Heimildarmyndaveisla á Akranesi hefst á miðvikudag

Kvikmynd Nicole Shafer er um kínverskt munaðarleysingjahæli í Malaví er …
Kvikmynd Nicole Shafer er um kínverskt munaðarleysingjahæli í Malaví er meðal þeirra heimildarmynda sem sýndar verða á hátíðinni.

Alþjóðleg hátíð heimildarkvikmynda, IceDocs – Iceland Documentary Film Festival, hefst á Akranesi á miðvikudag , 15. júlí, og mun standa yfir til 19. júlí. Hátíðin fer að miklu leyti fram í Bíóhöllinni, sem er með eldri og fallegri bíóhúsum á landinu. Auk þess verður ýmsum viðburðum dreift um bæinn.

Hátíðin var haldin í fyrsta skipti í fyrra, með fjölda áhugaverða heimildarmynda og erlendum gestum sem þeim fylgdu, en sökum veirufaraldursins verður framkvæmdin með nokkuð öðru sniði í ár, að sögn Ingibjargar Halldórsdóttur, framkvæmdastjóra og eins stofnenda IceDocs.

„Við gáfum okkur góðan tíma til að fylgjast með aðstæðum og við biðum fram í maí með að taka ákvörðun um það hvort það yrði hægt að halda hátíð. Þetta hefur vissulega verið svolítil þrautaganga og skipulagið að breytast eftir því sem leiðbeiningar um samkomuhald hafa breyst. Svo bættust við aðstæður í alþjóðlega kvikmyndaheiminum. Það hafði áhrif á dagskrána hér að sumir framleiðendur kusu að fresta því að setja myndirnar sínar í dreifingu.“

Ingibjörg Halldórsdóttir
Ingibjörg Halldórsdóttir

„Allar frábærar!“

Ingibjörg segir það hafa haft mikil áhrif að Cannes-hátíðinni frönsku var frestað fram í júnímánuð og framleiðendur vildu ekki semja um dreifingu margra mynda fyrr en að þeirri hátíð lokinni.

„Við tókum þá ákvörðun að sýna fyrst og fremst myndir sem hafa verið „festival-hittarar“ og því voru sumar frumsýndar í fyrra, þótt við sýnum líka myndir síðan í ár. Þetta eru myndir sem hafa gengið rosalega vel, fengið fjölda verðlauna og lof frá áhorfendum.

Nú verða ekki erlendir gestir á hátíðinni. Hún verður því alveg sniðin að okkur Íslendingum og líklega sýnum við fyrir vikið fleiri aðgengilegri og auðveldari myndir en við settum á dagskrána í fyrra,“ segir hún og hlær. „Það eru fáar tilraunakenndar myndir á dagskránni núna.

Í allt sýnum við 21 kvikmynd, sem er helmingi færra en í fyrra. Þetta eru myndir víða að, frá Filippseyjum til Brasilíu og Noregs.“

Aswang eftir Alyx Ayn Arumpac frá Filippseyjum fjallar um aftökur …
Aswang eftir Alyx Ayn Arumpac frá Filippseyjum fjallar um aftökur fíkniefnasala án dóms og laga.

– Hverju er farið eftir við val heimildarkvikmynda á hátíðina?

„Við veljum yfirleitt heimildarmyndir sem eru ekki þessar hefðbundnu sem við sjáum í sjónvarpi, heldur frekar bíó-heimildarmyndir. Sem eru eins og kvikmyndir gerðar eftir handriti. Það eru ekki margar með hefðbundnum viðtölum heldur frekar myndir sem falla oftast undir skilgreininguna skapandi heimildarmynd.

Svo erum við líka alltaf að leita eftir myndum sem okkur þykja skemmtilegar.

En þær eru mjög fjölbreytilegar, sumar mjög fyndnar, aðrar sjúklega spennandi – ég held með þeim öllum og finnst þær allar frábærar!

Við vorum svo heppin að ná að semja um að fá að sýna myndirnar líka á netinu. Ég held þetta hljóti að vera í fyrsta skipti sem hátíð eins og þessi fer fram á netinu líka.“

Hliðardagskrá fyrir alla

– Leggur hátíðin Akranes undir sig þessa daga?

„Svo til,“ svarar Ingibjörg. „Í fyrra fengu erlendu gestirnir eins konar hliðardagskrá en hinir almennu gestir fóru bara í bíó. Nú ætlum við að bjóða öllum að taka þátt í hliðardagskránni og hún verður mjög skemmtileg, frá jógatímum á morgnana að fjallgöngum, bíósýningum og viðburðum á kvöldin.“

Ingibjörg segir að meðstofnendur hennar að hátíðinni, Heiðar Mar Björnsson og Hallur Örn Árnason, séu kvikmyndagerðarmenn en hún komi úr hátíðabransanum, var lengi hjá RIFF. „Við höfum öll gífurlegan áhuga á heimildamyndum og náum því vel saman,“ segir hún. Og áhuginn er það mikinn að þau ákváðu að stofna hátíð, sem Ingibjörg segir hlæjandi að sé vissulega „klikkun“ en þau séu nú vakin og sofin að velta heimildarkvikmyndum fyrir sér.

A Year Full of Drama eftir Mörtu Pulk fjallar um …
A Year Full of Drama eftir Mörtu Pulk fjallar um konu sem tekur þátt í tilraun þar sem hún sér og fjallar um fjölda leikverka á einu ári.

„Þetta er hobbýið okkar,“ segir hún og bætir við að þau hafi verið tilbúin mjög snemma með dagskrá fyrir þessa hátíð í ár en því hafi öllu þurft að henda vegna Covid-19. „Í raun var þá heppilegt að vera með nýja hátíð, því við erum enn að prófa okkur áfram og að sjá hvað virkar og hvað kveikir í fólki.“

Þegar spurt er hvort Íslendingar séu almennt áhugasamir um þetta form, frásagnir af veruleikanum, segist Ingibjörg telja það. „Ég held að fólk sé áhugasamara um það en það heldur! Þegar kvikmyndahúsin sýna sífellt fleiri ævintýramyndir myndast póll á móti þar sem fólk vill sjá raunveruleikann.“

Dagskrána má sjá á icedocs.is

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson