Söngvarar í gestahlutverki á nýrri plötu

Bjarki og Teitur skipa Ra:tio.
Bjarki og Teitur skipa Ra:tio. Ljósmynd/Vignir Daði Valtýsson

Pródúsera-tvíeykið Ra:tio gaf út sína fyrstu sóló-plötu, DANS, í dag. Platan inniheldur sjö lög með gestaframkomum frá nokkrum stærstu flytjendum landsins, þ.á m. Bríeti, Birni og GDRN.

Ra:tio hefur á síðustu árum stimplað sig rækilega inn í poppsenu Íslands með samstarfsplötum með GDRN, Clubdub og Unu Schram. Tvíeykið, sem samanstendur af Bjarka Sigurðarsyni og Teiti Helga Skúlasyni, kynntist Guðrúnu Ýri (GDRN) á menntaskólaárum sínum þar sem þau gengu öll í Menntaskólann í Reykjavík.

Þar stigu þeir sín fyrstu skref í lagasmíðum auk þess sem söngkonan Guðrún var jafnframt að hefja sinn eigin feril sem GDRN. Úr samstarfinu varð platan Hvað Ef sem átti mikilli velgengni að fagna og vann til verðlauna á Íslensku tónlistarverðlaununum sem popplata ársins 2018. Þar var Guðrún einnig valin söngkona ársins og lagið Lætur Mig, sem var unnið með rapparanum Flóna, vann til verðlauna sem lag ársins í poppflokki og hlaut einnig verðlaun fyrir tónlistarmyndband ársins.

Ljósmynd/Vignir Daði Valtýsson

Í kjölfarið tók við ný áskorun hjá Ra:tio með nýju bandi sem átti einnig eftir að setja mark sitt á íslensku senuna og marka frumraun Ra:tio á sviði danstónlistar, ClubDub. Ævintýrið hófst skömmu eftir útgáfu plötunnar Juice Menu Vol.1 sem var ein af stærri plötum sumarsins 2018 með smellum á borð við Clubbed Up og Drykk 3x. Síðan þá hafa þeir komið fram sem plötusnúðar með Clubdub og spilað á flestum stærstu vettvöngum Íslands t.a.m. á tónleikahátíðunum Secret Solstice, Iceland Airwaves og stóra sviðinu á Þjóðhátíð.

Stuttu seinna sendu þeir svo frá sér lagið Eina Sem Ég Vil, með gestaframkomu frá Aroni Can. Í maí 2019 gaf Ra:tio svo út annað samstarfsverkefni sitt með ClubDub sem bar heitið Tónlist sem innihélt m.a. lögin Aquaman og Fokka Upp Klúbbnum.

Á sama tíma kom út smáskífan energy EP sem unnin var með söngkonunni Unu Schram, sem í dag er ein efnilegasta söngkona landsins.

„Markmiðið með plötunni DANS var að skapa konsept-plötu þar sem danshljóðheimurinn okkar mætir ólíkum stíl og upplifun hvers flytjanda á plötunni. Það var skemmtileg áskorun fyrir okkur að halda utan um ferli plötunnar alveg frá byrjun til enda og að fá að vinna með svona hæfileikaríkum listamönnum, flestum í fyrsta skipti. Alveg frá byrjun höfum við viljað geta staðið á eigin fótum sem sjálfstætt merki og þessi plata er stórt skref í rétta átt fyrir okkur. DANS fer um víðan völl og við reyndum að skapa ólíka stemningu á hverju lagi en á sama tíma búa til heildsteypta upplifun þegar platan er spiluð í gegn,“ segja Bjarki og Teitur.

Platan DANS er fyrsta popp-plata sinnar tegundar sem gefin er út hér á landi með pródúsera og lagahöfunda í forgrunni þar sem landsþekktir flytjendur koma fram í gestahlutverki.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Kipptu þér ekki upp við það þótt einhver spyrji þig spjörunum út úr því þú hefur hreina samvisku. Líttu á minningar sem munað - smakkaðu á nokkrum en ekki missa damp.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Kipptu þér ekki upp við það þótt einhver spyrji þig spjörunum út úr því þú hefur hreina samvisku. Líttu á minningar sem munað - smakkaðu á nokkrum en ekki missa damp.