11 milljóna króna bókinni stolið af bókasafni

Bókin seldist á uppboði fyrir 55 þúsund bandaríkjadali eða um …
Bókin seldist á uppboði fyrir 55 þúsund bandaríkjadali eða um 7,6 milljónir íslenskra króna.

Bókasafn í Portsmouth á Bretlandi gæti reynt að endurheimta Harry Potter bók sem seldist á uppboði í Dallas í Texas í Bandaríkjunum fyrir 11 milljónir króna á dögunum. 

Um er að ræða fyrstu útgáfu af fyrstu Harry Potter bókinni, Harry Potter og Viskusteininn. Samkvæmt heimildum BBC er bókasafnsstimpill Portsmouth City Library Service á bókinni. 

Bókin var seld af karlmanni frá Kaliforníu á uppboði í Dallas til kaupanda í Tennessee ríki fyrr í vikunni. Bókasafnið í Portsmouth segir að bókin hafi eitt sinn tilheyrt bókasafninu og að henni hafi verið stolið fyrir einhverjum árum.

Aðeins 500 eintök voru í fyrsta upplagi af bókinni árið 1997 og flest þeirra voru send í breska skóla og á bókasöfn víða um landið.

Stimpillinn í bókinni.
Stimpillinn í bókinni.

„Gögn okkar sýna að bókin var upprunalega í eigu skólabókasafns Portsmouth og var ein af þremur af fyrstu eintökunum sem bókasafnið keypti árið 1997 þegar Harry Potter kom fyrst út. Árið 2004 seldum við tvö eintök til að safna peningum fyrir bókasafnið en þriðja eintakið var týnt. Núna þegar við vitum hvar bókin er niðurkomin erum við að skoða möguleika okkar á því að endurheimta bókina,“ segir í tilkynningu frá bókasafninu. 

Eric Bradley, almannatengill á á uppboðsmarkaðnum sem bókin seldist á, segir að ef bókasafnið í Portsmouth myndi gera tilkall til bókarinnar yrði það fordæmisgefandi fyrir fjölda bókasafna. Bókasöfn kippi sér sjaldan upp við að bækur þeirra seljist á uppboði ótengt því en ef bókasafnið í Portsmouth færi í mál gæti það opnað fyrir flóðgáttir.

BBC

mbl.is

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Mikilvægar ákvarðanir bíða þín í starfi. Verkefni sem krefjast einbeitingar og úthalds liggja vel fyrir þér.

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Mikilvægar ákvarðanir bíða þín í starfi. Verkefni sem krefjast einbeitingar og úthalds liggja vel fyrir þér.