.  Aðrir gestir eru t.d. Pharrell Williams og Josh Homme. Algjörlega skothelt stöff eins og annað sem sveitin hefur sent frá sér í gegnum tíðina.   

Caribou - Suddenly

Kanadamaðurinn og stærðfræðidoktorinn Dan Snaith hefur verið afkastamikill undanfarna tvo áratugi. Suddenly er fimmta plata hans undir merkjum Caribou og hefur fengið fínar viðtökur. Hljómurinn er rafrænn, mikið unninn og ekki hægt að segja að neitt annað hljómi eins, litlar líkur á að tribute sveitir slái upp Caribou-kvöldum. Í þeim hafsjó af tónlist sem kemur út nú til dags er eins gott að skapa sér sérstöðu og það gerir Snaith.


Jóhann Jóhannsson og Yair Elazar Glotman - The Last and First Men

Þetta var verkefni sem Jóhann Jóhannsson lést frá en var klárað af samstarfsfólki hans. Tónlistin er við samnefnda kvikmynd sem hann hafði unnið að í nokkur ár þar sem leikkonan Tilda Swinton les texta upp úr vísindaskáldsögu frá árinu 1930 eftir Olaf Stapledon. Myndefnið er eingöngu af brútalískum minnisvörðum í gömlu Júgósvlavíu. Það er því ekki alveg auðséð hvernig lokamyndin var fengin á verkið en Yair Elazar Glotman er einnig skrifaður fyrir verkinu. Þetta var verkefni sem stóð Jóhanni nærri og tónlistin er eftir því. Hún hljómar eins og hún sé ævaforn en gæti líka allt eins verið úr framtíðinni. Seigfljótandi og tilkomumikill seiður.

Moses Sumney - græ

Þetta er önnur platan sem Sumney sendir frá sér en hann er bandarískur með rætur frá Ghana og bjó þar um tíma sem barn og unglingur. Hæfileikarnir eru miklir en hann syngur, raddar og leikur á píanó og gítar. Tónlistin er marglaga og hljóðheimurinn stór en það er erfitt að sjá augljósa smelli þarna og hlustunin getur verið frekar krefjandi. Platan er orðin tvöföld (fyrri hlutinn kom út í febrúar og sá seinni í maí) og inniheldur tuttugu lög. En eins og með annað eru verðlaunin góð þegar maður leggur eitthvað á sig og ef Sumney myndi hitta á smell gæti hann örugglega orðið einn af stærri listamönnum sinnar kynslóðar.


Sébastian Tellier - Domesticated

Erótíski fransmaðurinn og júróvisjónsjarmurinn Sébastian Tellier er í góðu formi þessa dagana. Domesticated, sem mun vera hans sjöunda hljóðversplata, er einstaklega fáguð þar sem öll hljóð eru óaðfinnanlega útfærð. Stundum eru vélrænar raddir, snyrtilegir saxafónar, klúbbataktar, frönsk smekkvísi og hæfilega kærulausir textar bara það sem maður þarf til að hætta að hugsa um veirur, vitleysinga eða önnur vandamál sem fylgja jarðvistinni.  

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert svo sjálfstæður að stundum manstu ekki eftir því að biðja um hjálp. Reyndu að minna þig á forgengileika hlutanna.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert svo sjálfstæður að stundum manstu ekki eftir því að biðja um hjálp. Reyndu að minna þig á forgengileika hlutanna.