Alltaf að horfa á kvikmyndir

Frances McDormand í Nomadland sem hlaut Gullna ljónið, aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar …
Frances McDormand í Nomadland sem hlaut Gullna ljónið, aðalverðlaun kvikmyndahátíðarinnar í Feneyjum, fyrr í þessum mánuði.

Frédéric Boyer fer fyrir dagskrárnefnd RIFF, Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík, og ber ábyrgð á keppnisflokknum Vitrunum sem tileinkaður er nýjum leikstjórum og efnilegum og er ýmist fyrsta eða önnur kvikmynd þeirra sýnd í flokknum. Ein myndanna hlýtur aðalverðlaun hátíðarinnar, Gyllta lundann. Boyer er einnig listrænn stjórnandi kvikmyndahátíðanna Tribeca í New York og Les Arcs í Frakklandi. Þá hefur hann á ferli sínum einnig gegnt starfi aðaldagskrárstjóra þess hluta kvikmyndahátíðarinnar í Cannes sem nefnist Directors' Fortnight.

Frábært fólk

Boyer er hinn hressasti þegar blaðamaður nær tali af honum rétt fyrir kvöldmat í París. Hann er spurður hvert ferlið sé þegar kemur að því að velja myndir á RIFF og segir hann dagskrárnefndina alltaf vinna náið saman. Valið sé því aldrei í höndum einnar manneskju. „Ég er að vinna með frábæru fólki,“ segir Boyer en hinir í nefndinni eru Hrönn Marinósdóttir, Guðrún Helga Jónasdóttir, Ana Catala og Giorgio Gosetti en Gosetti gegndi áður þeirri stöðu sem Boyer gegnir nú. „Við horfum á margar kvikmyndir og ræðum þær okkar á milli, reynum að finna frekar nýlegar myndir, myndir sem sýndar hafa verið nýverið á hátíðum, t.d. í Feneyjum, og reynum að hafa kynningar, annaðhvort á netinu eða á staðnum, og „spurt og svarað“-sýningar,“ segir Boyer.

Boyer segist hafa fengið þá hugmynd að sýna heimildarmyndir um listamenn á hátíðinni í ár og er stoltur af því framtaki sínu. „Þetta eru myndir um listamenn og portrett af þeim,“ útskýrir Boyer og nefnir m.a. mynd um ljósmyndarann Helmut Newton. Mun sá flokkur nefnast „Innsýn í huga listamannsins“ og munu áhorfendur fara í „ferðalag um sköpun áhrifaríkra listamanna – hvort sem það eru meistarar í hönnun og arkitektúr, umdeildir kvikmyndagerðarmenn, víðfrægir ljósmyndarar eða tónlistarfólk frá öllum heimshornum,“ svo vitnað sé beint í texta um flokkinn á vef RIFF.

Alltaf að horfa á kvikmyndir

Boyer hefur alltaf verið mikill áhugamaður um kvikmyndir og starfaði m.a. á vídeóleigu í París í 14 ár. „Hún var á sínum tíma stærsta vídeóleiga Evrópu, með 65.000 titla, og það var mjög spennandi að vinna þar, velja kvikmyndir á leiguna, ræða við viðskiptavini og ráðleggja þeim,“ segir Boyer. Nú eru vídeóleigurnar svo gott sem horfnar og segir Boyer kvikmyndahátíðir fyrir vikið þeim mun mikilvægari.

–Hversu margar kvikmyndir horfir þú á daglega yfir árið að meðaltali? Tvær á dag?

„Miklu fleiri,“ svarar Boyer, „því ég er listrænn stjórnandi Les Arcs sem er haldin í desember og Tribeca og svo fer ég á fjölmargar kvikmyndahátíðir. Ég er alltaf að horfa á kvikmyndir, hef mikinn áhuga á þeim og það er því erfitt að telja hversu margar þær eru,“ segir Boyer og hlær innilega.

Hann segir mikilvægt að hafa opinn huga og fagna hvers konar kvikmyndum frá ólíkum heimshornum. Best sé að vita sem minnst áður en sýning hefst en auðvitað viti hann alltaf eitthvað um þær myndir sem hann velur að horfa á. „Dagskrárgerð er ekki bara spurning um smekk heldur er dagskráin eins og matseðill með forréttum, aðalréttum og eftirréttum,“ bendir Boyer á. Gæta þurfi að því að dagskráin sé fjölbreytt og ekki aðeins með kvikmyndasýningum heldur margs konar kvikmyndatengdum viðburðum.

Getur verið þreytandi

–Þetta kann að vera kjánaleg spurning en er ekki hætta á því, í þínu starfi, að þú verðir leiður á kvikmyndum?

„Nei, þetta er alls ekki kjánaleg spurning, þetta er mjög góð spurning! Auðvitað erum við stundum þreytt af því við erum ekki alltaf að horfa á meistaraverk eða góðar kvikmyndir en við þurfum alltaf á kvikmyndum að halda. Því verð ég að fara á milli landa, hitta kvikmyndagerðarmenn, fara á kvikmyndamarkaði og kynna mér líka verk í vinnslu,“ svarar Boyer. Starf hans felist einnig og ekki síst í endurgjöf, að gefa álit og velja og hafna. „Það geta verið fjölmargar ástæður fyrir því að maður segir nei,“ bendir Boyer á og að hinir listrænu stjórnendur hafi auðvitað ólíkan smekk.

Hið óvænta mikilvægt

–Yfir hvaða eiginleikum býr góð kvikmynd?

„Það er auðvitað huglægt mat og fer líka eftir aðstæðum, t.d. hvort þú ert að horfa á kvikmynd með maka þínum, börnum eða einn og hvort þú ert niðurdreginn eða hress. Allt þetta skiptir máli. Kvikmynd sem þú sást fyrir 20 árum virkar öðruvísi á þig í dag,“ svarar Boyer. Frásögnin þurfi að vera nógu áhugaverð til að halda manni föngnum frá upphafi til enda og ákveðin gæði þurfi að vera fyrir hendi, m.a. þegar kemur að leikurum og samtölum. Margir ólíkir þættir þurfi að smella saman til að kvikmynd verði góð.

„Svo er það hið óvænta, að koma fólki á óvart í stað þess að endurtaka eitthvað sem hefur margoft verið gert,“ segir Boyer og nefnir m.a. ofurhetjumyndir þar sem fylgt sé ákveðinni formúlu og endurtekningum. „Ég kann vel að meta þegar kvikmyndagerðarmaður býður mér í ferðalag um heim sem ég þekki ekki,“ bætir Boyer við, „heldur mér föngnum í frásögninni og færir mér listaverk.“

Óvissutímar

–Nú hefur Covid-faraldurinn haft slæm áhrif á kvikmyndageirann á margan hátt, m.a. með lokun kvikmyndahúsa, síðan fjöldatakmörkunum og töfum á kvikmyndatökum. Heldurðu að áhrifa þessa eigi eftir að gæta næstu ár?

„Já, vissulega. Í fyrsta lagi vitum við ekki hvað mun gerast á næsta ári og ég held að þetta snúist um samstöðu, að við förum aftur í bíó og styðjum þannig reksturinn og um leið kvikmyndagerðarmenn,“ segir Boyer. Margt hafi breyst með Covid-19 og muni breytast, nú megi fólk t.d. ekki kyssast og faðmast og það eitt og sér muni breyta kvikmyndum næstu mánaða og ára. Kvikmyndagerðarmenn þurfi að laga sig að ýmsum breytingum og leita leiða til að halda listinni lifandi og fjölbreyttri sem fyrr.

Boyer segist að lokum hlakka mikið til hátíðarinnar í Reykjavík, að hitta þar fyrir kvikmyndagerðarmenn og kynna gestum þær gæðamyndir sem prýða dagskrána.

RIFF fer fram 24. september til 4. október og má finna allar upplýsingar um hátíðina á riff.is.

Fréderic Boyer.
Fréderic Boyer.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant