„Ég er ósammála Kára“

„Við verðum að ná þessu rétta jafnvægi á milli þess …
„Við verðum að ná þessu rétta jafnvægi á milli þess að þora að segja nú þarf ég hjálp, mér líður svo illa, og hins að segja: Nú sýni ég hvað í mér býr og nú gefst ég ekki upp,“ segir Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands, um kulnun. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands segist vera ósammála orðum Kára Stefánssonar um kulnun í starfi, en Kári vísaði til þess í viðtali nýlega að hann nennti ekki einu sinni að ræða fyrirbærið, þar sem hann væri viss um að móðir hans heitin hefði kallað kulnun „leti og drullusokkshátt.“

Í viðtali í hlaðvarpinu Skoðanabræður sagði Guðni að ekki ætti að vera litið á kulnun sem leti. „Ég er ósammála Kára að þessu leyti. Ég hef nú þekkt Kára lengi. Það hefur verið skemmtilegt á marga vegu og ég ber mikla virðingu fyrir Kára og hans vísindastörfum, en hann hefur gaman af því að storka og ögra og hver veit nema hann, innst inni, vilji líka sýna því skilning þegar kulnun hellist yfir fólk í klínískum skilningi,“ sagði Guðni.

„Við erum í samfélagi núna sem er að mörgu leyti breytt frá því sem áður var. Við erum með samfélagsmiðla, allan þennan sífellda samanburð og sérstaklega hjá óhörðnuðum ungmennum sem vilja spegla sig í mati annarra og freistast til þess að fara inn í þann heim. Kulnun getur líka vaknað hjá fólki sem er búið að sinna sama starfinu í langan tíma og finnur ekki sömu ástríðu og var fyrr á tíð. Aftur er þetta þannig til dæmis í kennslu að áreitið er mikið og þá skilur maðurinn að fólk finni ekki sama eldmóðinn og áður og aftur snýst þetta um jafnvægið, að halda áfram, gefast ekki upp, eða þá að finna í sál og sinni að nú sé komið að ákveðnum endapunkti eða þeim stað í lífinu að maður verði að skipta um kúrs og þá á fólk að fá aðstoð við það. Við eigum ekki að líta á kulnun sem leti,“ sagði Guðni.

Ekkert í boði að gefast upp

Sjálfur var Guðni spurður um það hvernig hann brygðist við ef hann sjálfur færi að upplifa of mikla streitu í starfinu. Hann sagðist vera meðvitaður um hvað starfið fæli í sér þegar hann byði sig fram. „Ég bauð mig fram 2016 og vissi þá að mín biði fjögurra ára kjörtímabil og nú býð ég mig fram á nýjan leik og veit að kjörtímabilið er fjögur ár. Þannig að þótt að það gæti farið svo einn daginn að ég kviði fyrir því, kvíðasjúklingurinn sem ég er að mati Jakobs Birgissonar, að halda á fund einhvers staðar eða flytja ræðu eða eiga fund með stjórnmálaleiðtoga eða hvaðeina, þá er það bara ekkert í boði að gefast upp,“ sagði Guðni og vísaði þar til ummæla grínistans, sem einnig er fjallað um í þættinum. „Við verðum að ná þessu rétta jafnvægi á milli þess að þora að segja nú þarf ég hjálp, mér líður svo illa, og hins að segja: Nú sýni ég hvað í mér býr og nú gefst ég ekki upp. Oftar en ekki finnur maður þakklæti eftir á að hafa ákveðið að halda áfram,“ hélt Guðni áfram.

Bræðurnir Bergþór og Snorri Másson halda úti hlaðvarpinu og fjalla þar um samfélagsmál og menningu í hverri viku. Þeir fá til sín gesti af ýmsum toga og inna þá eftir skoðunum þeirra á hinu og þessu. Í þættinum með Guðna ræddu þeir í löngu viðtali allt frá áhrifavöldum á Instagram og kannabisefnum til umfjöllunar grínista um forsetann og persónulegu rútínunnar. Hér má hlusta á þáttinn í heild sinni:

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson