Filippus prins 99 ára í dag

Konungsfjölskyldan sendi út þessa mynd af hjónunum í tilefni af …
Konungsfjölskyldan sendi út þessa mynd af hjónunum í tilefni af 99 ára afmæli Filippusar prins. Skjáskot/Instagram

Filippus prins, hertoginn af Edinborg, fagnar 99 ára afmæli sínu í dag. Prinsinn mun verja deginum með Elísabetu II drottningu en þau hafa verið í sóttkví saman síðan kórónuveiran braust út. Aðrir í konungsfjölskyldunni munu senda honum kveðju í gegnum netið.

Filippus prins hefur haldið sér til hlés undanfarið en í desember síðastliðnum þurfti hann að leggjast inn á sjúkrahús. Það hefur þó sést til hans á hestbaki á landareign sinni og ætla má að hann sé við góða heilsu.

Filippus og Elísabet II hafa verið gift í 72 ár og eiga saman fjögur börn, átta barnabörn og átta barnabarnabörn.

Átti erfiða æsku

Filippus prins fæddist á grísku eyjunni Korfú árið 1921. Hann er af grískum og dönskum konungsættum og var fjölskylda hans gerð útlæg frá Grikklandi. Þá ólst hann upp í Frakklandi, Þýskalandi og loks Bretlandi.

Filippus kynntist aldrei hefðbundnu fjölskyldulífi heldur var sendur í heimavistarskóla og síðar í sjóherinn. Foreldrar Filippusar skyldu þegar hann var ungur en móðir Filippusar var prinsessa Alice af Battenberg. Hún var barnabarnabarn Viktoríu drottningar og fæddist í Windsor-kastalanum. Árið 1930 var hún greind með geðklofa og var lögð inn á geðsjúkrahús í Austurríki en síðar átti hún eftir að helga líf sitt góðgerðarmálum í Grikklandi og varði svo síðustu tveimur árum ævi sinnar hjá Filippusi og Elísabetu II Bretlandsdrottningu.

Segir það sem hann hugsar

Filippus prins er þekktur fyrir að segja hug sinn á hátt sem vekur bæði athygli og hneykslan. Svo mjög að það hafa verið ritaðar þó nokkrar bækur um hnyttni hans. Hér á eftir fara nokkrar fleygar setningar:

„Kastið þið enn spjótum í hvert annað?“ Spurði prinsinn frumbyggja í opinberri heimsókn til Ástralíu árið 2002.

„Heyrnarlaus? Ekki furða að þið séuð heyrnarlaus ef þið standið þarna.“ Sagði hann hátt við heyrnarlaus börn sem stóðu nálægt karabískri stáltrommuhljómsveit árið 2000.

„Í hvert skipti sem ég tala við konu segja þeir að ég hafi sængað hjá henni. Tja, mér finnst það mikið hrós á mínum aldri að einhver haldi að ung kona hafi áhuga á mér,“ sagði hann í viðtali árið 2006. 

„Þú virðist vera tilbúinn í háttinn,“ sagði hann við forseta Nígeríu sem klæddist hefðbundum nígerískum fötum 2003.

„Þurfum við eyrnatappa?“ spurði hann þegar hann komst að því að Madonna ætti að syngja James Bond-lagið árið 2002.

„Getur þú gert við DVD-spilarann minn? Það stendur snúra út úr honum, veistu hvert hún á að fara?“ Spurði hann leikkonuna Cate Blanchett sem sagðist starfa í kvikmyndaiðnaðinum. 
mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er eins og þú andir léttar í dag. Mundu bara að þú verður að vera sjálfum þér samkvæmur.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Það er eins og þú andir léttar í dag. Mundu bara að þú verður að vera sjálfum þér samkvæmur.