Geistleg gífurmál

Haltu mér, slepptu mér. Maddama Elísabet og séra Jóhannes.
Haltu mér, slepptu mér. Maddama Elísabet og séra Jóhannes. Danmarks Radio

Það gengur ekki lítið á í dönsku dramaþáttunum Vegum drottins, sem Ríkissjónvarpið sýnir um þessar mundir; dauði, trúarnúningur, framhjáhald, lyfjafíkn, geðveiki og Guð má vita hvað.

Það eru presthjónin séra Jóhannes og maddama Elísabet sem eru í forgrunni í Vegum drottins. Hann er risinn í sínu nærumhverfi, fljúgandi mælskur, eins konar eldklerkur, heillandi og klár en hefur sína djöfla að draga. Stutt er í hnefann ef honum misbýður og undir kraumar greinilega djúpstæð angist. Þegar við kynnumst Jóhannesi heldur hann við fiðluleikara sem starfar í kirkjunni. Það kemst upp og Elísabet launar honum lambið gráa; heldur fyrst við konu (sér og ekki síður Jóhannesi til mikillar furðu) og síðan karl. Engin viðhengi eru lengur í hjónabandinu en því fer fjarri að líf þeirra hjóna sé slétt og fellt enda þótt það virðist mjakast í rétta átt. Jóhannesi gekk um tíma bölvanlega að girnast spúsu sína en sá vítahringur virðist nú vera rofinn. Eins gott því hjónunum er af þeim vitnisburði sem fram er kominn að dæma fyrirmunað að slíta sig hvort frá öðru. 

Elísabet býr að meira jafnaðargeði en Jóhannes en lætur karlinn þó ekki eiga nokkurn skapaðan hlut inni hjá sér. Þau minna um margt á stórveldin á tímum kalda stríðsins, þar sem gagnkvæm fæling var beittasta vopnið. Og hverri Kúbudeilinni af annarri er afstýrt – gjarnan á elleftu stundu.

Hjónin eiga um sárt að binda eftir sviplegt fráfall yngri sonar þeirra, Ágústs, undir lok fyrstu seríunnar en við gæðum okkur nú á þáttaröð númer tvö. Ágúst var ljúfmennið í fjölskyldunni, prestur eins og faðir hans og mátti ekkert aumt sjá, en undir niðri kraumuðu geðhvörf sem brutust fram af fullum þunga eftir að hann kom heim út stríðinu í Írak. Þau veikindi hröktu hann að lokum út í sjálfsvíg.

Kristján og Amíra skála fyrir bjartri tíð.
Kristján og Amíra skála fyrir bjartri tíð. Danmarks Radio


Bróðirinn kennir sér um

Vitni að þeim harmleik varð eldri bróðir hans, Kristján, sem kennir sér að vonum um. Kristján býr að miklum persónutöfrum, hugmyndaauðgi og virðist, eftir að hafa villst af leið um stund, kominn á beinu brautina sem fyrirlesari og rithöfundur á sviði hugarfarsþjálfunar og almennrar lífsleikni. Hversu vel það dugar á þó eftir að koma í ljós enda veit Kristján innst inni að hann mun aldrei hljóta sömu ást og virðingu frá hendi föður síns og bróðir hans heitinn. Ósýnilegur múr er á milli þeirra feðga og hvorugur veit hvernig hann skal fella.

Sambýliskona Kristjáns er Amíra. Hún er af erlendu bergi brotin og ólst upp við íslamska trú og siði. Hefur nú snúið við þeim baki og deilir hart við barnsföður sinn, Valtý, sem vill ala dóttur þeirra, Safíu, upp sem múslima. Af þessu hlýst að vonum mikil togstreita sem reynir ekki síst á blessað barnið sem er farið að sýna af sér undarlega hegðun í skólanum.

Ekkja Ágústs, Emilía, er einnig hluti af fjölskyldunni enda ól hún soninn Anton skömmu eftir að bóndi hennar féll frá. Séra Jóhannes hendir tilfinningum sínum til að byrja með niður í kjallara og harðlæsir en smám saman er hann knúinn til að takast á við sorgina. Þar leikur Anton litli stórt hlutverk eftir að Emilía hleypir honum loks að afa sínum en hún á ekki gott með að treysta klerki; þykir hann hafa lagt of þungar byrðar á herðar hinum brothætta Ágústi. Allt í lífinu sé mælt út frá Jóhannesi sjálfum og mikilfengi hans.

Komin með nýjan kærasta

Tæp tvö ár eru liðin frá andláti Ágústar og í síðasta þætti upplýsti Emilía tengdafjölskylduna um að hún væri kominn með nýjan kærasta, Daníel að nafni. Og svona til að einfalda ekki flækjustigið þá var hann geðlæknir Ágústs. Af öllum mönnum. Presthjónin bjóða Daníel velkominn en Jóhannes er með böggum hildar; óttast að Anton litli verði öðru sinni tekinn af honum. Andar því strax köldu milli klerks og geðlæknisins. Fyrir utan hin persónulegu mál þá hefur Jóhannes stórkostlegar efasemdir um að nokkur dauðlegur maður sé þess umkominn að sjúkdómsgreina sálina. „Sjá þú bara um sálina, ég skal annast geðið,“ segir Daníel á fyrsta fundi þeirra félaga, Jóhannesi til takmarkaðs yndis. Hvort sem það er tilviljun eða ekki þá er Daníel á að giska helmingi lægri í loftinu en klerkurinn og standandi rökræður þeirra fyrir vikið býsna skondnar.

Þess utan virðist Kristjáni og Amíru ekkert sérstaklega skemmt yfir þessu nýja ástarsambandi, ekki síst fyrir þær sakir að Emilía kemur eigum Ágústs í akkorði frá sér, til presthjónanna og Kristjáns. Er konan að bera hann út úr lífi sínu fyrir fullt og fast – í pappakössum?

Nánar er fjallað um Vegi drottins í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins. 

Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Þessi grein birtist
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson
Fleira áhugavert

Stjörnuspá »

Hrútur

Sign icon Þú þarft að takast á hendur ítarlega rannsókn á málefni, sem þú berð fyrir brjósti. Hlustaðu á þína innri rödd. Vertu stór í sniðum.
síðasta vika Vinsælustu hljóðbækurnar
1
Lone Theils
2
Anna Sundbeck Klav
4
Birgitta H. Halldórsdóttir
5
Kristina Ohlsson