„Fjölbreytt og skemmtilegt“

Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands.
Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands. mbl.is/Árni Sæberg

„Vegna kófsins er ljóst að við þurfum að gera hlutina með ögn öðrum hætti en venjulega. Mikilvægi okkar sem menningarstofnunar sem miðlar menningu til landsmanna minnkar ekkert þó svo að við þurfum að breyta skipulaginu út af samkomutakmörkunum,“ segir Lára Sóley Jóhannsdóttir, framkvæmdastjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands (SÍ).

„Við veljum að kynna starfsárið okkar með fyrirvara um breytingar, en reiknum með að þurfa reglulega að endurmeta stöðuna. Við höfum hlakkað mikið til að kynna komandi starfsár sem verður bæði fjölbreytt og skemmtilegt,“ segir Lára Sóley.

Dagskrá komandi starfsárs hefur þegar verið birt á vef hljómsveitarinnar, sinfonia.is en þar má finna tæmandi upplýsingar um tónleika vetrarins, einleikara, listamenn, stjórnendur og auðvitað verkin sjálf. Þar má sjá að fyrstu tónleikar SÍ í Eldborg Hörpu þetta starfsárið verða í kvöld, föstudag, kl. 20. „Þar er um að ræða hátíðardagskrá þar sem rifjaðar verða upp stórar stundir í tónlistarsögu Ríkisútvarpsins og Sinfóníuhljómsveitar Ísland undir stjórn Daníels Bjarnasonar, en á efnisskránni eru verk eftir m.a. Johann Sebastian Bach, Luigi Boccherini, Aram Katsjatúrían, Ígor Stravinskíj, Emil Thoroddsen, Ingibjörgu Þorbergs og Jón Þórarinsson.

Tónleikum sjónvarpað

„Í ljósi aðstæðna verða engir áhorfendur í sal á þessum tónleikum, en þeim verður sjónvarpað beint á RÚV og útvarpað á Rás 1,“ segir Lára Sóley og bendir á að þær samkomutakmarkanir sem í gildi eru setji mark sitt á dagskrána í september og verða allir tónleikar í beinni sjónvarpsútsendingu.

„Við þurfum auðvitað að taka mið af þeim samkomutakmörkunum sem stjórnvöld ákveða, en gerum okkur vonir um að hægt verði að hefja hefðbundna dagskrá í október þar sem hægt verði að taka á móti áhorfendum í sal. Þetta er því ekki planið sem við lögðum upp með, enda var ástandið mun bjartara í vor þegar samkomutakmarkanir voru rýmkaðar.“

Að sögn Láru Sóleyjar er á komandi starfsári, þrátt fyrir kófið, gert ráð fyrir svipuðum fjölda erlendra flytjenda og verið hefur á síðustu árum. „Við vorum auðvitað búin að bóka þessa flytjendur löngu áður en kófið skall á,“ segir Lára Sóley og tekur fram að eftir að ákveðið var að allir sem til landsins koma þurfi að fara í fjögurra til fimm daga sóttkví með tveimur sýnatökum sé ljóst að finna þurfi útfærslu þar á sem henti bæði hljómsveit og erlendum flytjendum meðal annars með tilliti til þess hver beri kostnaðinn af slíku. „Sem dæmi er hljómsveitarstjórinn Richard Kaufman tilbúinn að koma fyrr til landsins til að geta stjórnað tónleikum sem helgaðir eru kvikmyndatónlist Ennio Morricone og John Williams þann 1. október.

Ungstirni stíga á svið með SÍ

Það er okkur mikið ánægjuefni að Eva Ollikainen, nýr aðalhljómsveitarstjóri, kemur til landsins í september og mun eftir sóttkví byrja að vinna með hljómsveitinni,“ segir Lára Sóley, en Ollikainen mun stjórna tvennum tónleikum í september og tvennum tónleikum í október. „Fyrstu tónleikarnir verða 17. september þar sem boðið verður upp á Beethoven-veislu í samtarfi við RÚV sem sýnir beint frá tónleikunum. Þar mun Víkingur Heiðar Ólafsson leika Píanókonsert nr. 3 eftir Beethoven auk verksins Glassworks fyrir píanó og strengi eftir Philip Glass. Á tónleikum 23. september, sem einnig verða í samstarfi við RÚV, stjórnar Ollikainen Sinfóníu nr. 5 eftir Beethoven og Aeriality eftir Önnu Þorvaldsdóttur.

Á tónleikum 8. október stjórnar Ollikainen ásamt Daníel Bjarnasyni og Bjarna Frímanni Bjarnasyni From Space I Saw Earth sem Daníel samdi fyrir Fílharmóníusveitina í Los Angeles og frumflutt var þar í nóvember á síðasta ári í tilefni af aldarafmæli hljómsveitarinnar. Að lokum má nefna að Ollikainen stjórnar tónleikum 22. október þar sem Marita Sølberg syngur einsöng í Fjórum síðustu söngvum Richards Strauss og sveitin flytur Sinfóníu nr. 2 eftir Anton Bruckner,“ segir Lára Sóley og tekur fram að Ollikainen snúi aftur í janúar til að stjórna Vínartónleikum SÍ auk þess sem hún muni síðar í þeim sama mánuði stjórna Sinfóníu nr. 5 eftir Gustav Mahler, sem sé einn af hápunktum ársins.

„Ollikainen tekur einnig við tónsprotanum í Valkyrjunni sem hljómsveitin vinnur í samstarfi við Listahátíð Reykjavíkur og Íslensku óperuna sem flytja átti í maí sl. en færist til febrúars á næsta ári,“ segir Lára Sóley og lýsir ánægju sinni með að hægt hafi verið að færa þau þrjú stóru samstarfsverkefni SÍ sem ráðgerð voru á síðasta starfsári og fresta þurfi vegna kófsins. Þar er um að ræða Valkyrjuna, Aiôn, eftir Önnu Þorvaldsdóttur og Ernu Ómarsdóttur í samstarfi við Íslenska dansflokkinn og undir stjórn Önnu-Mariu Helsing sem nú er á dagskrá 5. nóvember og loks Ný klassík sem fram fer um miðjan október. „Þar gefst ungstirnum í nýrri íslenskri tónlist tækifæri til að stíga á svið með Sinfóníuhljómsveit Íslands í fyrsta sinn,“ segir Lára Sóley, en á tónleikunum koma fram og flytja lög sín í nýjum órafmögnuðum útsetningum fyrir sinfóníuhljómsveit þau Auður, GDRN, Flóni, Bríet, Joey Christ, Logi Pedro, JóiPé og Króli, Cell7 og Reykjavíkurdætur undir stjórn Bjarna Frímanns Bjarnasonar.

Harry Potter með undirleik

„Af öðrum hápunktum má nefna kvikmyndatónleikana okkar í mars á næsta ári þar sem kvikmyndin Harry Potter og viskusteinninn verður sýnd með lifandi tónlistarflutningi hljómsveitarinnar undir stjórn Timothy Henty,“ segir Lára Sóley, en höfundur tónlistarinnar er John Williams.

„Loks verð ég að nefna að á aðventutónleikum okkar 3. desember stígur breski sönghópurinn The King's Singers í fyrsta sinn á svið með hljómsveitinni og flytur meðal annars vinsælar útsetningar af jólaplötum sínum, en einnig nýjar útsetningar bæði fyrir hópinn einan og með hljómsveit,“ segir Lára Sóley, en stjórnandi er Benjamin Bayl.

Fjöldi íslenskra einleikara

Þegar litið er yfir nýkynnt starfsár SÍ vekur athygli hversu margir íslenskir einleikarar munu koma fram í vetur, ekki síst einleikarar úr hljómsveitinni. Aðspurð hvort þetta sé viðbragð við kófinu svarar Lára Sóley því neitandi. „Við vorum búin að skipuleggja komandi starfsár áður en kófið brast á og því er það skemmtileg tilviljun að við höfðum ráðgert að gefa fjölda íslenskra einleikara tækifæri til að koma fram með hljómsveitinni,“ segir Lára Sóley, en meðal þeirra sem bregða sér í hlutverk einleikara eru David Bobroff bassabásúnuleikari, Grímur Helgason klarinettuleikari, Sigrún Eðvaldsdóttir fiðluleikari, Emilía Rós Sigfúsdóttir flautuleikari og Una Sveinbjarnardóttir fiðluleikari sem frumflytja mun nýjan fiðlukonsert eftir Þuríði Jónsdóttur í júní á næsta ári undir stjórn Daníels Bjarnasonar.

Meðal erlendra einleikara sem ráðgert er að komi fram með hljómsveitinni í vetur eru píanóleikarinn Emanuel Ax sem flytur Píanókonsert nr. 5 eftir Beethoven á sérstökum heiðurstónleikum fyrir Vladimir Ashkenazy í júní; píanóleikarinn Benjamin Grosvenor sem flytur Píanókonsert nr. 1 eftir Beethoven í nóvember og píanóleikararnir Pierre-Laurent Aimard og Tamara Stefanovich sem flytja verk fyrir eitt og tvö píanó eftir m.a. Béla Bartók, Olivier Messiaen og György Ligeti á tónleikum í mars undir stjórn Elim Chan.

Bíða með kortasöluna

Miðað við núverandi samkomutakmarkanir mega ekki fleiri en 100 einstaklingar koma saman hvort sem er í opinberum eða einkarýmum, en í sumar fór hámarkið upp í 500 manns. „Það hefur auðvitað heilmikil áhrif á rekstur hljómsveitarinnar að mega aðeins nýta hluta salarins,“ segir Lára Sóley og bendir á að hljómsveitin hafi orðið fyrir algjöru sértekjufalli þegar kófið hófst síðasta vetur. „Sértekjurnar okkar er það sem við erum að nota til framleiðslunnar á viðburðum meðan föstu framlögin frá hinu opinbera standa straum af rekstrarkostnaðinum. Af því leiðir að við þurfum að huga vel að því hverjir möguleikar okkar eru og því skiptir okkur gríðarlegu miklu máli að við getum við fyrsta tækifæri komið tónleikahaldinu af stað,“ segir Lára Sóley og bendir á að þótt nýtt starfsár hljómsveitarinnar hafi nú verið kynnt á vef hljómsveitarinnar, sinfonia.is, þá verði fyrirkomulag korta- og miðasölu ekki kynnt nánar fyrr en aflétting takmarkana fari að skýrast og hægt verði að bjóða gestum í salinn.

Möguleiki að sleppa hléinu

„Vegna samkomutakmarkana getum við ekki lofað sömu föstu áskriftarsætum í vetur, en munum auðvitað tryggja sömu sæti þegar samkomutakmörkunum hefur verið aflétt,“ segir Lára Sóley og tekur fram að það skipti hljómsveitina miklu máli að vera áfram í góðum tengslum við áskrifendur sína, enda um dýrmætt samband að ræða.

„Við erum með hátt á fjórða þúsund áskrifenda sem þýðir að það eru um 800 áskrifendur á flestum áskriftartónleikum hljómsveitarinnar. Það gefur augað leið að verði fjöldatakmörkin aðeins hækkuð upp í 500 manns þá kæmust ekki allir áhorfendur á eina tónleika,“ segir Lára Sóley og tekur fram að verið sé að hugsa í lausnum hvað þetta varðar. „Við munum að sjálfsögðu fara í einu og öllu eftir leiðbeiningum sóttvarnayfirvalda í okkar starfi. Út frá sóttvarnareglum gæti verið æskilegt að sleppa hléinu á tónleikum. Við erum einnig að skoða hvort mögulega sé hægt að spila hverja tónleikar oftar en einu sinni. Það mikilvægasta í öllu þessu ferli er að við gerum það sem við getum innan þess ramma sem okkur er afmarkaður,“ segir Lára Sóley og bendir á að hljómsveitin finni fyrir mikilli eftirvæntingu og eftirspurn meðal almennings sem bíði eftir því að geta mætt aftur á tónleika hjá sveitinni.

Fastir liðir eins og venjulega

Aðspurð segir Lára Sóley að SÍ fylgist vel með þróun mála erlendis og til hvaða ráðstafana sinfóníuhljómsveitir erlendis grípi, en SÍ á aðild að stjórn félags norrænna sinfóníuhljómsveita og er í góðu samtali við stjórn breskra hljómsveita. „Í Danmörku hefur til dæmis verið farin sú leið að taka upp vikulega skimun fyrir alla starfsmenn hljómsveita,“ segir Lára Sóley og bendir á að allir starfsmenn SÍ hafi farið í skimun í síðustu viku samhliða því sem rýmkun á fjarlægðartakmörkunum á æfingum tók gildi. „En auðvitað er það svo að aðstæður eru ólíkar í hverju landi fyrir sig og því er verið að gera hlutina með mismunandi hætti í hinum ólíku löndum,“ segir Lára Sóley og tekur fram að þrátt fyrir kófið séu allir fastir liðir eins og venjulega á komandi starfsári. „Við munum þannig bjóða upp á tónleikakynningar, skólatónleika, barnastundir og fjölskyldutónleika. En auðvitað þurfum við að bregðast við og skipuleggja okkur eftir því sem aðstæður leyfa hverju sinni,“ segir Lára Sóley að lokum.

Viðtalið við Láru Sóleyju birtist fyrst í Morgunblaðinu fimmtudaginn 3. september. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Bjóddu þig fram í verkefni sem enginn vill eða veit hvernig á að leysa. Þú hefur gaman af gátum og því að brjóta heilann.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson