Íslendingur kemur að skipulagningu sönglagakeppni góðvildar og umhyggju

Linda Baldvinsdóttir með Bítlastyttunum í Liverpool.
Linda Baldvinsdóttir með Bítlastyttunum í Liverpool. Ljósmynd/Aðsend

Í tilefni áttræðisafmælis John Lennons í dag, föstudaginn 9. október, hefur Linda Baldvinsdóttir, sendiherra Kind20 á Íslandi, unnið að því í samvinnu við borgarráð Liverpool og hins heimsþekkta Cavern klúbbs, að efna til alþjóðlegrar sönglagakeppni. Þar verður leitast eftir því að finna hæfileikaríkt tónlistarfólk sem getur dimmu í dagsljós breytt á tímum sem eru líklega með þeim svörtustu í mannkynssögunni á síðari tímum.

Keppninni er ætlað að færa heiminum umhyggju í gegnum tónlist og söng og er von þeirra sem að keppninni standa að þau lög sem send verða inn muni vekja upp von og velvild í brjóstum almennings og hjálpa þeim í því bataferli sem framundan er frá þeim hrikalegu áhrifum sem heimsfaraldurinn Covid-19 hefur valdið.

Keppnin, sem skipulög er af borgarráði Liverpool í samvinnu við góðgerðarstofnunina Tuff.earth og hinum heimsfræga Cavern klúbb mun standa í 11 mánuði og verður opin öllum lagahöfundum og hljómsveitum, áhugamönnum sem og atvinnumönnum hvaðan sem er úr heiminum. „Allt frá götulistamönnum til atvinnumanna“.

Keppninni er ætlað að vekja athygli á áætlun um efnahagsbata borgarstjóra Liverpool og mun opinbert lag keppninnar verða lagið „Together As 1“, sem samið var af tónlistarmanninum Jimmy Coburn og mun hann verðlauna sigurlag keppninnar þann 9. september 2021 á 50 ára útgáfuafmæli lagsins Imagine eftir John Lennon.

Linda Baldvinsdóttir, sendiherra og skipuleggjandi Kind20 herferðarinnar á Íslandi sem góðgerðarsamtökin Tuff.earth standa að, starfar sem markþjálfi, samskiptaráðgjafi og pistlahöfundur á Smartlandsíðu Mbl.is.  Kind20 herferðinni er svo ætlað að dreifa góðmennsku, umhyggju og velvild um heim allan og vonar Linda að íslenskt tónlistarfólk taki þátt í keppninni, ekki síst vegna þeirrar einstöku  tengingar sem þjóðin á við John Lennon og Yoko Ono.

„Íslendingar hafa löngum tengst hugmyndafræði og tónlist John Lennons afar sterkum tilfinningaböndum sem birtist meðal annars í þeirri staðreynd að Yoko Ono valdi að reisa friðarsúluna sína í Viðey,“ segir Linda, ásamt þeirri staðreynd að Ísland getur státað af því að vera friðsælasta land í heimi síðustu 13 ár.

 „Friðarsúlan er ekki aðeins minnisvarði um John, hún er einnig leiðarljós fyrir það sem svo margir íslendingar trúa á, ást og frið. Íslendingar deila svo sannarlega sýn Johns á betri heim og ég vona að íslenskir lagahöfundar muni sína það í verki og senda sín lög í keppnina.

„Það væri svo vel við hæfi að það væri lag frá Íslandi sem sigrar keppnina“ segir Linda en þess má einnig geta að fyrsta framlag til keppninnar kemur einmitt frá Íslandi og er það ábreiða af laginu „Together as 1“ sem eins og áður segir er þemalag keppninnar í flutningi Guðnýjar og Stefáns ásamt hinum margrómaða Kórónukór sem sló rækilega í gegn í fyrstu Covid bylgjunni á Facebook síðunni Syngjum veiruna burt. 

Sönglagakeppnin í Liverpool var formlega kynnt og sett af stað í dag 9. október, af Joe Anderson, borgarstjóra Liverpool. „Borgin þarf á jákvæðri upplifun að halda á þessum myrku tímum, svo við ætlum að snúa okkur að því sem við gerum best, að semja tónlist,“ sagði Anderson.

„Liverpool er höfuðborg tónlistarinnar og við þurfum núna sem aldrei fyrr að upphefja tónlistina á ný. Tónlistin hefur mikinn lækningarmátt, hún hvetur til dáða, færir hamingju í líf okkar og hjálpar okkur að takast á við þá erfiðleika sem nú steðja að. Það vitum við að í baráttunni við Covid sem framundan er þurfum við að finna uppbyggjandi leiðir fyrir borgabúa til að þrauka í gegnum tíma sem þessa.“

„Það er von okkar að þessi keppni og þemalag hennar „Together As 1“, muni hjálpa til við að sameina íbúa Liverpool, hvetja til góðvildar í borginni ásamt því að hvetja lagahöfunda bæði hér og um heim allan til að semja óð til umhyggjunnar. Það gæti lífgað upp á hið goðsagnakennda tónlistarlíf Liverpool og hvatt ungt fólk til að læra á hljóðfæri eða til að semja tónlist og hver veit hvaða frábæru lög gætu litið dagsins ljós?“

"Það er við hæfi að þetta framtak fari af stað á áttræðisafmæli John Lennons, sem er einn merkasti sonur þessarar borgar. Lögin sem John samdi með Paul McCartney í Bítlunum og sígild lög eins og Imagine sem hann samdi á sínum sólóferli ásamt þeirri tónlist sem hann samdi með Yoko Ono breyttu landslagi tónlistarinnar og lyftu heimsbyggðinni upp á æðra plan. Nú er þörf á að endurtaka það.“

Keppninni er ætlað að finna hinn opinbera umhyggjusöng Liverpool. Hún mun fara árlega fram og mun verða hluti af samfélagslegri áætlun sem hvetur borgarbúa og heimsbyggðina alla til góðvildar, friðar og samkenndar en verkefni þetta er þróunarverkefni fyrir borgarstjórn Liverpool í samvinnu við  góðgerðarstofnunina tuff.earth sem er hluti af hinu alþjóðlega Kind20 Covid-baráttuverkefni.

Góðgerðarstofnunin Tuff.earth nær til fjölda landa með samfélagsmiðlaherferðinni #KIND20 og öðrum samfélagslegum verkefnum um heim allan.

 „Keppnin, og það sem hún stendur fyrir er innblásin af þeim skilaboðum sem finna má í laginu Imagine, einum vinsælasta sameiningarsöng, friðar og góðvildar allra tíma,“ sögðu Dr. Shamender Talwar og Anna Prior stofnendur tuff.earth.

„Allir flokkar tónlistar eru gjaldgengir í keppnina á hvaða tungumáli sem er, hvort sem það er rokk, rapp, popp eða klassísk tónlist en keppnin er einstök að því leyti að hún er opin öllu tónlistarfólki hvaðan sem er, þekktu eða óþekktu, allt frá götulistamönnum til atvinnumanna, og það bókstaflega því ef Paul McCartney eða Ringo Starr vilja senda inn lag þá er það velkomið.

„Við viljum sjá heiminn allan taka þátt og það skiptir engu máli á hvaða tungumáli er sungið þar sem þetta snýst eingöngu um hið alþjóðlega tungumál tónlistarinnar sem við öll skiljum svo vel, hvar sem við búum á jörðinni. Og Liverpool mun enn á ný verða leiðandi í því að fanga kraft tónlistarinnar.

„Þemalag keppninnar „Together As 1“, segir okkur að mestu um hvað keppnin fjallar. Í baráttu við Covid-19 verður heimurinn að sameinast á ný eins og segir í lagi John Lennons Imagine“.

Linda ásamt Claire McColgan, Kevin McManus, Bill Heckle og Shamender …
Linda ásamt Claire McColgan, Kevin McManus, Bill Heckle og Shamender Talwar. Ljósmynd/Aðsend

„Á næsta ári eru 60 ár frá því þetta ævintýri hófst. Cavern klúbburinn styður við þessa keppni heilshugar í von um að keppnin marki upphafið að öðru ævintýri,“ sagði Bill Heckle, framkvæmdastjóri Cavern Klúbbsins, þar sem Bítlarnir komu fyrst fram á hádegi þann 9. febrúar 1961.

Sigurlagið verður valið með atkvæðum almennings og verður frumflutt á Cavern klúbbnum þann 9. september 2021. Skipuleggjendur áætla að lagið verði svo flutt á öllum helstu tónlistarhátíðum og öðrum stærri tónlistarviðburðum sem haldnir verða í Liverpool í kjölfarið.

Þátttaka í keppninni er algjörlega ókeypis og er lagahöfundum, hljómsveitum og tónlistarmönnum um heim allan einfaldlega boðið að hlaða upp myndböndum af sínu eigin lagi eða lagi eftir aðra inn á Facebook síðu KIND20.

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú freystast til að gefa upp á bátinn þann sjálfsaga sem þú hefur tamið þér en nú er einmitt tíminn til að þrauka. Verrtu bara eins og þú átt að þér og þá muntu sjá hverjir eru vinir þínir.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú freystast til að gefa upp á bátinn þann sjálfsaga sem þú hefur tamið þér en nú er einmitt tíminn til að þrauka. Verrtu bara eins og þú átt að þér og þá muntu sjá hverjir eru vinir þínir.