„Gleðiefni að geta frumsýnt“

Inga Maren Rúnarsdóttir danshöfundur í verki sínu Ævi sem Íslenski …
Inga Maren Rúnarsdóttir danshöfundur í verki sínu Ævi sem Íslenski dansflokkurinn frumsýnir 5. september. Ljósmynd/Saga Sigurðardóttir

„Það er okkur mikið gleðiefni að geta frumsýnt dansverkið Ævi eftir Ingu Maren Rúnarsdóttur þrátt fyrir þær samkomutakmarkanir sem nú gilda,“ segir Hlynur Páll Pálsson, framkvæmdastjóri Íslenska dansflokksins (Íd), en verkið verður frumsýnt á Nýja sviði Borgarleikhússins laugardaginn 5. september. 

Í viðtali við Hlyn Pál sem birtist fyrst í Morgunblaðinu í gær, fimmtudag, kom fram að auðvitað yrði í öllu farið eftir fyrirmælum stjórnvalda til að tryggja sóttvarnir.

Hlynur Páll Pálsson, framkvæmdastjóri Íslenska dansflokkurinn og formaður Samtaka atvinnuveitenda …
Hlynur Páll Pálsson, framkvæmdastjóri Íslenska dansflokkurinn og formaður Samtaka atvinnuveitenda í sviðslistum. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Nýja sviðið tekur venjulega um 240 manns í sæti, en aðeins verða í boði allt að 80 sæti á hverri sýningu þannig að við getum tryggt tveggja metra bil milli ótengdra aðila. Gert er að ráð fyrir að setið verði á öllum bekkjum salarins. Seld verða tvö og tvö sæti saman og gert ráð fyrir fjórum auðum sætum á milli ótengdra aðila og síðan raðað í sikksakk milli bekkja,“ segir Hlynur Páll og tekur fram að verk Ingu Marenar sé fullkomið verk til að sýna á tímum samkomutakmarkana þar sem virða þarf tveggja metra regluna þar sem um sólóverk sé að ræða. „Óhjákvæmilega náum við að virða tveggja metra regluna á sviðinu þar sem danshöfundurinn dansar eigið verk og nær ein að túlka æviskeiðin,“ segir Hlynur Páll, en næstu sýningar verða 11. og 13. september. 

Gróðasjónarmið ein geta ekki ráðið för

Í ljósi þess að aðeins sé hægt að nýta rúmlega 30% af salnum ef virða á tveggja metra regluna liggur beint við að spyrja Hlyn Pál hvort sýningin muni standa undir sér kostnaðarlega. „Sólóverk á borð við Ævi stendur hiklaust undir sér þótt aðeins sé 30% sætanýting í salnum,“ segir Hlynur Páll og tekur fram að gróðasjónarmið ein geti ekki ráðið för í núverandi ástandi.

„Auðvitað verður sýningarkvöldið að standa undir sér fjárhagslega, en í núverandi ástandi er kannski ekki hægt að gera kröfu um mikið meira en það,“ segir Hlynur Páll og bendir á að hjá Íd hafi tekjur af miðasölu yfirleitt staðið undir 15-20% af rekstri flokksins sem sé lægra en margra annarra sviðslistastofnana, en sem dæmi má nefna að hjá Borgarleikhúsinu standa miðasölutekjur og annað sjálfsaflafé undir 60% af rekstri leikhússins.

Í dag, föstudag, bárust þær fréttir frá Borgarleikhúsinu að leikhúsið opni formlega með frumsýningu á Oleanna eftir David Mamet á Nýja sviðinu 18. september. Aðeins verður pláss fyrir sextíu áhorfendur á hverri sýningu svo hægt sé að uppfylla öll tilmæli heilbrigðisyfirvalda um sóttvarnir. Leikarar í Oleanna eru Hilmir Snær Guðnason og Vala Kristín Eiríksdóttir, en Hilmir Snær er einnig leikstjóri verksins ásamt Gunnari Gunnsteinssyni.

Hilmir Snær Guðnason og Vala Kristín Eiríksdóttir fara með hlutverkin …
Hilmir Snær Guðnason og Vala Kristín Eiríksdóttir fara með hlutverkin í Oleanna eftir David Mamet sem Borgarleikhúsið frumsýnir 18. september.

Samkvæmt upplýsingum frá Borgarleikhúsinu býðst áhorfendum að taka forskot á sæluna með uppfærslu  fjöllistahópsins CGFC á Kartöflum sem sýnt verður 4. og 11. september. Um er að ræða sýningu sem  varð til undir hatti Umbúðalauss á síðasta leikári og var tilnefnd til Grímunnar síðastliðið vor í flokknum Leikrit ársins.

Búast við langtímaáhrifum

Það er ekkert launungarmál að vinsælar sýningar standa undir tilraunastarfsemi og minni sýningum sem oft þarf að borga með. Ef takmörkun á sætaframboði leiðir til þess að sýningar koma aðeins út á núlli er þá ástæða til að óttast að minna fari fyrir hvers kyns tilraunastarfsemi innan sviðslistastofnana?

„Ég er sannfærður um að sviðslistastofnanir muni leita allra leiða til að láta það ekki gerast,“ segir Hlynur Páll sem einnig er formaður Samtaka atvinnuveitenda í sviðslistum (SAVÍST), en aðilar að samtökunum eru Borgarleikhúsið, Íslenski dansflokkurinn, Íslenska óperan, Menningarfélag Akureyrar, RÚV, Sinfóníuljómsveit Íslands og Þjóðleikhúsið.

„Víða erlendis er rekstrarmódelið annars eðlis þar sem sviðslistastofnanir þurfa ekki að afla jafnhás hlutfalls af rekstrinum í formi miðasölutekna og sjálfsaflafjár.“

Sérðu fyrir þér að yfirstandandi kóf geti breytt rekstrarlandslagi sviðslistastofnana hérlendis?

„Kófið er auðvitað áfall fyrir okkur öll. Það liggur fyrir að flestar sviðslistastofnanir hafa orðið fyrir algeru tekjufalli og einnig kostnaðarauka vegna samkomutakmarkana og í raun algerrar stöðvunar starfseminnar. Þessi stöðvun er auðvitað til komin vegna þvingaðra nauðsynlegra aðgerða stjórnvalda. Við finnum hins vegar fyrir skilningi, stuðningi og hvatningu frá gestum okkar og stjórnvöldum. Við trúum því þar af leiðandi að tryggt verði að þessum stofnunum verði bætt áfallið, þannig að þær geti svo, þegar rofar til, haldið áfram hefðbundinni starfsemi. Við höfum jafnframt fulla trú á því að gestir okkar og stjórnvöld kjósi ekki að til viðbótar við algert stopp nú á þessu ári, þá verði starfsemi menningarstofnana sköðuð og löskuð til lengri tíma. Því er unnið út frá því að lausn verði fundin með stjórnvöldum og að stofnanirnar fái fjárhagslegt áfall bætt,“ segir Hlynur Páll og bendir á sú seinkun sem þegar hefur orðið á yfirstandandi sýningarári hafi þegar haft áhrif á skipulag sviðslistastofnana. „Sú frestun á frumsýningum sem þegar hefur orðið mun hafa ruðningsáhrif á allt sýningarárið. Það eru allir í því núna að endurskipuleggja sig og bíða spenntir eftir að geta hafið starfsemi á ný.“

Fólk þyrstir í menningu

SAVÍST sendi í síðustu viku frá sér ályktun þar sem stjórnvöld voru hvött „til að leita leiða til að starfsemi lista- og menningarstofnana geti farið af stað á nýjan leik í þrepum á næstu vikum.“ Hlynur Páll segist skynja það sterklega hjá almenningi að fólk sé þyrst í að geta notið menningar og lista að því tilskildu að hægt sé að tryggja sóttvarnir. „Við hjá Íslenska dansflokknum héldum lítinn viðburð í Gamla bíói í byrjun júní þegar byrjað var að slaka á samkomutakmörkunum þar sem við kynntum þrjú verk í vinnslu og þar var stappfullt. Ég er handviss um að fólk þyrstir í að fara að lifa lífinu eðlilega og fá að njóta menningar,“ segir Hlynur Páll og tekur fram að í framhaldi af ályktun síðustu viku sé SAVÍST í góðu samtali við bæði sóttvarnayfirvöld og heilbrigðisyfirvöld.

„Við erum, í samráði við yfirvöld, að vinna tillögur að því hvernig útfæra megi það að hefja starfsemi sviðslistastofnana á ný, í þrepum að sjálfsögðu. Það er mjög mikilvægt að við fáum að minnsta kosti leyfi til að byrja að æfa, því eins og staðan er núna er mjög erfitt að æfa verk nema flytjendur séu í mesta lagi tveir sem setur þröngar skorður. Með því móti gætu sviðslistastofnanir verið tilbúnar til sýningarhalds þegar byrjað verður að slaka á samkomuhöftum í þrepum og við vonumst til að takmarkanirnar muni minnka eða hverfa sem fyrst í september,“ segir Hlynur Páll og áréttar að yfirstandandi viðræður séu í mjög góðu ferli og samráðið gott. „Vonandi verða nánari upplýsingar um hvernig starfsemi sviðslistastofnana geti farið fram þegar næsta auglýsing yfirvalda verður kynnt eftir helgi.“

Leikhús í Danmörku sem byrjuð eru að sýna hafa tekið upp grímuskyldu áhorfenda. Sérðu fyrir þér að íslenskrar sviðslistastofnanir fari svipaða leið?

„Þetta er eitt af því sem verið hefur til umræðu. Hugmyndin um grímunotkun er ekki mjög aðlaðandi og ýmsir óttast að það geti haft neikvæð áhrif á upplifun áhorfenda. Engu að síður hefur reynslan sýnt að grímur hafa áhrif í sóttvörnum og geti því verið mikilvægt tæki. Það gæti því komið til þess á einhverjum fyrstu stigum tilslakana að áhorfendur verði hvattir til að bera grímu.“

Sviðsmyndir vetrarins nefnast logn, þoka og stormur

Hlynur Páll bendir á að gott sé að nýta kófið til að tileinka sér æðruleysi. „Maður þarf, sem stjórnandi sviðslistastofnunar, að sætta sig við að það er mjög margt sem maður hefur ekki stjórn á og maður þarf að gera ráð fyrir ýmsum sviðsmyndum. Við hjá Íslenska dansflokknum áttum góðan vinnufund með okkar dönsurum þar sem við kynntum ólíkar sviðsmyndir, því það getur greinilega allt gerst. Við ákváðum að fara ekki í litagreiningu og tala um grænt, gult og rautt plan. Við nefnum sviðsmyndirnar okkar „logn“ – þar sem allt er í góðu, engin smit í samfélaginu eða samkomubann, „þoka“ – þar sem við erum stödd núna þar sem ríkja 100 til 500 manna samkomutakmarkanir og tveggja metra reglan er virk þar sem það eru smit í samfélaginu og „stormur“ – sem á við ástandið eins og það var í vor. Hjá Íslenska dansflokknum erum við því búin að stilla upp næstu mánuðum með öllum þessum möguleikum og skoða hvernig við getum unnið í mismunandi aðstæðum hvort sem hér ríkir logn, þoka eða stormur. Þrátt fyrir hömlur og erfiðar aðstæður er alltaf hægt að skapa og vera skapandi þótt útfærslan sé ólík,“ segir Hlynur Páll að lokum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson