„Erfitt að leika á móti Jóni Gnarr“

Auðunn Blöndal er einn af handritshöfundum Eurogarðsins og fer með …
Auðunn Blöndal er einn af handritshöfundum Eurogarðsins og fer með hlutverk í þáttunum. Ljósmynd/Lilja Jóns

Á sunnudaginn fara í loftið íslensku gríndrama þættirnir Eurogarðurinn á Stöð 2. Fjölmiðlamaðurinn Auðunn Blöndal er einn af handritshöfundum þáttanna og fer þar að auki með eitt af aðalhlutverkunum. 

Þættirnir snúast í grunninn um mann sem fær systur sína í lið með sér sem fjárfestir og kaupir Fjölskyldu- og húsdýragarðinn. Hann fer inn í það verkefni með það í huga að gera hann að einhverskonar Disney-garði á Íslandi. 

„Við skrifin vorum við með frjálsar hendur um hvað við ætluðum að gera. Um tíma átti þetta að vera trúarhópur sem ætlaði að svíkjast undan skatti. En hugmyndin um Fjölskyldu- og húsdýragarðinn datt inn á lokametrunum, sem betur fer, og við vorum öll mjög hrifin af þessari hugmynd,“ segir Auðunn í viðtali við mbl.is. 

Ásamt Auðunni í skrifunum voru Anna Svava Knútsdóttir, Steinþór Hróar Steinþórsson, Halldór Laxness Halldórsson og Arnór Pálmi Arnarsson. Anna Svava, Steinþór, betur þekktur sem Steindi Jr. og Halldór fara öll með hlutverk í þáttunum en viðskiptamanninn mikla túlkar Jón Gnarr. Arnór Pálmi leikstýrði þáttunum sem framleiddir eru af Glassriver fyrir Stöð 2.

Anna Svava Knútsdóttir og Auðunn í tökum.
Anna Svava Knútsdóttir og Auðunn í tökum. Ljósmynd/Lilja Jóns

Jón Gnarr kannast flestir Íslendingar við en Auðunn segir að hann eigi mjög erfitt með að leika á móti Jóni. „Það er erfitt að leika á móti Jóni Gnarr því hann er alltaf að leika sér að því að láta þig hlæja. Hann veit að hann á mjög auðvelt með mig því mér finnst hann svo fyndinn. Hann breytir oft orðum eða bætir inn tveimur þremur línum svo hann viti að ég sé að fara eyðileggja tökurnar,“ segir Auðunn og bætir við að það hafi verið hrikalega gaman að leika svona stórt hlutverk á móti honum. 

Auðunn hefur unnið mikið með Steinda Jr. en hann var í fyrsta skipti að skrifa handrit með þeim Önnu, Halldóri og Arnóri Pálma. Þau þrjú eru öll menntuð í sínu fagi og fannst honum gaman að fá innsýn í hvernig þau byrja að skrifa handrit. „Það var gaman að sjá hvernig þau fara meira í baksöguna á fólki heldur en þegar ég er að skrifa. Ég er meira að finna einhverjar fyndnar aðstæður. Þannig ég lærði mikið og þetta var skemmtilegt,“ segir Auðunn. 

Auðunn eignaðist sitt fyrsta barn á síðasta ári með sambýliskonu sinni Rakel Þormarsdóttur. Aðspurður að því hvort hann hyggist feta í fótspor vinar síns og samstarfsfélaga Sverris Þórs Sverrissonar, Sveppa, að fara vinna að barnaefni segir Auðunn að það muni gerast seint. Sveppi hefur gert það gott í efni framleitt fyrir börn og fer um þessar mundir með hlutverk í Kardimommubænum sem frumsýnt verður í Þjóðleikhúsinu um helgina. 

„Ég ætti erfitt með að vera barnastjarna ég verð að viðurkenna það. Sveppi komst upp með það. Þegar við vorum í 70 mínútum og fórum erlendis þá soguðust krakkarnir að honum út af bumbunni og þessum stóru krullum. Hann er bara eins og einhver krakkafígúra eða bangsi. Ég er ekki viss um að krakkar séu eitthvað til í einhvern fertugan sköllóttan kall,“ segir Auðunn. 

Leikstjórinn Arnór Pálmi Arnarsson.
Leikstjórinn Arnór Pálmi Arnarsson. Ljósmynd/Lilja Jóns
mbl.is
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Nú gengur það ekki lengur að þú skjótir á frest að laga það sem aflaga hefur farið heima fyrir. Notaðu tækifærið og hrintu einhverju sem þú hefur á prjónunum fyrir sjálfan þig í framkvæmd.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson