Sundurlimaðir þú froska í bernsku?

Bandaríska leikkonan Alfre Woodard.
Bandaríska leikkonan Alfre Woodard. AFP

„Ég er leikari og gefin fyrir ævintýri. Ég er ekkert spennt fyrir hlutum sem ég kann nú þegar. Þegar framleiðandinn hringdi og kvaðst vera með handrit eftir unga og kraftmikla kvikmyndagerðarkonu sem hún hefði skrifað um dauðadeildina hugsaði ég með mér: Gott og vel. Þá bætti hún við: „Hún vill að þú leikir forstöðukonuna á dauðadeildinni.“ Þá sperrtust eyrun á mér upp. Ég á við, hvaða stúlka sér fyrir sér framtíðina og segir: „Veistu hvað mig langar að verða þegar ég verð stór? Forstöðukona á dauðadeild. Ég gat ekki ímyndað mér hver sú manneskja gæti verið. Hefur hún alist upp við að sundurlima froska?“

Þannig lýsir bandaríska leikkonan Alfre Woodard því í viðtali í breska blaðinu The Guardian hvernig það kom til að hún tók að sér aðalhlutverkið í kvikmyndinni Clemency eftir nígerísk/bandaríska leikstjórann Chinonye Chukwu.

Meðan hún var að búa sig undir hlutverkið átti Woodard löng samtöl við forstöðumenn á dauðadeildum og fangelsisstjóra í sex fangelsum í Ohioríki, allt konur, og komst að raun um að þær eru hreint engar ófreskjur, heldur manneskjur sem gætu hæglega verið með manni í bókaklúbbi eða félagasamtökum á borð við Heimili og skóla. Allar eru þær með bakgrunn í félagslega kerfinu eða geðheilbrigðiskerfinu. „Maður getur ekki hugsað sér neinn hæfari til að eiga við þessa skemmdu drengi sem nú eru vaxnir úr grasi. Ég segi skemmdu drengi vegna þess að enda þótt fangarnir séu jafnvel orðnir sjötugir og hafi setið inni allt sitt líf sér maður ennþá drenginn í þeim; sér það í andlitsdráttunum og á göngulaginu,“ segir Woodard í viðtalinu.

Um 2,2 milljónir manna sitja í fangelsi í Bandaríkjunum og eru þær tölur hvergi hærri í heiminum, að því er kemur fram í The Guardian. Þeldökkir Bandaríkjamenn eru sex sinnum líklegri til að hljóta fangelsisdóm en hvítir. Árið 2018 afplánuðu 206 þúsund manns lífstíðardóm í bandarískum fangelsum, þar af um helmingur blökkumenn enda þótt þeir séu aðeins 13,4% af íbúum landsins. Nánast sami fjöldi hvítra og svartra er á dauðadeild, ríflega eitt þúsund af hvorum kynstofni. Á sama tíma og dauðarefsing hefur verið á undanhaldi í bandaríska réttarkerfinu hefur kynþáttalegt ójafnvægi aukist.

Nígerísk/bandaríski leikstjórinn Chinonye Chukwu.
Nígerísk/bandaríski leikstjórinn Chinonye Chukwu. AFP


„Eigum við skilið að drepa hana?“

Clemency hefur beint sjónum að þessum tölfræðilegu staðreyndum en fanginn sem myndin hverfist um er svartur á hörund. Höfundurinn, Chinonye Chukwu, fæddist í Nígeríu árið 1985 en ólst upp í Bandaríkjunum, fyrst í Oklahoma og síðan í Alaska frá sex ára aldri. Hún átti erfitt með að aðlagast myrkrinu þar nyrðra og glímdi við þunglyndi, auk þess sem hún var eina litaða manneskjan í skólanum sínum og féll illa inn í hópinn. Þetta mun hafa haft djúpstæð áhrif á Chukwu sem hefur allar götur síðan haft mikinn áhuga á kynþáttamisrétti.

Kveikjan að Clemency var aftaka á svörtum manni, Troy Davis, í Georgíu árið 2011 en henni var ákaft mótmælt. Davis var gefið að sök að hafa skotið öryggisvörð á skyndibitastað til bana. Hann hélt fram sakleysi sínu fram í andlátið en var dæmdur út frá framburði sjónarvotta. Morðvopnið fannst aldrei. Chukwu lagðist í sex ára rannsóknir, þar sem hún ræddi við forstöðumenn á dauðadeildum og efndi til kvikmyndanámskeiða fyrir fanga. Þá hefur hún beitt sér af hörku í umdeildum málum, þar sem áhöld eru um réttmæti dauðarefsingar. Clemency hefur hlotið mikið lof; Chukwu varð til dæmis fyrsta svarta konan til að hljóta verðlaun sem besti leikstjóri ársins á Sundance-hátíðinni. Myndin hefur meðal annars verið lofsungin fyrir að feta ekki hina troðnu braut Hollywood og bjóða upp á syndaaflausn í lokin. Í stað þess að spyrja „á þessi manneskja skilið að deyja“ spyr Clemency: „Eigum við skilið að drepa hana?“

Nánar er fjallað um Clemency í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson