Allt litróf mannlegra tilfinninga

Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri segir mikla veislu bíða landsmanna í …
Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri segir mikla veislu bíða landsmanna í Þjóðleikhúsinu í vetur. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Okkar bíður mikil veisla, allt litróf mannlegra tilfinninga,“ segir Magnús Geir Þórðarson þjóðleikhússtjóri um komandi leikár Þjóðleikhússins sem hefst formlega í kvöld með frumsýningu á Upphafi í Kassanum.

„Veturinn leggst einstaklega vel í mig enda erum við með afar fjölbreytt og metnaðarfullt leikár þar sem hvergi er slegið af. Fjöldi sterkra listamanna hefur gengið til liðs við Þjóðleikhúsið á síðustu mánuðum og leikárið einkennist ekki síst af miklum fjölda íslenskra verka og góðu úrvali barnasýninga,“ segir Magnús Geir þegar hann er spurður hvernig veturinn leggist í hann nú meðan eins metra reglan er í gildi út af kófinu og hámarksfjöldi leikhúsgesta má vera 200.

„Nýverið hefur verið slakað á takmörkunum í tvígang og við gerum ráð fyrir frekari tilslökunum á næstunni. Hins vegar er okkur ekki til setunnar boðið og því hefjum við leik miðað við núverandi takmarkanir. Við trúum því að þjóðin þurfi á því að halda að sækja sér andlega næringu og skynjum skýrt ákall um það. Við ætlum að taka þátt í því að koma hjólunum af stað á nýjan leik og okkar hlutverk er að hreyfa við og hrífa áhorfendur með okkur. Við þurfum öll á því að halda.

Leikárið sem við erum að leggja upp með markar að mörgu leyti nýtt upphaf hér í Þjóðleikhúsinu,“ segir Magnús Geir og tekur fram að það skýrist meðal annars af nýju teymi listrænna stjórnenda, sem hefur endurskoðað áherslur og stefnu leikhússins. „Við höfum líka nýtt tímann síðustu sex mánuði meðan leikhúsið hefur verið lokað almenningi til að gera gagngerar endurbætur á forsal til að bæta þjónustuna við áhorfendur með það að markmiði að efla leikhúsupplifun þeirra,“ segir Magnús Geir og nefnir í því samhengi bætta veitingaaðstöðu og nýja leikhúsbókabúð þar sem ný íslensk verk, nýjar þýðingar verka, bækur um leikhús og prentaðar leikskrár verða til sölu.

Hvalreki fyrir íslenskt leikhús

„Fyrsta frumsýningin á Stóra sviðinu verður 26. september á Kardemommubænum eftir Thorbjørn Egner, sem er ástsælasta fjölskyldusýning Íslendinga fyrr og síðar,“ segir Magnús Geir, en leikstjóri er Ágústa Skúladóttir. „Þetta ástsæla verk birtist hér í viðamikilli og metnaðarfullri uppsetningu,“ segir Magnús Geir og vísar þar til stórs leikhóps og fjölmennrar hljómsveitar. Bendir hann á að þegar sé orðið uppselt á fyrstu 30 sýningarnar.

„Í lok október er komið að Framúrskarandi vinkonu sem er stórsýning í fleiri en einum skilningi. Leikverkið er byggt á Napólí-sögum Elenu Ferrante, sem er stór epísk, dramatísk saga, en á sama tíma aðgengileg,“ segir Magnús Geir og tekur fram að sýningin verði brotin upp með tveimur hléum. „Uppsetningin er leidd af einum fremsta leikstjóra heims í dag, Yaël Farber,“ segir Magnús Geir og áréttar að það sé hvalreki fyrir íslenskt leikhúslíf að fá Farber til starfa hérlendis. „Leikhópurinn er agndofa yfir aðferðum hennar,“ segir Magnús Geir og bendir á að Farber leiði tæplega 30 manna leikhóp og sterkt teymi listrænna stjórnenda. „En í þeim hópi er hreyfihöfundurinn Conor Doyle, sem er einn leiðtoga hins þekkta Punch Drunk-leikhúss.“ Höfundur leikgerðarinnar er April de Angelis og Salka Guðmundsdóttir íslenskaði.

Jólasýning Þjóðleikhússins er Nashyrningarnir eftir Eugène Ionesco í þýðingu Guðrúnar Vilmundardóttur og leikstjórn Benedikts Erlingssonar „Þetta merka verk var frumsýnt í Þjóðleikhúsinu 1961 aðeins ári eftir heimsfrumsýninguna,“ segir Magnús Geir og fagnar því að verkið sé loks aftur að rata á svið í atvinnuleikhúsi hérlendis. „Þetta er eitt af merkustu verkum 20. aldarinnar. Verk sem talar sterkt inn í samtímann og leikstjórinn er með spennandi og ærslafullar hugmyndir um uppsetninguna.“

Rómeó og Júlía eftir William Shakespeare í leikstjórn og leikgerð Þorleifs Arnar Arnarssonar og þýðingu Jóns Magnúsar Arnarssonar og Hörpu Rúnar Kristjánsdóttur verður frumsýnt á Stóra sviðinu í febrúar. „Ég er ekki í nokkrum vafa um að leikhópurinn undir stjórn Þorleifs muni töfra fram mjög kraftmikla, nútímalega og óvænta útgáfu af þessari frægustu ástarsögu allra tíma,“ segir Magnús Geir og áréttar að sýn Þorleifs á verkið sé afgerandi þar sem kastljósinu verði ekki síst beint að hlutskipti Júlíu í verkinu.

„Síðasta frumsýningin á Stóra sviðinu er nýtt íslenskt verk eftir Tyrfing Tyrfingsson í leikstjórn Stefáns Jónssonar sem nefnist Sjö ævintýri um skömm,“ segir Magnús Geir og tekur fram að mikilvægt sé að íslenskir höfundar fái tækifæri til að sýna verk sín á Stóra sviðinu. „Tyrfingur hefur síðustu árin verið eitt af okkar fremstu leikskáldum. Hér mætir hann með sitt besta verk til þessa,“ segir Magnús Geir og upplýsir að verkið fjalli um konu sem lent hafi í áfalli og fari í gegnum sjö ævintýri sem stjórna lífi hennar til að ná bata og skila skömminni. „Þetta ferðalag er átakanlegt, en einkennist samtímis af bullandi húmor,“ segir Magnús Geir og bendir á að þrjár konur verði í aðalhlutverkum, þær Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Ilmur Kristjánsdóttir ásamt Hilmi Snæ Guðnasyni sem fastráðið hefur sig við Þjóðleikhúsið á ný.

Ögraði ríkjandi viðhorfum

Sex sýningar verða frumsýndar í Kassanum á komandi leikári. Fyrst ber þar að nefna Upphaf eftir David Eldridge í þýðingu Auðar Jónsdóttur og leikstjórn Maríu Reyndal. „Þetta er undurfagurt leikrit sem frumsýnt var hjá Breska þjóðleikhúsinu fyrir þremur árum þar sem það sló í gegn,“ segir Magnús Geir og rifjar upp að hann hafi verið dolfallinn þegar hann sá uppfærsluna í London. „Í verkinu fylgjumst við með tveimur ókunnugum manneskjum sem reyna að nálgast hvor aðra að loknu partíi. Þetta er verk um nánd og nándarfælni, þar sem þessi næturstund gæti orðið upphafið að einhverju meiru.“

Leikgerð Silju Hauksdóttur og Ilmar Kristjánsdóttur á Kópavogskróniku Kamillu Einarsdóttur í leikstjórn Silju verður frumsýnd 25. september, en uppsetningin var nær tilbúin í vor þegar samkomubannið skall á vegna kófsins. „Þetta er fersk og drepfyndin saga úr Íslandi samtímans um unga konu sem reynir að sameina móðurhlutverkið og djammlífernið.“

Síðasta frumsýningin í Kassanum fyrir áramót er Jólaboðið í leikstjórn Gísla Arnar Garðarssonar sem einnig skrifar handritið, sem er innblásið af verki Thorntons Wilder, The Long Christmas Dinner , og sýningu Þjóðleikhússins í Noregi, unninni af Tyru Tønnessen. „Verk Wilder er brilljant hugmynd í grunninn þar sem við fylgjumst með stórfjölskyldu á 100 ára tímabili og gægjumst reglulega inn um gluggann á aðfangadagskvöldi,“ segir Magnús Geir, en í meðförum Gísla hefur verkið verið staðfært og aðlagað að íslenskum veruleika og sögu. „Þetta er fjölskyldusaga með öllu því drama sem slíkt getur innifalið, en á sama tíma er þetta bæði hlýleg og jólaleg sýning,“ segir Magnús Geir og bendir á að sýningin verði frumsýnd 6. nóvember og aðeins sýnd fram á þrettándann.

„Í lok janúar frumsýnum við metnaðarfullt nýtt verk í Kassanum,“ segir Magnús Geir og vísar þar til Ástu í leikstjórn Ólafs Egils Egilssonar sem jafnframt skrifar handritið og byggir á höfundarverki og ævi Ástu Sigurðardóttur, en Birgitta Birgisdóttir leikur titilhlutverkið. „Ásta var mikil skáldkona, myndlistarkona og bóhem. Hún hafði með list sinni og líferni mikil áhrif á bæjarlíf Reykjavíkur. Hún hikaði ekki við að ögra ríkjandi viðhorfum og lýsa mætti skrifum hennar sem fyrstu #metoo-sögunum.

Í mars frumsýnum við enn eitt íslenska verkið, en það er Vertu Úlfur sem Unnur Ösp Stefánsdóttir leikstýrir, en hún skrifar jafnframt leikgerð upp úr magnaðri bók Héðins Unnsteinssonar,“ segir Magnús Geir og bendir á að verkið veiti innsýn í baráttu manns sem glími við geðsjúkdóm, en tekst að nýta reynslu sína til að breyta geðheilbrigðiskerfinu og vinna bug á fordómum samfélagsins.

Síðasta frumsýning leikársins í Kassanum er Krufning á sjálfsmorði eftir Alice Birch í þýðingu Sölku Guðmundsdóttur og leikstjórn Mörtu Nordal, en um er að ræða samstarfsverkefni Þjóðleikhússins við Leikfélag Akureyrar og Listaháskóla Íslands þar sem útskriftarnemar af leikarabraut skólans leika. „Í verkinu segja þrjár kynslóðir kvenna sögu sína samtímis á sviðinu og skoðað er hvernig áföll og sorg erfast milli kynslóða,“ segir Magnús Geir og fagnar samstarfinu við LA og LHÍ. „Ég trúi því að Þjóðleikhúsið eigi að vera stórt í hugsun. Okkar markmið er að efla leikhúslíf í landinu öllu. Það gerum við með því að láta leiklistina blómstra hér í húsinu, en einnig því að fara í leikferðir um landið og efla samstarfið við aðra í landinu sem eru að sinna leiklist,“ segir Magnús Geir og bendir á að Þjóðleikhúsið muni fara með að minnsta kosti þrjár sýningar í leikferðir um landið í vetur; Upphaf , Vloggið og Ég get .

Mikill fjöldi barnasýninga

„Við erum mjög stolt af þeim mikla fjölda barnasýninga sem við bjóðum upp á í vetur. Fyrir utan Kardemommubæinn frumsýnum við í Kúlunni í mars Kafbátinn eftir Gunnar Eiríksson í leikstjórn Hörpu Arnardóttur,“ segir Magnús Geir og rifjar upp að Kafbáturinn hafi verið valinn úr um 150 innsendum handritum sem bárust Þjóðleikhúsinu þegar það auglýsti eftir nýjum íslenskum barnaleikritum. „Gunnar, sem býr í Noregi þar sem hann vinnur sem leikari og leikstjóri, skrifaði þetta dásamlega verk sem fjallar um feðgin sem ferðast um höfin í kafbát í ókominni framtíð eftir að öll lönd eru sokkin í sæ,“ segir Magnús Geir og tekur fram að verkið sé í senn fyndið, átakanlegt, ógnvekjandi og hjartnæmt.

Í janúar verður í Kúlunni frumsýnt samstarfsverkið Geim-mér ei eftir leikhópinn Miðnætti í leikstjórn Agnesar Wild, sem hentar að sögn þjóðleikhússtjóra mjög vel yngstu áhorfendunum. „Þetta er heillandi brúðusýning leikin án orða um ævintýraþrá, áræði og vináttu,“ segir Magnús Geir og bendir á að sýningin henti vel börnum með ólík móðurmál. Í apríl er frumsýnd unglingasýningin Vloggið eftir Matthías Tryggva Haraldsson í leikstjórn Björns Inga Hilmarssonar. „Þetta er verk um ungt fólk og samfélagsmiðla,“ segir Magnús Geir. Einnig verða í Kúlunni sýnd frá fyrri leikárum Þitt eigið leikrit II – Tímaferðalag ; Leitin að jólunum ; Ég get og brúðusýningin Aladdín , en Brúðuloftinu verður breytt í Loftið og við það færast sýningar Brúðuheima í Kúluna.

Sprottin úr íslenskum samtíma

„Við höfum markað tveimur rýmum í húsinu, Kjallaranum og Loftinu, afgerandi sérstöðu. Bæði rými eru hugsuð fyrir ungt fólk, en með gjörólíkri nálgun. Kjallarinn, sem hefur verið endurnýjaður í upprunalegum anda, verður klassabúlla þar sem boðið verður upp á uppistand, impro, kabaretta og drag í hæsta gæðaflokki auk þess sem leikhópurinn Kanarí frumsýnir nýja grínsýningu í leikstjórn Guðmundar Felixsonar. Loftið er hins vegar nýr vettvangur fyrir formtilraunir, rannsóknir og nýsköpun í leikhúsinu þar sem ætlunin er að þróa verk fyrir ungt fólk og með virkri þátttöku þess í sköpunarferlinu,“ segir Magnús Geir og bendir á að nú bjóði Þjóðleikhúsið fólki yngra en 25 ára leikhúskort þar sem miðinn sé á bíóverði til að auka aðgengi þess að leikhúsinu óháð efnahag.

Í Kjallaranum verður í nóvember hleypt af stokkunum nýju hádegisleikhúsi þar sem boðið verður upp á 25 mínútna langar sýningar. „Við völdum fjögur verk úr um 250 innsendum verkum til að setja upp í vetur og þrjú fyrir næsta leikár. Þetta eru eitursnjöll og auðmeltanleg verk sprottin úr íslenskum samtíma,“ segir Magnús Geir, en verk vetrarins eru Út að borða með Ester eftir Bjarna Jónsson og Verkið eftir Jón Gnarr sem Gréta Kristín Ómarsdóttir leikstýrir, en hún er jafnframt listrænn stjórnandi bæði Kjallarans og Loftsins; Heimsókn eftir Hildi Selmu Sigbertsdóttur sem Vigdís Hrefna Pálsdóttir leikstýrir og Rauða kápan eftir Sólveigu Eiri Stewart sem Hilmar Guðjónsson leikstýrir. „Það er ánægjulegt að geta gefið bæði nýjum röddum og leikstjórum tækifæri, á sama tíma og allir fremstu leikstjórar landsins eru að leikstýra hjá okkur.“

Viðtalið við Magnús Geir birtist fyrst í Morgunblaðinu fimmtudaginn 17. september. 

mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú ert í aðstöðu, þar sem gömlu góðu ráðin duga hvergi. Viðkvæmt leyndarmál er þér falið svo gættu þess að bregðast ekki því trausti.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Birgitta H. Halldórsdóttir
3
Inger Wolf
5
Sofie Sarenbrant